Símar og snjalltæki í Valsárskóla

Mikilvægt er að nemendur læri að nota tækin sín á ábyrgan og uppbyggilegan hátt, sér og öðrum til gagns og gamans.

Ef nemendur vilja koma með síma eða snjalltæki í skólann verður að vera tryggt að tækin séu notuð í samráði við kennara/starfsfólk og trufli aldrei nám og kennslu. Taka þarf tillit til friðhelgi einkalífs nemenda og starfsmanna og eignarréttar og réttar skóla til að skapa nemendum góð skilyrði til náms.

Með þessu móti er nemendum gefið ákveðið frelsi og þurfa þess vegna að virða fyrirmæli kennara og ákveðnar reglur. Mikilvægt er að bæði foreldrar og kennarar taki umræðu um notkun snjalltækja og þær reglur sem um þau gilda reglulega.

Í skólanum er ekki ætlast til að nemendur í 1. - 4. bekk séu með síma og noti þá. Ef nemendur þurfa af einhverjum ástæðum að hafa síma er það gert í samráði við umsjónarkennara og þeir geymdir í tösku á skólatíma án hljóðs. 

Nemendur í 5. - 10. bekk geta haft með sér síma og setja þá í þar til gerða vasa í kennslustofum meðan nám og kennsla er í gangi.

Nemendur í 5. - 10. bekk geta notað síma á morgnana fyrir kennslu og eftir matartíma. Símar eru aldrei leyfðir í matsal og ekki í frímínútum kl. 10:15 - 10:35. Í Valsárskóla eru matartímar, bæði morgunmatur og hádegismatur til samskipta án snjalltækja og það sama gildir um frímínútur.   

Ef nemendur fara ekki eftir þessum reglum eru þeir minntir á reglur og ef ábendingum er ekki sinnt eru þeir beðnir um að afhenda tækið. Tækið er geymt í sérstakri símaskúffu á kaffistofu starfsfólks og nemandi fær það í lok dags. Ef nemandi vill ekki afhenda tækið er haft samband við foreldra. 

Tekið skal fram að nemendur sem þurfa t.d. að ná sambandi við foreldra geta fengið að hringja á skrifstofu ef erindið er brýnt. Æskilegt er að leikur og heimsóknir eftir skóla séu skipulagðar af foreldrum fyrirfram og ekki er gefið leyfi til slíkra símtala samdægurs. 

Foreldrar geta alltaf haft samband við skrifstofu skólans ef þarf að koma skilaboðum til nemenda.