Skólareglur

 

Valsárskóli starfar eftir hugmyndafræði uppbyggingarstefnunnar sem leggur áherslu á forvarnir fremur en umbun og refsingar.

Skólareglur 


Vellíðan

 • Við erum kurteis við hvert annað.

 • Við meiðum ekki eða særum með orðum okkar eða gjörðum. 

 • Við líðum ekki ofbeldi, stríðni og einelti í skólanum. 

 • Við hugsum vel um líkama okkar og ástundum almennt hreinlæti, borðum holla fæðu og hreyfum okkur úti.

 • Við hlustum vel þegar aðrir tala og spyrjum ef við skiljum ekki. 

 • Við látum vita ef okkur sjálfum eða öðrum líður illa.

 • Við berum ábyrgð á orðum okkar og gjörðum og reynum alltaf að bæta fyrir mistök.

 • Við hjálpum öðrum með gleði og erum óhrædd að biðja um hjálp annarra. 

 • Við hrósum og samgleðjumst öðrum ef þeir hafa gert eitthvað aðdáunarvert og tökum við hrósi frá öðrum.

 • Við förum úr útiskóm og útifötum í forstofu svo við berum ekki bleytu og óhreinindi inn. 

 • Við gætum þess að hafa vinnufrið í skólanum.

Öryggi

 • Við leiðbeinum öðrum og látum vita ef hegðun ógnar öryggi okkar eða annarra.

 • Við leggjum áherslu á hreinlæti og sinnum smitvörnum. 

 • Við skiljum að í heiminum býr alls konar fólk, þess vegna gætum við þess að gefa ekki persónuupplýsingar til ókunnugra. 

 • Við leikum okkur á öruggum stöðum og leikum okkur þannig að allir séu öruggir. 

 • Við göngum um skólann þannig að við rekumst ekki á aðra.

 • Við sköpum umhverfi þar sem enginn þarf að óttast stríðni eða áreiti. 

 • Við keppumst að því að skólinn sé öruggt svæði.

 • Við látum vita ef við finnum ólögleg eða skaðleg efni í skólatölvum eða annars staðar. 

 • Við gefum skýr skilaboð um hvernig við viljum að aðrir komi fram við okkur. 

 • Við notum öryggisbelti í skólabíl og hjálm á öllum hjólum, hlaupahjólum, hjólaskóm og hjólabrettum.

 • Við köstum aðeins snjóboltum á snjóboltasvæði svo þeir sem ekki taka þátt í leiknum séu öruggir.

 • Við förum í biðröð þegar margir þurfa að komast á sama stað, t.d. inn í kennslustund, í matarröð eða í skólabíl. 

Metnaður

 • Við útskýrum fyrir hvert öðru ef aðrir skilja ekki.

 • Við verndum hvert annað og snúum slæmum aðstæðum til góðs.

 • Við leitum allra leiða sem við kunnum til að skapa gott námsumhverfi.

 • Við sýnum skoðunum annarra áhuga því við vitum að við getum lært margt af öðrum sjónarhornum. 

 • Við erum gagnrýnin í hugsun og gerum ekki lítið úr skoðunum annarra eða tilfinningum.

 • Við erum jákvæð og skapandi og reynum að uppgötva nýja hæfileika okkar sjálfra og annarra.

 • Við þurfum að fá tækifæri til að sinna hlutverkum okkar án truflunar frá öðrum.

 • Við komum á réttum tíma í skólann og missum ekki af kennslustundum.

 • Við reynum að hjálpa ef við sjáum að einhver veldur ekki hlutverki sínu.

 • Við látum vita ef við viljum fá hjálp við námið hjá félaga eða starfsfólki. 

 • Við förum eftir fyrirmælum starfsfólks sem alltaf eiga að vera í samræmi við skólareglur Valsárskóla.


Viðbrögð við brotum á skólareglum

Viðbrögð við hegðun nemenda er einn þáttur í menntun þeirra. Samkvæmt 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, ber að halda uppi námsaga með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og öðrum réttindum samkvæmt sáttmálanum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sömuleiðis lagt áherslu á að viðbrögð við agabrotum nemenda skuli miða að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu nemenda. Í samræmi við þetta er í 11. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011, tekið fram að veita skuli þeim nemendum sem sýna af sér óæskilega hegðun eða slaka ástundun stuðning og að taka skuli tillit til aðstæðna og þarfa nemenda, stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Uppfært í nóvember 2020