Skólapúls, helstu niðurstöður foreldrakönnunar í mars 2021

Við höfum fengið niðurstöður úr foreldrakönnun Skólapúlsins. Í þeirri könnun eru svör foreldra í Valsárskóla borin saman við svör foreldra í öðrum skólum á Íslandi. Svörum er skipt í nokkra matsþætti og hér stutt samantekt um hvern þátt. 

1. Nám og kennsla

Allir þættir koma vel út og eru foreldrar ánægðir með nám og kennslu í skólanum. Foreldrar í Valsárskóla eru mun ánægðari samanborið við foreldra í öðrum skólum. Munurinn er tölfræðilega marktækur Valsárskóla í hag sjá mynd 1.1. Þar sýnir rauða línan meðaltal á Íslandi. Gráu tíglarnir eru aðrir skólar flokkaðir eftir fjölda nemenda og er Valsárskóli merktur með dökkum lit.

Foreldrar eru jákvæðir gagnvart stjórnun skólans, gagnvart aga í skólanum og þyngd námsefnis. Þessar niðurstöður eru mjög gleðilegar og veita okkur góðan stuðning við daglegt starf, starfsþróun og áætlanagerð. 

2. Velferð nemenda

Mikil ánægja er með samskipti nemenda við starfsfólk. Foreldrar í Valsárskóla eru jákvæðari en foreldrar almennt á landinu og munurinn tölfræðilega marktækur Valsárskóla í hag. Auk þess eru foreldrar ánægðir með hvernig þörfum nemenda er mætt, hvernig nemendum líður í skólanum bæði í kennslustundum og frímínútum, með úrvinnslu eineltis og eineltisáætlun. Veikleiki kemur fram hvað varðar einelti en foreldrar í Valsárskóla telja að það sé meira hér en í öðrum skólum, þó það sé ekki marktækur munur. Við tökum því að sjálfsögðu alvarlega og munum ræða það í bekkjum og óska eftir upplýsingum frá foreldrum. Mikilvægt er að foreldrar hafi samband ef þeir telja að einelti sé um að ræða. Vinna gegn einelti og viðbrögð við einelti verða sett í umbótaáætlun skólans sem við munum vinna að og kynna á næstu mánuðum.   

 

3. Aðstaða og þjónusta

Foreldrar meta aðstöðu og tómstundaþjónustu hátt og er þátttaka nemenda í Valsárskóla meiri en gerist og gengur. Þannig eru nemendur í Valsárskóla virkir í tónlistarnámi, frístundastarfi og félagsmiðstöðinni. Þónokkur neikvæðni kom fram gagnvart máltíðum í mötuneytinu. 

4. Foreldrasamstarf

Foreldrasamstarfið kemur vel út, sérstaklega hvað varðar áhrif foreldra á nám nemenda. Það kemur þó fram að við getum bætt okkur í að upplýsa foreldra um stefnu skólans og efla samstarf við foreldra um áætlanagerð. Við vonum að hægt verði að auka aðgengi að skólanum fljótlega og þá getum við fengið foreldra til aukins samstarfs bæði hvað varðar stefnur, álit og fleira. 

 

5. Heimastuðningur

Foreldrar í Valsárskóla aðstoða nemendur mun minna við heimanám samanborið við aðra foreldra. Ef til vill er hluti af því að ekki er ætlast til mikils heimanáms en vissulega eitthvað sem gott er að huga að. Foreldrar í Valsárskóla hafa litlar væntingar til háskólanáms barna sinna og er munurinn mikill samanborið við svör foreldra í öðrum skólum. Foreldrar hafa miklar væntingar til iðnnáms sem er mjög jákvætt. 

6. Opin svör

Foreldrar geta skrifað hvað þeim finnst jákvætt við skólann og komu 16 jákvæðar athugasemdir. Flestar snúar þær að ánægju með samskipti, öryggi nemenda og jákvæðni gagnvart námi og kennslu. 

Einnig er hægt að skrá hvað betur má fara. Í þeim flokki komu fram 14 athugasemdir sem ekki er hægt að flokka þar sem þær eru um hitt og þetta en við munum nota þær til að efla starfið.  

7. Viðbrögð við COVID

Foreldrar eru sammála um að viðbrögð við COVID í skólanum hafi verið góð. Þar eru foreldrar í Valsárskóla með þeim jákvæðustu á landinu. 

Hægt er að skoða allar niðurstöðurnar á heimasíðu skólans undir Valsárskóli - áætlanir - mat á skólastarfi.  Mat á skólastarfi | Skólar Svalbarðsstrandahrepp (svalbardsstrond.is)