Aðlögun í leikskóla

Í upphafi tengjast börn fjölskyldum sínum. Þegar út í samfélagið er komið er það oftar en ekki tengsl barnsins við leikskólann. Það er afar mikilvægt að þessi tengsl séu jákvæð strax í upphafi, til þess að svo sé þarf að gefa barninu góðan tíma til að aðlagst leikskólanum, daglegum venjum hans og siðum. Markmið aðlögunar er að barnið öðlist traust á starfsfólki skólans og að barn og foreldrar fái jákvæða mynd af leikskólanum og því starfi sem þar er unnið. Miklu skiptir að samstaða og jákvæðni skapist milli foreldra og starfsfólks í upphafi leikskólagöngu barnsins.

Þegar barnið byrjar í leikskólanum tekur einn af starfsmönnum deildarinnar á móti því og sér um það í aðlöguninni að mestu leiti.

 

Aðlögunar áætlun Álfaborgar.

 

Allajafna tengist ungt barn fjölskyldu sinni mest. Þegar barnið eldist og fer að feta sig út í samfélagið er algengt að leikskólinn og starfsfólk hans bætist við tengslanetið. Til að svo verði er mikilvægt að barninu sé gefinn góður tími til að aðlagast leikskólanum, daglegum venjum hans og siðum. Það er því afar mikilvægt að samvinna heimilis og skóla sé jákvæð frá upphafi og að barnið finni það á meðan aðlögun stendur.

Markmið aðlögunar í leikskóla er að barnið öðlist öryggi í leikskólanum, læri að bera traust til starfsfólks hans og að barnið, sem og foreldrar þess, fái jákvæða mynd af leikskólanum og því starfi sem þar er unnið.

Þegar barnið byrjar í leikskólanum tekur einn af starfsmönnum deildarinnar á móti því og sér að mestu um það í aðlöguninni. Aðrir starfsmenn munu auk þess koma að aðlöguninni á einn eða annan hátt. Eins og áður segir skiptir sköpum að samstaða og jákvæðni skapist milli foreldra og starfsfólks í upphafi leikskólagöngu barnsins. Því er ákaflega mikilvægt að foreldri/foreldrar eða einhver náinn barninu sé með því og fylgi því í gegnum aðlögunarferlið. Það er misjafnt hversu langan aðlögunartíma hvert barn þarf, flestum dugar að taka 5 daga í ferlið á meðan önnur þurfa styttri eða jafnvel lengri tíma.

1. dagur, mæting kl 10: Barnið og foreldrar koma í heimsókn og skoða leikskólann með starfsfólki. Barnið fær að sjá hólfið sitt í forstofunni og hvar það á að sitja við borð. Þessi heimsókn tekur um það bil eina klukkustund. Heimferð upp úr kl 11.

2. dagur, mæting kl 9:30: Barnið og foreldrar koma og eru með hinum börnunum í leik og starfi þar sem barninu er gefinn kostur á að taka þátt að vild. Þessi heimsókn tekur um 2 klukkustundir og er heimferð áætluð um kl 11:30.

3. dagur, mæting kl 8:30: Barnið og foreldrar koma tímanlega fyrir morgunmat. Að honum loknum tekur barnið þátt í starfinu líkt og deginum áður. Ef vel gengur er barnið skilið eftir eftir eitt í 10 - 15 mínútur en foreldrar fara þó ekki af leikskólanum. Þessi heimsókn tekur um 3 klukkustundir en áætluð heimferð er kl 11:30.

4. dagur, mæting kl 9: Bæði barn og foreldrar ættu nú að vera orðin nokkuð örugg með sig í leikskólanum. Barnið kemur eftir morgunmat og borðar hádegismat með hinum börnunum. Foreldrar bregða sér frá í klukkustund og er sá tími nýttur til að funda með leikskólastjóra þar sem hann fer yfir stefnu skólans og hvernig skólinn hagar samskiptum sínum við foreldra. Foreldrar ræða um barnið sitt og fara yfir helstu þætti sem hafa þarf í huga. Á þessum fundi skrifa foreldrar/forráðamenn undir dvalarsamning.

5. dagur, mæting milli kl 8 og 9: Foreldrar koma með barnið í morgunmat og fara fljótlega aftur (fer eftir hvernig gengur). Barnið borðar hádegismat með hinum börnunum og ef allt gengur vel fer það að því loknu í hvíld. Foreldrar eru látnir vita þegar barnið vaknar og sækja það þá. Ef barnið er orðið nokkuð öruggt með sig og tilbúið til lengri dvalar er þetta síðasti dagur aðlögunarinnar.

Allar tímasetningar sem hér eru gefnar upp eru til viðmiðunar og miðast við barn í 8 tíma vistun. Því er áætlunin löguð að hverju tilfelli fyrir sig og reynt er að koma til móts við þarfir hvers og eins barns.