Um árabil hafa nemendur í 6. - 10. bekk á Íslandi svarað Íslensku æskulýðsrannsókninni. Nú nýlega er búið að bæta nemendum í 4. og 5. bekk við rannsóknina. Nú er ætlunin að leggja áherslu á að nýta niðurstöður rannsóknarinnar í hverju sveitarfélagi fyrir sig og bregðast við þeim í tengslum við framkvæmd laga um farsæld barna. Markmiðið er að kortleggja hvað þarf að efla til að bæta farsæld barna almennt á heimilum, í skóla og í frí- og tómstundastarfi.
Nemendur í Valsárskóla í 4. - 10. bekk svöruðu þessari könnun vorið 2024 og nú höfum við fengið niðurstöðurnar til að hægt sé að bregðast við. Þær eru settar upp þannig að börn í Svalbarðsstrandarhreppi eru annars vegar borin saman við landið allt og hins vegar við Norðurland-Eystra utan Akureyrar. Rannsóknin er yfirgripsmeiri en Skólapúlsinn og snýr ekki eingöngu að skólanum heldur einnig félagslegum aðstæðum nemenda.
Niðurstöðum er skipt upp í sex flokka:
Menntun
Heilsa og vellíðan
Öryggi og vernd
Þátttaka og félagsleg tengsl
Lífsgæði og félagsleg staða
Hér fyrir neðan er stuttur texti um hvern flokk könnunarinnar og nokkrar myndir sem sýna svör barna og eru svör barna í sveitarfélaginu í miðjunni. Hægt er að skoða allar niðurstöður hér.
Menntun
Nemendur í Valsárskóla telja síður mikilvægt að leggja sig fram í námi en nemendur á öðrum landsvæðum og munar þar nokkrum prósentustigum. Nemendur í Valsárskóla eru duglegir að lesa og eru þeir 21-24 prósentustigum hærri en viðmiðunarhópar er varðar lestur á skáldsögum, fræðibókum, fréttaefni og teiknimyndasögum.
Nemendur í Valsárskóla telja sig hafa einhvern fullorðinn sem þeim finnst gott að tala við í skólanum og er það fremur en í öðrum skólum.
Nemendur í Valsárskóla upplifa sig síður útundan en viðmiðunarhópar og er munurinn umtalsverður. Þegar spurt er um þátttöku nemenda í viðburðum á vegum skólans þá taka nemendur í Valsárskóla virkan þátt í skólaviðburðum. Fáir nemendur í Valsárskóla telja sig einmana í skólanum. Þegar nemendur svöruðu spurningum um svefn á skóladögum svöruðu margir því að þeir færu seint að sofa eða eftir miðnætti. Margir nemendur telja sig þreytta í skólanum og munurinn er umtalsverður á nemendum í Valsárskóla miðað við aðra. Áberandi er hvað stúlkur meta sig þreyttar.
Heilsa og vellíðan
Þegar börnin er spurðir út í heilsu kemur fram að börn í sveitarfélaginu hreyfa sig ekki nægilega mikið í samanburði við önnur börn, og margir finna fyrir kvíða, depurð, höfuðverk og magaverk. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar nánar kemur fram að það eru frekar strákar í sveitarfélaginu sem hreyfa sig ekki nægilega mikið. Stúlkur meta líkamlega kvilla meiri hjá sér en drengir og aðrir nemendur sem þær eru bornar saman við.
Öryggi og vernd
Þegar spurt er um slagsmál þá eru þau mun algengari hjá okkur börnum en annars staðar. Einelti er metið eins og í öðrum landsvæðum og fleiri nemendur í Valsárskóla viðurkenna að hafa lagt aðra í einelti.
Þátttaka og félagsleg tengsl
Nemendur í Valsárskóla telja sig eiga auðvelt með að eignast nýja vini. Þátttaka þeirra í íþróttastarfi er minni í Svalbarðsstrandarhreppi en annars staðar en fleiri stunda listnám en annars staðar.
Allir sem svöruðu segjast eiga góðan vin eða vinkonu. Færri stunda hópíþróttir hjá okkur en annars staðar og færri stunda íþróttir almennt.
Lífsgæði og félagsleg staða
Börnin í sveitarfélaginu telja sig eiga erfiðara með að fá frið og ró heima hjá sér en önnur börn í samanburðarhópum. Þegar spurt er um aðstoð heima er varðar nám þá telja okkar börn sig síður geta fengið aðstoð við nám en aðrir. Börn í sveitarfélaginu fá síður tilfinningalegan stuðning heima en viðmiðunarhópar. Þau telja sig fá minni hjálp heima en börn og unglingar í viðmiðunarhópum.
Umræða
Til að rannsókn eins og Íslenskar æskulýðsrannsóknir skili árangri þarf að skapa umræðu í samfélaginu. Sumt sem kemur fram í þessum niðurstöðum höfum við fengið upplýsingar um áður t.d. í Skólapúls og höfum brugðist við í skólanum. Umræðan þarf að fara fram í skólanum, hjá nefndum og ráðum og síðast en ekki síst á heimilum.
Ljóst er að bregðast þarf við ofangreindum niðurstöðum og mikilvægt að heimili, skóli og samfélagið skoði vel í sameiningu hvað hægt er að gera þannig að börnin í samfélaginu njóti meiri farsældar. Okkur ber skylda, samkvæmt farsældarlögum, að skapa barni aðstæður til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska á eigin forsendum til framtíðar
Boðað verður til fundar í lok janúar þar sem allir sem koma að málefnum barna í sveitarfélaginu eru hvattir til að mæta og ræða þessar niðurstöður og hvernig við getum brugðist sem best við börnunum okkar til farsældar.
Skólastjóri Valsárskóla og tengiliður farsældar
Skólanefnd Svalbarðsstrandarhrepps
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps