Námsráðgjafi

Náms- og starfsráðgjöf fyrir alla nemendur grunn- og leikskóladeildar.

Náms- og starfsráðgjöf er lögbundinn hluti af sérfræðiþjónustu grunnskóla. Í starfinu felst m.a. að vinna með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skóla að ýmiss konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda. Námsráðgjöf er jafnframt ætlað að vera fyrirbyggjandi þjónusta og stuðla að því að nemendur geti skapað sér viðunandi vinnuskilyrði í skóla og heima. Þetta felur m.a. í sér að náms- og starfsráðgjafi þarf að hafa frumkvæði að því að nálgast nemendur sem eru í þörf fyrir aðstoð en bera sig ekki eftir björginni. 
Í náms- og starfsfræðslu þarf að hafa jafnrétti að leiðarljósi með því m.a. að kynna nemendum fjölbreytt störf og námsframboð að loknum grunnskóla. Nemendur á unglingastigi fengu í vetur kynningu á framhaldskólum og námsframboði og fóru ásamt umsjónarkennaranum sínum í skólaheimsóknir. Nauðsynlegt er að kynna nemendum ný störf og þróun starfa sem fylgja breytingum í nútímasamfélagi. Starfamessa var haldin 23. febrúar í Háskólanum á Akureyri þar sem um 30 fyrirtæki og stofnanir á Akureyri kynntu starfsemi sína og menntun innan sinna fyrirtækja. Unglingarnir tóku þátt í þessum degi og fengu þar tækifæri til að fræðast um margvísleg störf.

DAM, díalektísk  atferlismeðferð (DAM) er færniþjálfun sem hefur verið þróuð til að hjálpa fólki að ná betra jafnvægi á tilfinningum sínum og bættri sjálfsmynd. Í vetur hafa nemendur á unglingastigi skólans fengið DAM þjálfun. Unnið er með fjóra færniþætti núvitund, streituþolsfærni, tilfinningastjórn og samskiptahæfni. Rannsóknir sýna að iðkun á núvitund getur gefið fólki betra innsæi á tilfinningar sínar, dregið úr kvíða og aukið einbeitingu á líðandi stund. Hún hjálpar okkur að vera meira hér og nú, ekki fortíð eða framtíð og getur þannig haft áhrif á líðan. Núvitund snýst um að þjálfa athyglina, læra að vera án þess að vera stöðugt að dæma sig eða aðra. Streituþolsfærni hjálpar okkur að hafa betri stjórn á tilfinningum okkar og viðbrögðum og bregðast við án þess að gera erfiðar aðstæður verri. Samskiptahæfni snýst um að vera skilvirk í samskiptum en jafnframt byggja upp og viðhalda samböndum og eigin sjálfsvirðingu. Með því að þekkja tilfinningar sínar og hafa stjórn á þeim eykst færni okkar til að takast á við streitu og mótlæti sem og þar með líkurnar á að við bregðumst betur við gagnvart okkur sjálfum og öðrum við ólíkar aðstæður.

Nemendur á miðstigi hafa í vetur fengið fræðslu um jafnrétti og lýðræði og hafa velt þessum hugtökum fyrir sér og fyrir hvað þau standa. Mjög skemmtilegar og áhugaverðar umræður fóru fram um þessi mál m.a. um staðalímyndir kynjanna. Á yngsta stigi var unnið með söguna um Búkollu og hún tengd við tilfinningar, skynfærin og núvitund, til hvers höfum við tilfinningar og hvernig þær gefa okkur upplýsingar og hjálpa okkur í lífinu.

Persónulegur og félagslegur stuðningur er mikilvægur. Sjálföryggi og góð sjálfsmynd hefur áhrif á hvernig einstaklingurinn upplifir sig og möguleika sína.  Það reynir á þessa eiginleika við mismunandi aðstæður í lífinu og því mikilvægt að vinna stöðugt að því að efla eigið öryggi. Brottfall úr skóla getur átt sér langan aðdraganda. Að þessu þarf að huga vel og nauðsynlegt að allir sem koma að barninu vinni saman að því er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum þess.

Samskiptamunstur er flóknara en áður þar sem samskipti eru æ meira í gegnum ýmiss konar miðla. Það er mikilvægt að kenna börnum og unglingum með markvissum hætti hvernig hægt er á sem farsælastan hátt að eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti og hvar ábyrgð okkar liggur í því að vel gangi og að setja sjálfum sér og öðrum mörk

Það er öllum mikilvægt að taka forystu í eigin lífi og efla færni til að draga úr spennu og auka vellíðan. Velferð og gengi barnsins er það sem allt skólastarf snýst um. Farsælt foreldrasamstarf og ánægðir foreldrar skipta mjög miklu máli og er besti stuðningur sem kennarar.

Skýrslur námsráðgjafa

Skólaárið 2018-2019