Hefðir og venjur

Foreldrakaffi: Tvisvar á ári þ.e. að vori og í byrjun desember, bjóða börnin foreldum sínum og öðrum sem vilja koma í kaffi og meðlæti. Meðlætið útbúa börnin og starfsfólkið í sameiningu. Foreldrar fá líka tækifæri til að kynna sér það sem verið er að vinna með hverju sinni og verk barnanna eru sett upp til sýningar.

Ömmu og afakaffi: Einu sinni á ári bjóðum við afa og ömmu formlega í kaffi, þ.e. að öllu jöfnu í fyrri hluta októbermánaðar.

Afmæli barnanna: Þegar barn á afmæli fær það kórónu og sérstaka diskamottu við matarborðið. Það er sungið fyrir barnið og þennan dag er það borðstjóri.

Á föstudögum eru oft einhverjar uppákomur s.s hatta, búninga, furðufatadagur, litadagar, andlitsmálun, fjöruferð, gönguferð, leikir í sal (íþróttasal) rugludagur og fleira mætti telja. 

Hjóladagur: Þegar sumarið kemur, höfum við hjóladaga og þá koma börnin með hjólin sín og hjálma og hjóla á malbikinu, bæði innan leikskólalóðar og á planinu hér fyrir utan. Snemma sumars fáum við lögregluna á Akureyri til að koma og skoða hjól og hjálma og fræða okkur um umferðarmál.

Öskudagur: Á öskudaginn gerum við okkur glaðan dag og klæðum okkur í búninga og förum í fyrirtækin hér í nágrenninu. Við syngjum, skemmtum okkur og öðrum og fáum góðgæti fyrir. Góðgætinu er skipt bróðurlega á milli allra. Þegar heim er komið fáum við okkur popp og djús ef tími vinnst til.

Sumarhátíð: Foreldrafélagið sér um sumarhátíðina sem er síðasta dag fyrir sumarfrí. Hátíðin er fyrir börn, foreldra og gesti, allir eru velkomnir. 

Jólamánuðurinn: Í desember reynum við að hafa afslappað andrúmsloft og rólegheit. Starfsfólkið föndrar með börnunum og við hlustum á jólalögin.

Jólaföndur: Foreldrafélagið sér um föndurdag fyrir jólin, þá koma foreldrar og börn saman og föndra. Einnig heldur það jólaball stuttu fyrir jól, þá er mikið sungið og dansað, jólasveinninn kemur með eitthvað góðgæti.