Álfaborg er leikskóli Svalbarðsstrandar. Í skólanum eru liðlega 38 börn og 11-13 kennarar og leiðbeinendur í 9-10 stöðugildum, auk leikskólastjóra. Hér má kynna sér starfslýsingu nýs leikskólastjóra sem hóf störf við skólann eftir páska 2020.
Öll börn á leikskólaaldri eiga kost á að byrja leikskóladvöl strax við 12 mánaða aldur. Foreldrar geta valið dvalartíma á bilinu frá 7:45-16:15. Þar sem leikskólinn stendur mjög vel hvað fermetrapláss varðar, þá hefur enginn biðlisti safnast upp þar sem börnin geta byrjað strax og óskað er eftir og er það gleðilegt hve sveitarfélaginu hefur tekist vel upp að tryggja að allir geti fengið pláss strax. Hér má kynna sér kennara og leiðbeinendur í skólanum.
Hreiður
Hreiður er deild fyrir yngstu börnin frá 12 mánaða aldri, þar dvelja að jafnaði 8-10 börn og tveir til þrír kennarar og leiðbeinendur, allt eftir aldri og fjölda barnanna. Sér fataklefi og garður, vel búinn nýjum leiktækjum, er fyrir Hreiður. Hlið er frá litla garði yfir í stóra garð. Um 20-24 mánaða aldur flytjast börnin fram á miðdeildina Kvist en þar dvelja þau í eitt til tvö ár og flytjast svo yfir í Rjóður, elstu deildina, þar sem þau eru til sex ára aldurs. Börnin í Hreiðri leggja sig úti í vögnum en þar er góð aðstaða vestan við húsið, einnig er hægt að geyma vagnana inni ef foreldrar kjósa svo. Árgangarnir á Hreiðri eru Maríuerlur (1.-2.ja ára).
Kvistur
Kvistur er deild fyrir miðhópinn, þar dvelja 15-18 börn og 3-4 kennarar og leiðbeinendur. Börn Kvists og Rjóðurs blandast iðulega í leik og starfi og hafa sameiginlega forstofu og útisvæði. Börnin hafa góða aðstöðu inni til leikja og hvíldar/svefns. Á Kvisti dvelja þau í eitt til tvö ár og flytjast svo yfir í Rjóður, elstu deildina, þar sem þau eru til sex ára aldurs. Árgangarnir á Kvisti eru Þrestir (2ja ára) og Lóur (3ja ára).
Rjóður
Rjóður er deild fyrir elstu börnin, þar dvelja 13-18 börn og 2-3 kennarar og leiðbeinendur. Börn Rjóðurs og Kvists blandast iðulega í leik og starfi og hafa sameiginlega forstofu og útisvæði. Mikið samstarf er með Rjóðri við Valsárskóla, meðal annars eru Rjóðurs-börnin í íþróttum og sameiginlegri útikennslu, ásamt því að taka þátt í verkefninu Leikur að læra með tveimur yngstu bekkjum grunnskólans frá 9-13 vikulega. Einnig borða börnin hádegisverð í Valsárskóla þennan sama dag. Árgangarnir í Rjóðri eru Spóar (4ra ára) og Krummar (5 ára).