Sérstaða

Danskennsla

Á hverju ári er þriggja vikna dansnámskeið í Álfaborg/Valsárskóla. Áherslur eru eftirfarandi:

Leikskóli (Lóur og Spóar): Ýmsir dansleikir. Farið í grunnatriði í samkvæmisdönsum (stöður og hald) og ýmsum hringdönsum.  

1 – 2 bekkur og krummar: hafa æft grunnspor í samkvæmisdansi svo sem skiptispor til hliðar og með snúningi, Waltz, hægri snúning, Cha cha á staðnum og byrjuð að gera opnun (New York), Samba 1/1 í hægri fót, Einnig dansa við lögin – Agadú, Glaðasta hund í heimi, Ýkt elding, Hóký póký, Enga fordóma o.fl.

3 – 4 bekkur: Grunnspor í samkvæmisdönsunum Jive og Waltz og eru byrjuð að æfa hægri snúning í þeim báðum. Einnig grunnspor í gömludönsunum svo sem Skottís III og Ræl. Skiptidansana – Hlöðudans og Partýpolka. Einnig dansa við lögin – 5 Letras, Enga fordóma og Tusnami.

5 – 7 bekkur: Grunnspor í samkvæmisdönsunum Jive ( hægri og vinstri snúning, throwaway, vindmyll og spanish hands) og Cha cha frumspor og New York og Spot turn snúning. Einnig grunnspor í gömludönsunum svo sem Skottís III og Ræl með snúningi. Skiptidansana – Hlöðudans og Partýpolka. Einnig dansa við lögin – 5 Letras og Tusnami.

8 – 10 bekkur: Dansa gömludansana Skottís III, Ræl, Vínarkrus og Skoska dansinn. Einnig Tjútt og skiptidansana Hlöðudans og Partýpolka.  Lög sem þau velja sjálf og vinna spor við allt eftir getu og áhuga.

Leiðtogaþjálfun

Leiðtogaþjálfun fer fram í öllum bekkjum á föstudögum. Tímarnir eru 80 mínútur og skiptast í þrjá þætti. 

1. Leiðtogaþjálfun/Einstaklingsvinna. 
Kennari kemur með innlegg fyrir hópinn og nemendur  bregðast við því í umræðum. Lögð er áhersla á að nemendur skoði sjálfan sig, tilfinningar sínar og hugmyndir. 

2. Leiðtogaþjálfun/Samskipti 
Nemendur vinna að einföldum verkefnum. Þau æfa sig í að halda sig við afmörkuð verkefni, sýna jákvæð og uppbyggileg samskipti og skipta um viðfangsefni fljótt og örugglega. Í þessum tímum er áhersla lögð á að nemendur sinni sínu hlutverki.og geri sér grein fyrir því hvert það hlutverk er. Kennari fer á milli stöðva og ræðir um þau vandamál sem upp koma. Nemendur fá góðan tima til að finna lausnir og ef ekki finnast lausnir fáum við aðra nemendur með okkur í umræðuna á skólaþingi. 

3. Leiðtogaþjálfun/Skólaþing.
Rætt um það sem betur má fara í skólanum, eða vandamál sem upp hafa komið. Rætt um hvort fyrri vandamál hafa leyst og hvernig skólinn er að þróast. Rætt um hvernig menningu við viljum hafa í skólanum. Stundum er umræðuefni afmarkað af kennara og stundum ræður áhugi nemenda ferðinni. 

Hvað er leiðtogi í leiðtogasamfélagi?

Leiðtogasmiðjur

Þessar 25 mínútur eru tileinkaðar ákveðnum vinnutíma nemenda þar sem þeim gefst tækifæri til að þjálfa leiðtogahæfileika sína og láta ljós sitt skína. Nemendur hafa val um ákveðnar smiðjur þar sem samnemendur þeirra leiða starfið sem í þeim er. Nemendur fá hér lausan tauminn þar sem smiðjurnar eru sköpunarverk nemendanna sjálfra og fá þau tækifæri á að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum sem þau leggja til. Með þessu má finna, með tímanum, hvar styrkleikar þeirra liggja sem þá má styrkja enn frekar.

Nemendur eru þó ekki skikkaðir í að leiða eða skipuleggja slíka vinnu ef þeir telja sig ekki vera tilbúna til þess en hins vegar eru allir nemendur hvattir til þátttöku. Sú hvatning kemur til að mynda frá skólastjóra í upphafi leiðtogþjálfunartímanum, s.s. „en vonast ég til þess að nemendur taki af skarið og alla vegna prufi að stýra og framkvæma hugmyndir sínar.“

Þegar nemendur velja sér vinnusmiðju fá þeir spjald með nafninu sínu og eiga að setja það á ákveðið veggspjald þannig að ekki fer á milli mála í hvaða smiðju nemendur eru hverju sinni. Ákveðinn fjöldi nemenda má vera í hverjum hópi fyrir sig og hafa nemendur búið til þá reglu að ekki megi velja sömu smiðjuna nema tvisvar sinnum í röð þannig að allir hafi tækifæri á að komast í smiðjurnar.

Skólaþing

Þegar ákvarðanir eru teknar í Álfaborg/Valsárskóla er leitast eftir því að þeir sem málin snerta komi alltaf að ákvörðunum.

Á skólaþingi eru tekin fyrir mál sem snerta skólasamfélagið, allt er til umræðu nema það sem gengur gegn lögum landsins og stefnu skólans. Á skólaþingi gefst nemendum tækifæri til að tjá sig um skólamenninguna og komið með lausnir á vandamálum, allt til að gera skólann betri. Á þinginu er unnið með lýðræðið og ef upp koma hugmyndir fá nemendur að kjósa um það hvort sú tillaga fái að halda áfram í ferlinu, en þá er hugmyndin borin upp á kennarafundi og fundnar leiðir til að verða við óskum nemendanna. 

Útiskóli

Markmið í útiskóla í 1.-4 bekk

Í Álfaborg/Valsárskóla, nýsameinuðum leik- og grunnskóla á Svalbarðsströnd, fara tveir elstu árgangar leikskólans í útiskóla með tveimur yngstu árgöngum grunnskólans ásamt kennurum frá báðum stigum. Farið er út einu sinni í viku í tvær klukkustundir. Nemendur í 3.-6. bekk fara í útiskóla einu sinni í viku þar sem leikir og styttri ferðir verið meira áberandi.og á unglingastigi er boðið upp á lengri útivistaferðir sem valgrein í 7.-10. bekk.

Nágrenni Álfaborgar/Valsárskóla er mjög fjölbreytt því þar er fjara, skógarreitur með eldstæðum, þorp og sveitabæi svo eitthvað sé nefnt. Árstíðirnar og veðrið er sífelld uppspretta viðfangsefna. Leitast hefur verið við að fara í útiskólann sama hvernig veðrið er. Reynslan hefur sýnt að upplifun í slæmu veðri er það sem börnin muna eftir og læra hvað mest af. Ekkert veður er svo slæmt að ekki sé hægt að fara út í að minnsta kosti smá stund. Börnin læra t.d. hvernig best sé að klæða sig eftir veðri, finna út hvar sé líklegast að finna skjól eða hvernig best sé að komast áfram í slagviðri.

Umfjöllun um hugmyndafræði útiskólans í Álfaborg/Valsárskóla tekið saman af Bryndísi Hafþórsdóttur

Valgreinar

Nemendum 5.-10. bekkjar er boðið upp á valgreinar. Þær valgreinar sem eru í boði hverju sinni fara eftir áhuga nemenda, framboði kennara og aðstæðum. 

Nemendur í 5.-7. bekk velja sér eina námsgrein. 
Nemendur 8.-10. bekkjar velja sér tvær námsgreinar. 

Skólaárið 2017-2018 voru eftirfarandi námsgreinar í boði. 

 • Útivistarval - Einar Bjarki Sigurjónsson
 • Landafræði og listir - Ásrún Aðalsteinsdóttir
 • Skólahreysti - Einar Bjarki Sigurjónsson
 • Lego forritun - Bryndís Hafþórsdóttir
 • Sjálfstyrking - Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir

Bekkjarfundur / samverufundur

Bekkjarfundur/samverufundur er opinn umræðufundur sem haldinn er einu sinni í viku þar sem ákveðin málefni eru rædd. Hópstjóri (t.d. kennari) leggur fram spurningar tengdar umræðuefni sem liggur fyrir hvert sinn (það eru engin rétt eða röng svör). Spurningar skulu hvetja til umræðna, sjálfskoðunar, skoðanaskipta og vandamálalausna. 

Bekkjarfundir eru notaðir til að ræða mál sem þarf að leggja fyrir skólaþing eða mál sem taka á fyrir á skólaþingi. 

Misjafnt er hversu oft fundir eru haldnir og hversu lengi þeir vara. Að lágmarki skal halda bekkjarfund/samverufund einu sinni í viku en margir kjósa að funda daglega. Í leikskóla eru fundirnir óformlegri í formi samræðu og skoðanaskipta sem stendur aðeins í nokkrar mínútur. Lengd fundarins fer þannig eftir aldri nemenda og tíðni funda. Ákveðnar reglur verða að gilda á fundum og mikilvægt er að farið sé reglulega yfir það til hvers er ætlast og hrósa nemendum fyrir að sýna virðingu í samskiptum.

Dæmi um reglur á bekkjarfundum

Fyrsta skrefið í að skipuleggja fundina er að ákveða hvaða málefni skulu vera á dagskrá. Umræðuefni skulu vera viðeigandi og áhugaverð fyrir nemendur. Hafi árekstrar orðið á leikvelli væri til dæmis hægt að ræða samskipti á leikvöllum. Markmið fundarins væri að aðstoða nemendur við að ræða um ólíkar leiðir í samskiptum og nota lausnarleit á ábyrgan hátt.

Hlutverk kennarans í þessu ferli er að vera handleiðandi, þ.e. beina hópnum rétta leið. Kennara er hvorki ætlað að vera yfirmaður hópsins né sérfræðingur í því máli sem til umræðu er. Honum er ætlað að vaka yfir umræðunni, gæta þess að öll sjónarmið fái að njóta sín og niðurstaða fáist.

Að hefja bekkjarfund/samverufund
Mikilvægt er að nemendur fái óhindrað að láta í ljós skoðanir og að samræður séu með eðlilegum hætti. Þar af leiðandi er ákjósanlegt að nemendur sitji saman í hring eða skeifu og nái augnsambandi hvert við annað.

Kennarinn hefur fyrsta bekkjarfundinn á því að útskýra fyrir nemendum að framvegis verði reglulegir fundir haldnir þar sem nemendum er frjálst að ræða skoðanir og láta í ljós tilfinningar varðandi hin ýmsu málefni sem kynnt eru hverju sinni. Nemendur eru beðnir um að vera heiðarlegir þegar þeir deila skoðunum og tilfinningum. Gott getur verið að koma upp ákveðnu kerfi til að láta orðið ganga s.s. rétta upp hönd, láta spjallstein ganga eða spjald. Enginn nemandi er neyddur til þess að taka þátt í samræðum, en allir eru beðnir um að sýna virðingu með því að hlusta á þann sem er að tala.

Eftir því sem þroski barna eykst taka þau meiri þátt í mótun fundarins. Hópurinn getur komið sér saman um fundarreglur sem eru skrifaðar niður og hafðar sýnilega á fundum. Fundarreglur eiga að vera skýrar, jákvætt orðaðar og tengdar skólasáttmálanum eða einkunnarorðum skólans. Umræðuefni á fyrsta fundinum á að vera einfalt og áhugavekjandi fyrir nemendur. Gott efni á fyrsta bekkjarfund er til dæmis “Hvað mundir þú gera ef þú mættir ráða öllu á leikskólanum í einn dag”.

Það er góð starfsregla að halda fundi á sama tíma. 

Umræðuefni á bekkjarfundum geta verið margvísleg en misjafnt er hvort kennari kýs að hafa umræðuefni opið eða fyrirfram ákveðið. Góð hugmynd er að safna umræðuefnum í hugmyndabox eða fá nemendur til þess að skrifa hugmyndir á blað. Fundurinn getur einnig verið vettvangur til þess að leysa deilumál sem upp koma milli nemenda. Umræðuefni þar sem unnið er að lausnaleit geta t.d. verið: Þegar grín er gert að öðrum, einelti, að gera sitt besta, hvernig virðum við hvort annað á fundum. Þar að auki er hægt að nota bekkjarfundi til þess að auka víðsýni og sjálfsþekkingu nemenda. Það er sérstaklega mikilvægt að spurningar og umræður á þessum fundi séu opnar og hvetjandi. Umræðuefni á slíkum fundi eru t.d. hvað gerir mig hamingjusama, hvað ætla ég að gera þegar ég er orðinn stór, hvað finnst mér mikilvægt í lífinu og hvernig eru góðir vinir eða góðar vinkonur. Gott er að hafa lausnaleit til hliðsjónar á bekkjarfundum. 

Lausn vanda
Mikilvægt er að kenna nemendum að leysa einföld vandamál daglegs lífs með aðstoð fullorðinna. Síðar meir verða þeir betur í stakk búnir til að vega og meta vanda og lausnir, verða sjálfsstæðari í ákvarðanatöku og ráða betur við aðstæður.

Þegar unnið er með lausnaleit er gott að hafa eftirfarandi til hliðsjónar:

 1. Í hverju felst vandinn?
 2. Hvað er markmiðið (alltaf setja það fram á jákvæðan og sem einfaldastan hátt)?
 3. Skrá mögulegar lausnir (allir hafa rödd og koma með uppástungur, allar lausnir skráðar sama hversu fáranlegar þær eru!)?
 4. Fara í gegnum lausnir - Hvað gerist þegar þessi lausn er valin (kostir og gallar lausna)?
 5. Er þetta gerlegt (já eða nei)?
 6. Velja lausn
 7. Hversu góð er þessu áætlun?
 8. Hvenær og hvernig á að meta árangur?
 9. Hvernig reyndist lausnin sem var valin (metið eftirá)?