Námsmat

Námsmat í Valsárskóla byggir á hæfniviðmiðum aðalnámskrár og leiðbeinandi mati. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Mat er unnið jafnt og þétt yfir veturinn út frá markmiðum og er skráð jafnóðum inn í mentor og er þannig aðgengilegt nemendum og foreldrum jafnóðum og metið er. Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat s.s. sjálfsmat, kannanir, munnleg og skrifleg verkefni, einstaklings- og hópverkefni, félagamat, sóknarkvarða og matsmöppur.

Nemendur í Valsárskóla taka samræmd próf í 4. 7. og 10. bekk. Þeim er ætlað að mæla hvort markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og gefa nemendum, foreldrum, starfsmönnum skóla og fræðsluyfirvöldum upplýsingar og viðmiðanir á landsvísu.

Leshraðapróf Menntamálastofununar eru lögð fyrir í öllum bekkjum í september, janúar og maí. Læsisstefnu er hægt að skoða nánar hér.

Í þemanámi er lykilhæfni nemenda metin og gefnar einkunnir í bókstöfunum A,B,C,D. Lykilhæfniþættirnir eru eftirfarandi:

 • Skipulag og mat á eigin námi
 • Skapandi og gagnrýnin hugsun
 • Sjálfstæði og samvinna
 • Nýting miðla og upplýsinga

Í Álfaborg/Valsárskóla er einstaklingsmiðað nám. Einstaklingsmiðun felst í því að nemendur sem eiga erfitt með að tileinka sér námsefnið fá lengri tíma til að leysa verkefni og aðstoð eftir þörfum, t.d. hjálpargögn, aðlöguð próf, upplestur og munnleg verkefni. Þeir nemendur sem einhverra hluta vegna ná ekki tilætluðum markmiðum og eru með aðlagað námsefni eru stjörnumerktir í námsmati og er það gert með samþykki og undirskrift foreldra.

Mat á námi og velferð barna er mikilvægur þáttur í leikskólastarfi. Í aðalnámskrá leikskóla 2011 var sú stefna mörkuð að námsmat eigi að taka mið af áhuga barna, getu þeirra og hæfni. Þegar fylgst er með þroska, námi og velferð barna er lögð áhersla á: 

 • Alhliða þroska
 • Sjálfstæði
 • Áhugasvið
 • Þátttöku í leik úti og inni
 • Félagsfærni og samkennd
 • Frumkvæði og sköpunarkraft
 • Tjáningu og samskipti