Valsárskóli er fámennur samkennsluskóli þar sem nemendum er kennt í 5 námshópum. Nemendur í 1. - 2. bekk, 3. - 4. bekk, 5. - 6. bekk, 7. - 8. bekk og 9. - 10. bekk eru saman í námshópum.
Samkennsla árganga er valin vegna fámennis og nýta kennarar fyrirkomulagið til að laga námið að þörfum nemendanna. Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti til að virkja alla nemendur og kemur það vel út í samkennslu árganga.
Vegna fámennis er heimilislegur bragur yfir skólastarfinu og persónuleg tengsl.
Í hverri viku eru haldnir bekkjarfundir í bekkjardeildum þar sem meðal annars eru rædd mál sem nemendur og/eða kennarar setja á dagskrá fundar. Um það bil mánaðarlega eru haldin skólaþing. Þar sitja allir nemendur og starfsfólk Valsárskóla. Allir geta komið með mál á skólaþing en fyrst þarf að vera búið að ræða málið á bekkjar- starfsmanna- eða kennarafundi og undirbúa flutning þess og rökstuðning. Markmið skólaþings er að skapa lýðræðislegan vettvang þar sem allir eru jafnir, geta sagt sína skoðun og lagt fram mál sem hafa áhrif á skólastarfið. Öll mál sem koma á skólaþing verða að vera í samræmi við stefnu skólans og landslög.
Lögð er áhersla á að allir geti haft áhrif og að allir finni sína styrkleika sem þeir geta nýtt sér til góðs. Sjálfsþekking, sjálfsstjórn og félagsfærni eru mikilvægir þættir hjá góðum leiðtogum. Til viðbótar við þá leiðtogaþjálfun sem felst í eflingu sjálfþekkingar nemenda í daglegu starfi, skólaþingum og bekkjarfundum höfum við svokallaða leiðtogaþjálfun í hvert skipti sem skólaþing er haldið. Þá fá nemendur tækifæri til að undirbúa verkefni að eigin vali, kynna þau fyrir öðrum nemendum og vera leiðtogar sem bera ábyrgð á framkvæmd verkefnisins.
Áhersla er á útikennslu í Valsárskóla og Álfaborg með áherslu á yngri bekki grunnskólans og elstu börn leikskólans. Þessir aldurshópar fara í útskóla vikulega og aðra hvora vikuna fara skólarnir sameiginlega í útiskólann, þ.e. tveir elstu árgangar Álfaborar ásamt 1. og 2. bekk Valsárskóla. Í 3.-4. bekk er einnig lögð áhersla á útiskóla og grenndarkennslu og farið er reglulega í útiskóla og í eldri bekkjum er þessi kennsla samþætt örðum námsþáttum. Báðir skólarnir vinna samkvæmt umhverfisstefnu sveitarfélagsins.
Danskennsla er í formi námskeiðs og hefur verið fenginn danskennari til að sinna því. Þetta hefur verið fastur liður í skólastarfinu til fjölda ár og hafa allir nemendur Valsárskóla notið danskennslu undanfarin ár.
Tónlistarnemendur fara úr kennslustundum í skólanum til að sækja tónlistarnám. Þar sem tónlistarnám fer fram á skólatíma er mikilvægt að allir geri sér grein fyrir að það þarf að bæta upp það nám sem þeir missa af. Tónleikahald er tengt við starfsemi grunnskólans og er reiknað með að hver nemandi komi fram minnst tvisvar á hverjum vetri.
Morgunmatur og hádegisverður er gjaldfrjáls í Valsárskóla. Boðið er upp á graut, slátur og ávexti frá kl. 9:05-9:15. Hádegismatur er kl. 11.35.