Heilsugæsla

Hlutverk heilsugæslu í skólum er að sinna heilsuvernd nemenda. Þetta er gert með reglubundnum skimunum og eftirliti, fræðslu og teymisvinnu kringum einstaka mál.

Heilsugæsla í skólum er framhald ung- og smábarnaverndar. Starfsemi skólaheilsugæslu er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum er um hana gilda. Hún er meðal annars fólgin í reglulegum heilsufarsathugunum, ónæmisaðgerðum, heilbrigðisfræðslu og ráðgjöf til nemenda, foreldra og starfsfólks skólans.

Hlutverk heilsugæslu í grunnskólum

Heilsugæsla í leikskólum er unnin í nánum tengslum við ungbarnavernd. 

Ef barnið hefur verið amk. þrjá mánuði í leikskóla þá vinsamlega prentið út meðfylgjandi upplýsingablað og afhendið deildarstjóra barnsins í leikskólanum til útfyllingar. Hafið svo útfyllt blaðið meðferðis í ungbarnaverndina.


Fjögurra ára skoðun fer fram í leikskólanum og er skylda

Eyðublöð fyrir:
 

Hjúkrunarfræðingur Álfaborgar/Valsárskóla er  Brynhildur Smáradóttir og skólalæknir er Jón Torfi Halldórsson. Brynhildur er með viðveru fyrsta og þriðja föstudag í mánuði frá kl. 08:30 -12:00

Markmiðið með heilsugæslu í skólum er að stuðla að því að börn fái að þroskast við þau bestu andlegu, líkamlegu skilyrði sem völ er á. Til þess að vinna að markmiði þessu er fylgst með börnunum svo að frávik finnist og viðeigandi ráðstafanir verði gerðar sem fyrst. Áherslan er lögð á að fyrst og fremst beri foreldrar ábyrgð á heilsu og þroska barna sinna, en starfslið heilsugæslu í skólum fræði, hvetji og styðji foreldra í hlutverki sínu. Á heimasíðu Miðstöðvar heilsuverndar barna má finna nánari upplýsingar um heilsugæslu í skólum og ráðleggingar til foreldra um heilbrigðistengd málefni.

Áherslan verður á heilsuverndarþáttinn, erfiðustu tilfellin varðandi langveik börn og þverfaglega vinnu og móttöku barna í opnum tímum.

Skipulögð heilbrigðisfræðsla og hvatning til heilbrigðra lífshátta verður unnin eftir því sem unnt er. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Eftir fræðslu fær barnið fréttabréf með sér heim. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

 Yfirlit yfir smitsjúkdóma og viðbrögð við þeim

 

Það er ekki hlutverk skólahjúkrunarfræðings að vera með slysamóttöku í skólanum. Skólahjúkrunarfræðingur veitir fyrstu hjálp þegar alvarlegri slys verða í skólanum og er starfsfólki skólans til stuðnings og ráðgjafar þegar upp koma veikindi og slys hjá nemendum, á þeim tíma sem hjúkrunarfræðingur er við störf.

Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af skólaheilsugæslunni. Foreldrum er bent á að snúa sér til heimilislæknis og Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri með heilsufarsmál sem ekki teljast til skólaheilsugæslu.

Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á líðan og heilbrigði barna sinna.  Góð samvinna og gott upplýsingaflæði er mikilvægt til að starfsfólk skólaheilsugæslu geti sinnt starfi sínu sem best.  Því eru foreldrar hvattir til að hafa samband við hjúkrunarfræðing skólans ef einhverjar breytingar verða hjá barninu sem gætu haft áhrif á andlegt, líkamlegt eða félagslegt heilbrigði þess.  Að sjálfsögðu er fyllsta trúnaðar gætt um mál einstakra nemenda.

Vilji foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar um einstök atriði, hvað varðar heilsugæsluna er þeim velkomið að hafa samband við hjúkrunarfræðinginn.

Ef foreldrar/forráðamenn vilja ekki að börn þeirra taki þátt í einhverju af því sem skólaheilsugæslan bíður nemendum upp á, eru þeir beðnir um að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing sem fyrst.  Ef ekkert heyrist frá foreldrum verður það skoðað sem samþykki.