Stuðningur við nemendur

Skóli án aðgreiningar

Valsárskóli starfar samkvæmt hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og leggur áherslu á að gera það í samvinnu við foreldra.

Samkvæmt reglugerð er skóli án aðgreiningar grunnskóli í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Skóli án aðgreiningar byggir á viðurkenningu og þátttöku allra nemenda. 

Samantekt um skóla án aðgreiningar

Stuðningur við nám

Þörf á stuðningi og sértækum úrræðum við nám er metin af kennurum, sérstaklega umsjónarkennurum, í samráði við sérkennara, skólastjóra og náms- og starfsráðgjafa. Samvinna við foreldra og heimili er lykilþáttur og forsenda greining og námsaðlögunar.

Við skólann starfar nemenaverndarráð sem skipuleggur, leggur til að fylgir eftir greiningum og ráðgjöf. Nemendaverndarráð funda a.m.k. sex sinnum á skólaárinu. Á fundi nemendaverndarráðs mætir alltaf sérfræðingur frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar. Sveitarfélagið er með samning við Fræðslusvið Akureyrarbæ um sérfræðiþjónustu.

Reglulega eru gerðar skimanir til að meta framfarir nemenda. Skimanir gefa vísbendingar ef skoða þarf nám einstakra nemenda og hópa.

Yfirlit yfir skimanir

Námslegur stuðningur

Það er markmið okkar í Valsárskóla að kennsluhættir séu sem fjölbreyttastir meðal annars til að við náum að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda okkar. Sérkennsla og stuðningur er skipulagður eftir þörfum fyrir einstaklinga og hópa. Nemendaverndarráð og sérfræðingar frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar eru ráðgefandi og veita foreldrum, umsjónarkennurum, sérkennara og skólastjóra ráðgjöf.

Stuðningi við nám nemenda er m.a. með eftirfarandi hætti:

 • Námsaðlögun þar sem námsefni er einfaldað og verkefni aðlöguð með það í huga að nemandinn nái tökum á grunnþáttum og/eða grunnfærni.

 • Breytt skipulag á námi og kennslu fyrir einstaka nemendur þar sem leitað er leiða til að virkja nemanda t.d. með starfstengdu námi.

 • Tvímönnun í námshópum eða tvískipting námshópa til að kennari geti aðstoðað einstaka nemendur meira.

 • Aukin lestrarþjálfun fyrir nemendur sem þurfa meiri þjálfun til að efla læsi.

 • Sérkennsla fyrir nemendur með sértækan námsvanda, bæði einstaklingslega  og/eða í litlum hópum.

 • Stuðningur við nemendur í bekk t.d. vegna athyglisvanda, námsvanda eða hegðunar.

 • Tímabundin aðstoð og leiðbeiningar til að nýta bjargir s.s. hljóðbækur, forrit og tölvubúnaður.

 • Aukin íslenskukennsla fyrir nemendur af erlendum uppruna.

Ef námsaðlögun er umtalsverð hjá einstaka nemendum geta þeir útskrifast úr grunnskóla með stjörnumerkt mat. Í því fellst að námið er ekki er miðað við sömu hæfniviðmið og almennt gerist hjá nemendum við lok grunnskóla. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn séu með í ráðum og vel upplýstir ef aðlaga þarf námið að þörfum barnsins.  

Stuðningur við líðan

Stuðningur við líðan og félagsþroska er meðal annars:

 • Stuðningur við nemendur í bekk t.d. vegna hegðunar.

 • Samtöl við náms- og starfsráðgjafa.

 • Regluleg samtöl við skólastjóra og/eða umsjónarkennara.

 • Samtöl við hjúkrunarfræðing.

 • Samráð við heimili og lausnaleit.

 • Notkun á félagsfærnisögum og sérstakur undirbúningur fyrir breytingar og viðburði.

 • Umræður og bekkjarfundir.

 • Skólaþing.

 • Ráðgjöf og/eða samtöl við sálfræðing. 

 • Forvarnafræðsla fyrir námshópa t.d. um samskipti, líðan og geðrækt.

Stuðningur við bráðgera nemendur

Nemendur sem eru bráðgerir og eiga auðvelt með nám geta unnið með þyngra efni og meira krefjandi verkefni. Þetta getur átt við einstakar greinar eða nám almennt. Unnið er með nemendum og foreldrum til að mæta námslegum þörfum barnsins. Samkennsla árganga skapar tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum og mæta þörfum hvers nemanda.  

Í sumum tilfellum eru nemendur útskrifaðir fyrr úr grunnskóla og hefja nám í framhaldsskóla strax eftir 9. bekk. Til að það sé gert þarf nemandinn að hafa framúrskarandi námsárangur í nokkur ár og ná góðum árangri á samræmdum könnunarprófum í 9. bekk.  

Til að nemandi sé fluttur á milli bekkja innan skólans þarf mat frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar.
Viðmið sem farið er eftir eru:

 • Að kunnátta og námsstaða sé eins og best gerist hjá eldri börnum.

 • Vitsmunaþroski þarf að vera við efri mörk meðaltals eða yfir meðaltali.

 • Félagsþroski þarf að vera sterkur og barnið þarf að hafa góða aðlögunarhæfni.

 • Barnið þarf að vera í góðu tilfinninglegu jafnvægi.

 • Barnið þarf að vilja færa sig upp um bekk.

 • Barnið þarf að fá stuðning frá foreldrum/forráðamönnum.