Hagnýtar upplýsingar

Foreldrahandbók Álfaborgar

Afmæli
Þegar barn á afmæli, má það koma með veitingar í skólann sem allir gæða sér á saman. (Við sleppum gosdrykkjum og miklu sælgæti). Afmælisbarnið er borðstjóri, það fær kórónu og að sjálfsögðu er sungið fyrir það.

Foreldrakaffi / Ömmu og afakaffi
Tvisvar á ári þ.e. að vori og í byrjun desember, bjóða börnin foreldum sínum og öðrum sem vilja koma í kaffi og meðlæti. Meðlætið útbúa börnin og starfsfólkið í sameiningu. Foreldrar fá líka tækifæri til að kynna sér það sem verið er að vinna með hverju sinni og verk barnanna eru sett upp til sýningar. Ömmu og afakaffi er einu sinni á ári og bjóðum við þá afa og ömmu formlega í kaffi, þ.e. að öllu jöfnu í fyrri hluta októbermánaðar.

Forföll nemenda
Ef nemandi er fjarverandi er mikilvægt að láta starfsfólk leikskólans vita. Ef leyfi er lengur en þrjár vikur geta foreldar/forráðamenn fengið fæðisgjald endurgreitt. 

Matmálstímar
Í Álfaborg er grautur/morgunkorn/ristað brauð í boði á morgnana frá kl. 8:00-8:30. Ávaxtastund er kl. 10:00, hádegismatur er kl. 11.30 og síðdegishressing kl. 14.30.

Opnun skóla
Álfaborg er opinn frá kl. 07.30 - 16.15 alla virka daga. Eingöngu er tekið við börnum frá kl. 7.45.

Óveður eða ófærð
Kennsla í leikskóla er ekki felld niður ef einhver starfsmaður kemst til vinnu. 

Slys / Óhapp
Í stórum barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir höfum við strax samband við foreldra / forráðamenn eða hringjum á sjúkrabíl. Athygli er vakin á því að Svalbarðsstrandarhreppur greiðir kostnað vegna fyrstu ferðar á slysadeild ef um slys eða læknisheimsókn er að ræða á leikskólatíma.

Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Veikindi
Í skólanum er ekki aðstaða til að sinna sjúkum börnum. Veik börn eru viðkvæm og vansæl og þess vegna eiga þau ekki að koma í skólann þegar þau eru lasin. Nemandi á að vera hitalaust heima í a.m.k. 1- 2 sólarhringa. Þegar barnið kemur í skólann er ætlast til að það geti tekið þátt í hinu daglega starfi. Í undantekningartilvikum getur barn fengið að vera inni í einn dag. Ef þörf er á fleiri innidögum vegna einhverra sérstakra tilfella eru foreldrar beðnir að hafa samband við skólastjóra. Vegna ofnæmis, asma eða annarra sjúkdóma eru foreldrar beðnir um að skila inn vottorði. 

Útivist / klæðnaður 
Klæðnaður barnsins á alltaf að vera í samræmi við að barnið er í leikskóla. Barninu þarf að líða vel og klæðnaður þess má ekki hindra hreyfingu þess. Útiklæðnaður á alltaf að vera í takt við veðurfar. Æskilegt er að börnin hafi nóg af aukafötum sem geymd eru í körfu fyrir ofan fatahólf þeirra í forstofu. Foreldrar eru beðnir um að tæma hólf barnanna á föstudögum, inniskór mega alltaf vera eftir í skólanum. Fatnaður á að vera greinilega merktur. Merktur fatnaður skilar sér best.