Stefna skólanna

Nám og kennsla byggir á skólastefnu Svalbarðsstrandarhrepps, uppbyggingarstefnu og grunnþáttum menntunar skv. Aðalnámskrám leik- og grunnskóla.

Skólasáttmáli Álfaborgar/Valsárskóla endurspeglar markmið og stefnu skólanna. Skólasáttmálinn er á þessa leið: "Við starfsfólk og nemendur viljum að öllum líði vel í skólanum. Við viljum að allir séu öruggir, sinni sínu hlutverki og nýti hæfileika sína til góðs".

Einkunarorð skólanna eru umhyggja, virðing, metnaður og gleði

Einkunarorðin eiga að endurspegla allt skólastarfið og öll samskipti.

Umhyggja
Við leggjum áherslu á að allir sem starfa við Álfaborg og Valsárskóla sýni umhyggju í verki, vinsemd, skilning og vilja til að hjálpa. Við sköpum örugg tengsl með því að sýna umburðarlyndi og kærleika í anda uppbyggingarstefnunnar. Við sýnum hvert öðru áhuga, hrósum, samgleðjumst öðrum og sýnum samhug.

Virðing
Í Álfaborg og Valsárskóla mætum við ávallt hvort öðru með virðingu, þó að við séum ólík, af ólíkum uppruna, með mismunandi skoðanir og í ólíkum hlutverkum. Við erum öll mikilvæg og nám okkar og störf skipta máli. Við sýnum umhverfinu okkar, efniviði, verkum og eigum okkar og annarra virðingu. Við temjum okkur að tala ávalt vel um annað fólk og okkur sjálf.

Metnaður
Í Álfaborg og Valsárskóla leggjum við áherslu á að allir geri ávallt sitt besta og séu virkir í námi og starfi. Markið er sett hátt og við höfum trú hvert á öðru. Við styðjum við eðlislæga forvitni og uppgötvunarnám, við erum víðsýn í vali á náms- og kennsluaðferðum. Nemendur og starfsfólk styðja hvert annað til að allir nái góðum árangri. Lögð er áhersla á framfarir í samræmi við eigin forsendur. Við þurfum ekki að vera best en við gerum ávallt okkar besta.

Gleði
Í Álfaborg og Valsárskóla ríkir gleðin í daglegu amstri, jafnt í vinnu sem leik. Gleðin endurspeglast í samskiptum sem einkennast af vinskap, umburðarlyndi og friðsemd. Við leggjum okkur fram um að vera jákvæð gagnvart verkefnum og horfa á björtu hliðarnar. Við höfum alltaf val um hvernig við ætlum að takast á við aðstæður og hvaða viðhorf við tileinkum okkur til annarra. Við höfum gleðina að leiðarljósi en gerum okkur jafnframt grein fyrir því að aðstæður eru misjafnar og við ólík - öll getum við átt erfiðan dag.

Uppbyggingarstefna - Uppeldi til ábyrgðar 

Í báðum skólum er unnið eftir Uppbygginarstefnunni; Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga en sú stefna felur í sér að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Aðferðin ýtir undir ábyrgðarkennd og að börn átti sig á styrkleikum sínum og þörfum. Einnig er áhersla á að þau læri af mistök sínum og nýti reynsluna á jákvæðan hátt. Stefnan er einnig verkfæri fyrir starfsfólk skóla í samskipta og agamálum. 

Nánari upplýsingar um uppbyggingarstefnuna: https://uppbygging.is/

Læsisstefna

Valsárskóli vinnur samkvæmt læsisstefnunni Læsi er lykill sem er afrakstur þróunarvinnu Miðstöðvar skólaþróunar HA, kennara af Eyjafjarðarsvæðinu og fræðslusviðs Akureyrar. Læsi er lykill skiptist í fjóra meginþætti: Samræðu, tjáningu og hlustun, lestur og lesskilning, ritun og miðlun og lesfimi. Þættirnir styðja hver við annan og eru allir mikilvægir farsællar þróunar læsis. Stefnuna í heild sinni og stuðningsefni er hægt að sjá inná heimasíðu stefnunnar: https://lykillinn.akmennt.is/
Læsisstefna Álfaborgar er í smíðum þegar þetta er ritað og mun verða birt hér.

Byrjendalæsi 

Meginmarkmið byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Aðferðin byggir á fjölbreyttum leiðum og virkni nemenda. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýti undir ímyndunaraflið og hvetji þau til gagnrýnnar hugsunar. Margs konar merkingarbærir textar eru lagðir til grundvallar lestrarkennslunni sem gefur þeim færi á að mynda merkingarbærar tengingar við eigið líf. Textarnir eru nýttir sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning og ritun af ýmsu tagi. Byrjendalæsi er samvirk nálgun til læsiskennslu og felur í sér bæði eindaraðferðir og heildaraðferðir. Horft er til þess að mikilvægi kennsluaðferðar í læsi feli í sér nálgun sem nái til allra þátta íslenskunnar. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir tungumálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði og lesskilningur tengd inn í ferlið.

Læsi til náms

Læsi til náms er starfsþróunarverkefni þar sem unnið er að því að styrkja hæfni kennara grunnskólans við að efla alla þætti læsis meðal nemenda. Aðferðin byggir á að halda við aðferðum byrjendalæsis sem er í yngstu bekkjum skólans og margir kennara skólans hafa tileinkað sér. Áhersla er á fjölbreyttar aðferðir við að lesa og styrkja lesskilning með nemendum, æfa leiðir í vinnu með orðaforða og skilning, ritun, samvinnunám og samræðu til náms. Einnig er lögð áhersla á að kennarar hugi með ákveðnum hætti að áhugahvöt, sjálfstæði í námi, einstaklingsmiðun og ábyrgð nemenda í námi. Allir kennarar skólans hafa tekið þátt í námskeiði um læsi til náms og þannig ætti að myndast heildstæð sýn og vinnulag allra kennara skólans í læsi og læsiskennslu. 

Útiskóli og grenndarkennsla

Áhersla er á útikennslu í Valsárskóla og Álfaborg með áherslu á yngri bekki grunnskólans og elstu börn leikskólans. Þessir aldurshópar fara í útskóla vikulega og aðra hvora vikuna fara skólarnir sameiginlega í útiskólann, þ.e. tveir elstu árgangar Álfaborar ásamt 1. og 2. bekk Valsárskóla. Í 3.-4. bekk er einnig lögð áhersla á útiskóla og grenndarkennslu og farið er reglulega í útiskóla og í eldri bekkjum er þessi kennsla samþætt örðum námsþáttum. Báðir skólarnir vinna samkvæmt umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

Þemanám

Samþætting námsgreina er fólgin í því að nemendur fást við ákveðið viðfangsefni sem er skipulagt þannig að það gangi þvert á námsgreinar og myndi sjálfstæða merkingarbæra heild. Þeir þurfa að afla sér þekkingar í mörgum mismunandi námsgreinum, á borð við samfélagsfræði, náttúrufræði og íslensku. Upplýsinga- og tæknimennt er stór þáttur í þemanáminu og úrvinnslu verkefna. Nemendur eru virkir þátttakendur í skipulagningu og mati á þemanáminu. Allir starfsmenn skólans eru upplýstir og meðvitaðir um hvaða þemu eru í gangi og reyna allir kennarar að vinna einstök þematengd verkefni með nemendum sínum. 

Lærdómssamfélag og hugafar vaxtar

Valsárskóli er lærdómssamfélag þar sem allir hjálpast að við að læra á fjölbreyttan hátt, kennarar, starfsfólk og nemendur. Við erum óhrædd við að nýta okkur fjölbreyttar aðferðir í námi, kennslu og skipulagi með það að markmiði að höfða til allra nemenda. Við höfum miklar væntingar til fagmennsku starfsfólks og vilja allra nemenda til að læra og ná árangri. Þrautseigja er mikilvæg og við lítum á mistök sem eðlilegan hluta af námi og þroska. Til að ná árangri er áhersla á hugafar vaxtar. Það merkir að allir þurfa að leggja á sig og æfa sig til að ná árangri og færni. Áhersla er á framfarir og leiðsagnarmat, með markvissri uppbyggjandi endurgjöf. 

Lýðræðisleg vinnubrögð og leiðtogaþjálfun

Skólaþing/bekkjarfundir

Reglulega eru haldnir bekkjarfundir í bekkjardeildum þar sem meðal annars eru rædd mál sem nemendur og/eða kennarar setja á dagskrá fundarins. Um það bil mánaðarlega eru haldin skólaþing. Þar sitja allir nemendur og starfsfólk Valsárskóla. Allir geta komið með mál á skólaþing en fyrst þarf að vera búið að ræða málið á bekkjar- starfsmanna- eða kennarafundi og undirbúa flutning þess og rökstuðning. Markmið skólaþings er að skapa lýðræðislegan vettvang þar sem allir eru jafnir, geta sagt sína skoðun og lagt fram mál. Öll mál sem koma á skólaþing verða að vera í samræmi við stefnu skólans og landslög. 

Leiðtogaþjálfun

Lögð er áhersla á að allir geti haft áhrif og að allir finni sína styrkleika sem þeir geta nýtt sér til góðs. Sjálfsþekking, sjálfsstjórn og félagsfærni eru mikilvægir þættir hjá góðum leiðtogum. Til viðbótar við þá leiðtogaþjálfun sem felst í eflingu sjálfsþekkingar nemenda í daglegu starfi, skólaþingum og bekkjarfundum höfum við svokallaða leiðtogaþjálfun í hvert skipti sem skólaþing er haldið. Þá fá nemendur tækifæri til að undirbúa verkefni að eigin vali, kynna þau fyrir öðrum nemendum og vera leiðtogar sem bera ábyrgð á framkvæmd verkefnisins.

Valsárskóli leggja áherslu á grunnþætti menntunar í öllu skólastarfinu og m.a. á eftirfarandi hátt:

  • læsi - með markvissri læsisstefnu og aðferðum byrjendalæsis og læsi til náms
  • sjálfbærni - með úti- og grenndarkennslu í takt við umhverfisstefnu sveitarfélagsins
  • heilbrigði og velferð - með íþróttakennslu, gjaldfrjálsum máltíðum, stoðþjónustu og skólareglum og einkunnarorðum sem miða að velferð nemenda.
  • lýðræði og mannréttindi - með lýðræðislegum vinnubrögðum, skólaþingum, bekkjarfundum og leiðtogaþjálfun
  • jafnrétti - með fræðslu og virkum einkunnarorðum skólans
  • sköpun - með kennslu í list- og verkgreinum, tónlistarnámi, danskennslu og þemanámi