Stefna skólans

Allt starf Álfaborgar byggir á skólastefnu Svalbarðsstrandarhrepps, uppbyggingarstefnu og grunnþáttum menntunar skv. Aðalnámskrá leikskóla. 

Skólasáttmáli Álfaborgar/Valsárskóla endurspeglar markmið og stefnu skólanna. Skólasáttmálinn er á þessa leið: "Við starfsfólk og nemendur viljum að öllum líði vel í skólanum. Við viljum að allir séu öruggir, sinni sínu hlutverki og nýti hæfileika sína til góðs". 

Einkunarorð skólans eru umhyggja, virðing, metnaður og gleði

Einkunarorðin eiga að endurspegla allt skólastarfið og öll samskipti.

Umhyggja
Við leggjum áherslu á að allir sem starfa við Álfaborg/Valsárskóla sýni umhyggju í verki, vinsemd, skilning og vilja til að hjálpa. Við sköpum örugg tengsl með því að sýna umburðarlyndi og kærleika í anda uppbyggingarstefnunnar. Við sýnum hvert öðru áhuga, hrósum, samgleðjumst öðrum og sýnum samhug.

Virðing
Í Álfaborg/Valsárskóla mætum við ávallt hvort öðru með virðingu, þó að við séum ólík, af ólíkum uppruna, með mismunandi skoðanir og í ólíkum hlutverkum. Við erum öll mikilvæg og nám okkar og störf skipta máli. Við sýnum umhverfinu okkar, efniviði, verkum og eigum okkar og annarra virðingu. Við temjum okkur að tala ávalt vel um annað fólk og okkur sjálf.

Metnaður
Í Álfaborg/Valsárskóla leggjum við áherslu á að allir geri ávallt sitt besta og séu virkir í námi og starfi. Markið er sett hátt og við höfum trú hvert á öðru. Við styðjum við eðlislæga forvitni og uppgötvunarnám, við erum víðsýn í vali á náms- og kennsluaðferðum. Nemendur og starfsfólk styðja hvert annað til að allir nái góðum árangri. Lögð er áhersla á framfarir í samræmi við eigin forsendur. Við þurfum ekki að vera best en við gerum ávallt okkar besta.

Gleði
Í Álfaborg/Valsárskóla ríkir gleðin í daglegu amstri, jafnt í vinnu sem leik. Gleðin endurspeglast í samskiptum sem einkennast af vinskap, umburðarlyndi og friðsemd. Við leggjum okkur fram um að vera jákvæð gagnvart verkefnum og horfa á björtu hliðarnar. Við höfum alltaf val um hvernig við ætlum að takast á við aðstæður og hvaða viðhorf við tileinkum okkur til annarra. Við höfum gleðina að leiðarljósi en gerum okkur jafnframt grein fyrir því að aðstæður eru misjafnar og við ólík - öll getum við átt erfiðan dag.

Uppbyggingarstefna - Uppeldi til ábyrgðar 

Unnið er eftir Uppbygginarstefnunni; Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga en sú stefna felur í sér að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Aðferðin ýtir undir ábyrgðarkennd og að börn átti sig á styrkleikum sínum og þörfum. Einnig er áhersla á að þau læri af mistök sínum og nýti reynsluna á jákvæðan hátt. Stefnan er einnig verkfæri fyrir starfsfólk skóla í samskipta og agamálum. 

Nánari upplýsingar um uppbyggingarstefnuna: https://uppbygging.is/

Útiskóli og grenndarkennsla

Áhersla er á útikennslu í leikskólanum með áherslu á elstu börnin. Krummar og Spóar (tveir elstu árgangarnir) fara í útskóla vikulega í samstarfi við 1. og 2. bekk Valsárskóla. Aðrir árgangar fá úti- og grenndarkennslu annað slagið í hópastarfi og unnið er samkvæmt umhverfisstefnu sveitarfélagins.