Skólastarfið

Leiðtogasamfélagið

Í leiðtogasamfélaginu er lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem leggja áherslu á virkni nemenda. Reynt er að forðast kennsluaðferðir þar sem nemendur eru óvirkir í langan tíma. 

Samanburður á hefðbundinni kennslu þar sem nemendur eru óvikir og hugsmíðahyggju þar sem lögð er áhersla á virkni nemenda. 

Stigskiptur stuðningur

Markmið kennslu í Valsárskóla er að gera nemendur virka og sjálfstæða og taka þannig aukna ábyrgð á eigin námi. Lykillinn af því að efla nemendur í að skipuleggja og meta eigin nám er stigskiptur stuðningur.

Stigskiptur stuðningur er kennsluaðferð sem byggir á því að kennarinn leiðir nemandann í gegnum lærdómsferlið og fær nemandann til að taka aukinn þátt í því sem fram fer. Áður en stuðningurinn hefst þurfa kennari og nemandi að ræða saman um efnið. Í samræðunum tengir nemandinn hugmyndir sínar við inntak námsins og kennarinn aðstoðar við að finna leiðir til að gera merkningabært nám að veruleika. 

Stigskiptum stuðningi má lýsa á einfaldan hátt með þessum skrefum:

1. Kennari gerir, nemandi horfir
2. Kennari gerir, nemandi hjálpar
3. Nemandi gerir, kennari hjálpar
4. Nemandi gerir, kennari fylgist með
5. Nemandi deilir því sem hann hefur lært með öðrum.

Leikurinn

Í leik eru nemendur alltaf virkir og því er mikilvægt að nýta leik sem kennsluaðferð alltaf þegar því er viðkomið. Allir starfsmenn skólans hafa farið á námskeið í kennsluaðferðinni Leikur að læra og eiga allir starfsmenn að nýta sér aðferðina í vinnu sinni.

Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í starfi leiðtogasamfélagsins. Framtíðarsýn skólans miðlar þeirri sýn að allt nám í skólanum sé unnið í gleði og að öll verkefni nemenda séu gædd áhuga og ástríðu gagnvart viðfangsefninu.

Hlutverk kennara er að hlúa að leik barna, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfi barnanna þannig að sem mest nám fari þar fram. Fullorðnir og börn eru hluti af því umhverfi. Kennarar leggja áherslu á mikilvægi leiksins til náms og þroska. Til að nemendur læri verður skólagangan að vera skemmtileg.

Í Valsárskóla/Álfaborg reynum við að hafa margt fyrir stafni og við trúum því að fjölbreytni í nálgunum og vinnubrögðum geri skólann okkar betri. 

Til að tryggja fjölbreytni í kennsluaðferðum er skóladeginum skipt upp í ólík viðfangsefni, þar sem hver gerð byggir á ákveðnum kennsluaðferðum og ákveðinni nálgun á viðfangsefni.

"Leikur að læra" er þróunarverkefni sem Álfaborg/Valsárskóli vinnur í sameiningu með Spóum (4 ára), 5 ára (Krummar) og 6 ára (1. bekkur). Heitið á verkefninu vísar til þess að í því eru allir námsþættir kenndir í gegnum leik.

Kennarar í Leikur að læra þetta skólaárið eru Guðfinna, Þórdís, Bryndís og Harpa. 

Hér er hægt að skoða markmið námsins

Íslenska og stærðfræði

Í leikskólanum er íslenska og stærðfræði kennd allan daginn. Málþroski barnanna er örfaður í gegnum leik og starf. Í grunngreinum er lögð áhersla á vitsmunakenningar (cognitivism). Í þessum tímum eru kennd grunnatriði greinanna og þar eru ákveðin grunnatriði lögð til grundvallar. Fyrst og fremst er lögð áhersla á ákveðin þekkingaratriði ásamt því að þjálfa nemendur í beitingu þeirra. Kennsluaðferðir eru bein kennsla og þjálfunaræfingar. Í tímunum er fjölbreyttum nálgunum beitt í nálgun efnis og eru tímarnir skipulagðir fyrirfram með það í huga að festa námið sem best í huga nemenda. Kennarar í grunngreinum skila inn kennsluáætlunum fyrir 6 vikur í einu þar sem gert er grein fyrir kennsluaðferðum, nálgunum og verkefnum. 

Í grunngreinunum fá nemendur áætlanir í upphafi hverrar námslotu. Þeir vinna að verkfefnum í tímum, í heimanámstímum einu sinni í viku, í almennum kennslutímum eða heima. 

Erlend tungumál

Í Valsárskóla er enska er kennd frá 1. bekk og upp í 10. bekk en danska frá 5. bekk. Tungumálin eru kennd með fjölbreyttum verkefnum (t.d. í hringekju) þar sem kennarinn skipuleggur verkefnin en nemendur vinna sjálfstætt í hópum að þeim. Áhersla er lögð á fjölbreytt verkefni og alhliða þjálfun. Í enskutímum er töluð enska og í dönskutímum er töluð danska (í það minnsta við kennarann).

Leiðtogaþjálfun/Bekkjarfundir 

Fjórði þáttur dagsskipulagsins er almenn kennsla. Undir almenna kennslu flokkast bekkjarfundir og leiðtogaþjálfunartímar. Á bekkjarfundum er lögð áhersla á tjáningu, kennd fundarsköp og unnið með samskipti. Skólastjóri kemur einu sinni í mánuði og ræðir um leiðtogaþjálfun í bekkjartíma og í leiðtogaþjálfunartímum einu sinni í viku er áhersla á valdeflingu nemenda, sjálfsþekkingu og hópstjórnun. 

Létt útskýring á námskenningum. 
Vitsmunakenningar
Hugsmíðahyggja

Þemanám

Í þemanámi er fyrst og fremst byggt á hugsmíðahyggjunni (constructivism) þar sem nemendur þróa eigin námsaðferðir, vinna með eigið áhugasvið, þjálfa sig í skapandi og gagnrýninni hugsun og reyna að láta sína eigin rödd hljóma í þeim verkefnum sem þau vinna. Allir bekkjar skólans vinna að sömu þemaverkefnunum í sex vikur. Um leið og þau vinna ný verkefni setja þau verkefnin inn á heimasíðu. Allir nemendur skólans geta þannig skoðað það sem aðrir bekkir gera, séð hugmyndir þróast og sótt sér nýjar hugmyndir. Í lok hverrar lotu kynna allir bekkir verkefnin sín fyrir öðrum nemendum. Þemaverkefnin eru kennd á tveggja ára fresti og þá geta nemendur skoðað aftur gömlu verkefnin sín og unnið áfram með að þróa hugmyndir sínar.

Í Valsárskóla/Álfaborg hefur markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla í list- og verkgreinum, upplýsinga- og tæknimennt, náttúru og samfélagsgreinum verið raðað saman í 12 þemaverkefni. Auk þess eru markmið þessara greina ásamt íslensku samþætt í sex þemavikur á ári. 

Í þemanámi í Valsárskóla/Álfaborg er gengið eins langt og mögulegt er í átt að hugsmíðahyggju. Hugsmíðahyggjan leggur fyrst og fremst áherslu á nám frekar en kennslu og byggjir á því að nemendur séu sem virkastir í námi sínu.
Meginatriði hugsmíðahyggjunnar eru þau sem útfærð eru í þemaverkefnum í Valsárskóla/Álfaborg.

Þemaverkefnin eru eftirfarandi: 
Hringrásir - Íslandssaga - Himingeimurinn - ,,Jafnrétti, lýðræði, sköpun" - Líkaminn okkar - Íslenskir þjóðhættir - Hafið og fjöllin -Landakort - Lífríki á landi og sjó - Saga mannkyns - Tæknin - Leiðtogasamfélagið

Til að ná aðferðum þemanámsins nota kennarar aðferðir til að aðstoða nemendur að þróa eigin námsaðferðir og stigskiptan stuðning (scaffolding).

Þemavikur

Fjórum sinnum á ári eru þemadagar í Valsárskóla þar sem sérstök áhersla er lögð á útivist, sköpun og fræðslu um nærumhverfið.

Haustdagar
Farið í gönguferðir í umhverfinu, unnið að endurbótum á útikennslusvæði, vettvangsferðir, utanaðkomandi aðilar koma og flytja fyrirlestra í 8.-10. bekk.

Jólaþema
Fjölbreytt föndur og verkefni tengd jólunum. Nemendur velja sér viðfangsefni út frá eigin áhugasviði.

Árshátíð og skólablað
Æfingar fyrir árshátíð og unnið að útgáfu skólablaðs. Danskennsla. Unnið bæði út frá áhugasviði og aldri.

Listaþema að vori
Stefnt er að því að fá erlenda listamenn til að vinna skapandi verkefni með nemendum skólans. Listaverkefni verða í bland við ýmiskonar vorferðir t.d. ferð í Kjarnaskóg (ratleikur og grill). Á vordögum höfum við hjóladaga og þá koma börnin með hjólin sín og hjálma og hjóla á malbikinu, bæði innan leikskólalóðar og á planinu hér fyrir utan. Á vordögum fáum við lögregluna á Akureyri til að koma og yfirfara hjól og hjálma og fræða okkur um umferðarmál.

Samstarf Safnasafnsins og grunnskólans er árlegur viðburður að vori. Nemendur vinna listaverk eftir ákveðnu þema sem sýnt er á sumarsýningu safnsins.