Foreldrakaffi: Tvisvar á ári þ.e. að vori og í byrjun desember, bjóða börnin foreldum sínum og öðrum sem vilja koma í kaffi og meðlæti. Meðlætið útbúa börnin og starfsfólkið í sameiningu. Foreldrar fá líka tækifæri til að kynna sér það sem verið er að vinna með hverju sinni og verk barnanna eru sett upp til sýningar.
Ömmu og afakaffi: Einu sinni á ári bjóðum við afa og ömmu formlega í kaffi, þ.e. að öllu jöfnu í fyrri hluta októbermánaðar.
Afmæli barnanna: Þegar barn á afmæli, má það koma með kökur, ís eða eitthvað góðgæti í leikskólann sem allir gæða sér á saman. (Við sleppum gosdrykkjum og miklu sælgæti). Afmælisbarnið fær kórónu og það er sungið fyrir það og þennan dag er barnið borðstjóri.
Á föstudögum eru oft einhverjar uppákomur s.s hatta, búninga, furðufatadagur, litadagar, andlitsmálun, fjöruferð, gönguferð, leikir í sal (íþróttasal) rugludagur og fleira mætti telja.
Hjóladagur: Þegar sumarið kemur, höfum við hjóladaga og þá koma börnin með hjólin sín og hjálma og hjóla á malbikinu, bæði innan leikskólalóðar og á planinu hér fyrir utan. Á fyrsta hjóladegi sumarsins fáum við lögregluna á Akureyri til að koma og yfirfara hjól og hjálma og fræða okkur um umferðarmál.
Grillveisla: Foreldrafélagið sér um grillveislu á sumarhátíðinni okkar, þ.e. síðasta dag fyrir sumarfrí. Hátíðin er fyrir börn, foreldra og gesti, allir eru velkomnir.
Öskudagur: Á öskudaginn gerum við okkur glaðan dag og klæðum okkur í búninga og förum í fyrirtækin hér í nágrenninu. Við syngjum, skemmtum okkur og öðrum og fáum góðgæti fyrir. Góðgætinu er skipt bróðurlega á milli allra. Þegar heim er komið fáum við okkur popp og djús ef tími vinnst til.
Jólamánuðurinn Í desember reynum við að hafa afslappað andrúmsloft og rólegheit. Starfsfólkið föndrar með börnunum og við hlustum á jólalögin.
Foreldrafélagið sér um föndurdag fyrir jólin, þá koma foreldrar og börn saman og föndra.
Stuttu fyrir jól er svo jólaball í leikskólanum, þá er mikið sungið og dansað, jólasveinninn kemur með eitthvað góðgæti.