Dagur íslenskrar tungu er í dag. Ekki var hægt að hafa hefðbundna dagskrá á sal en við héldum upp á daginn með hjálp fjarfundarbúnaðar. Ævar vísindamaður las fyrir nemendur í 1. - 6. bekk upp úr nýútkominni bók. Áður hafði Guðni Líndal Benediktsson lesið fyrir nemendur í 7. - 10. bekk úr nýútkominni bók.
Nemendur og starfsfólk völdu skemmtilegasta málsháttinn og fallegasta orðið fyrir árið 2020. Allir bekkir komu með tillögur eftir vinnu í bekkjunum og svo var haldin rafræn kosning. Úrslitin voru kynnt í beinni útsendingu milli hólfa.
Þrír málshættir fengu flest atkvæði sem skemmtilegustu málshættir í Valsárskóla árið 2020:
1. Nær ein kýrin pissar, pissa þær allar
2. Ekki er allt gull sem glóir
3. Æfingin skapar meistarann
Þrjú orð fengu flest atkvæði sem fallegasta orðið í Valsárskóla árið 2020:
1. Kærleikur
2. - 3. Hvolpar og norðurljós
Við erum mjög ánægð með val á fallegasta orðinu þar sem það passar vel við skólastefnu Valsárskóla og það sem við viljum m.a. standa fyrir.