Stuðningur við nemendur

Skóli án aðgreiningar

Valsárskóli starfar samkvæmt hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og leggur áherslu á að gera það í samvinnu við foreldra.

Samkvæmt reglugerð er skóli án aðgreiningar grunnskóli í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Skóli án aðgreiningar byggir á viðurkenningu og þátttöku allra nemenda. 

Samantekt um skóla án aðgreiningar

Stuðningur við nám

Þörf á stuðningi og sértækum úrræðum við nám er metinn af kennurum, sérstaklega umsjónarkennurum, í samráði við sérkennara, skólastjóra og náms- og starfsráðgjafa. Samvinna við foreldra og heimili er lykilþáttur og forsenda greiningar og námsaðlögunar.

Námsaðlögun í bekk

Allir kennarar aðlaga námsefni að þörfum nemenda t.d. með því að hafa misþung verkefni í boði, tengja verkefni áhugasviði nemenda og ólíka nálgun á sama viðfangsefni. 

Stuðningur í bekk  (nám og/eða hegðun)

Stuðningsfulltrúi vinnur náið með kennara í kennslustundum. Hans hlutverk er fyrst að fremst að styðja við nemendur sem víkja frá námi eða hegðun. Auk þess getur stuðningur falist í að aðstoða nemendur af erlendum uppruna sem þess þurfa. Eitt af hlutverkum hans getur verið að aðstoða við lestrarþjálfun nemenda. Kennari er verkstjóri stuðningsfulltrúa og ber ábyrgð á skipulagningu kennslunnar. 

Sérkennsla

Sérkennsla felur í sér samvinnu milli sérkennara og umsjónarkennara. Þegar umsjónarkennara grunar að nemandi þurfi frekari stuðning en hægt er að veita með námsaðlögun eða stuðningi inni í bekk óskar hann eftir aðkomu sérkennara. Sérkennslan getur farið fram bæði inn í kennslustundum hjá öðrum kennurum, í litlum hópum eða utan hennar. Einnig getur kennslan farið fram einstaklingslega í stuttum eða lengri lotum. Eitt af verkefnum sérkennarar getur verið að kenna nemendum að nýta bjargir varðandi lestur eins og hljóðbækur, forrit og tölvubúnað. Þegar nemandi fer í sérkennslu er gerð einstaklingsnámskrá út frá þörfum nemanda og foreldrar og nemandi (fer eftir aldri) taka þátt í mótun hennar.  

Skólaskrifstofa - greiningar, ráðgjöf og nemendaverndarráð

Þegar grunur kviknar um náms- og/eða hegðunarvanda eiga kennari og foreldrar samtal um stöðuna. Ef ástæða þykir til geta mál barns verið rædd á nemendaverndarráðsfundi til að fá ráðgjöf varðandi stöðu þess og hvort þörf sé á nánara greiningarferli. Ef ákveðið er að fara í greiningarferli fá foreldrar og skóli greiningu að henni lokinni og ráðgjöf um vinnu með barninu í kjölfarið.

Sveitarfélagið er með samning við Fræðslusvið Akureyrarbæ um sérfræðiþjónustu. Hún felur m.a. í sér að sérfræðingur á þeirra vegum mætir á nemendaverndarráðsfundi og heldur utan um greiningar og eftirfylgni. 

Ef námsaðlögun er umtalsverð hjá einstaka nemendum geta þeir útskrifast úr grunnskóla með stjörnumerkt mat. Í því felst að námið er ekki er miðað við sömu hæfniviðmið og almennt gerist hjá nemendum við lok grunnskóla. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn séu með í ráðum og vel upplýstir ef aðlaga þarf námið að þörfum barnsins. Eitt af úrræðum námsaðlögunar er starfstengt nám. 

Stuðningur við bráðgera nemendur

Nemendur sem eru bráðgerir og eiga auðvelt með nám geta unnið með þyngra efni og meira krefjandi verkefni. Þetta getur átt við einstakar greinar eða nám almennt. Unnið er með nemendum og foreldrum til að mæta námslegum þörfum barnsins. Samkennsla árganga skapar tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum og mæta þörfum hvers nemanda.  

Í sumum tilfellum eru nemendur útskrifaðir fyrr úr grunnskóla og hefja nám í framhaldsskóla strax eftir 9. bekk. Til að það sé gert þarf nemandinn að hafa framúrskarandi námsárangur í nokkur ár og ná góðum árangri á samræmdum könnunarprófum í 9. bekk.  

Til að nemandi sé fluttur á milli bekkja innan skólans þarf mat frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar.
Viðmið sem farið er eftir eru:

 • Að kunnátta og námsstaða sé eins og best gerist hjá eldri börnum.

 • Vitsmunaþroski þarf að vera við efri mörk meðaltals eða yfir meðaltali.

 • Félagsþroski þarf að vera sterkur og barnið þarf að hafa góða aðlögunarhæfni.

 • Barnið þarf að vera í góðu tilfinninglegu jafnvægi.

 • Barnið þarf að vilja færa sig upp um bekk.

 • Barnið þarf að fá stuðning frá foreldrum/forráðamönnum. 

Stuðningur við líðan

Stuðningur við líðan og félagsþroska er meðal annars:

 • Stuðningur við nemendur í bekk t.d. vegna hegðunar.

 • Samtöl við náms- og starfsráðgjafa.

 • Regluleg samtöl við skólastjóra og/eða umsjónarkennara.

 • Samtöl við hjúkrunarfræðing.

 • Samráð við heimili og lausnaleit.

 • Notkun á félagsfærnisögum og sérstakur undirbúningur fyrir breytingar og viðburði.

 • Umræður og bekkjarfundir.

 • Skólaþing.

 • Ráðgjöf og/eða samtöl við sálfræðing. 

 • Forvarnafræðsla fyrir námshópa t.d. um samskipti, líðan og geðrækt.