Námsmat

Námsmat í Valsárskóla byggir á hæfniviðmiðum aðalnámskrár og leiðsagnarmati.

Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Mat er unnið jafnt og þétt yfir veturinn út frá markmiðum og er skráð jafnóðum inn í mentor og er þannig aðgengilegt nemendum og foreldrum.

Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat s.s. sjálfsmat, kannanir, munnleg og skrifleg verkefni, einstaklings- og hópverkefni, félagamat, og sóknarkvarða.

Nemendur í Valsárskóla hafa tekið samræmd könnunarpróf í 4. bekk og  7. bekk í íslensku og stærðfræði og í 9. bekk í íslensku, stærðfræði og ensku. Menntamálastofnun vinnur að breytingum á samræmdu námsmati og þess vegna hefur verið gert hlé á próftöku. Prófunum er ætlað að mæla hvort markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og gefa nemendum, foreldrum, starfsmönnum skóla og fræðsluyfirvöldum upplýsingar og viðmiðanir á landsvísu.

Auk þess eru lögð fyrir lesfimipróf og ýmsar skimanir í læsi frá Menntamálastofnun. Hægt er að sjá nákvæmt yfirlit yfir skimanir sem lagðar eru fyrir í skólanum undir kaflanum stuðningur við nemendur

Í öllum námsgreinum eru búnar til lotur í mentor, tímalengd þeirra getur verið frá einni viku upp í að ná yfir allt skólaárið. Hæfniviðmið aðalnámskrár eru grundvöllur alls mats í lotunum og stundum er búið að skipta þeim upp í smærri markmið. Kennarar viðhafa leiðsagnarmat og leiðsegja og meta hæfni nemenda jafnhliða því sem þeir vinna verkefni. Það er t.d. gert með samræðum, skriflegum verkefnum, frammistöðumati, sjálfsmati og jafningjamati. Þegar hæfni nemenda er skráð er notast við kvarða inn í mentor sem sjá má hér til hliðar. Matið er skráð inn á mentor jafnt og þétt meðan lotan stendur yfir eða sett inn við lok lotu. Matið er sýnilegt nemendum og foreldrum um leið og það er skráð á mentor og stundum hafa nemendur tekið þátt í matinu og sjálfsmat þeirra er þá einnig sýnilegt inni á mentor. 

Við skólaslit að vori er dregin saman lokaeinkunn fyrir allan veturinn. Þá er lagt mat á hvernig nemendum gekk að ná tökum á hæfniviðmiðum hverrar námsgreinar fyrir sig og horft til þess mats sem unnið hefur verið jafnt og þétt yfir allt skólaárið. Er þá notast við matskvarða sem sjá má hér að neðan: