Hagnýtar upplýsingar

Skólinn er opinn frá klukkan 07:45 – 16:15 virka daga en lokaður um helgar.

Sími: 4645510

Netfang: valsarskoli@svalbardsstond.is, skolastjori@svalbardsstrond.is, maria@svalbardsstrond.is

Heimasíða: http://www.skolar.svalbardsstrond.is

Skólaakstur

Ekið er skv. tímatöflu sem birt er á heimasíðu skólans. Mikilvægt er að nemendur komi á sína stoppistöð á réttum tíma. Skólabíllinn er einungis ætlaður nemendum grunnskólans. Ekki er ætlast til að nemendur leikskólans komi með eldri systkinum í skólabílnum. Skólastjóri getur þó leyft slíkt í undantekningartilvikum.

  • Forföll nemenda þarf að skrá í Mentor eða tilkynna í skólann, s. 4645510 og til skólabílstjóra s. 858 0777.

  • Ferðir frá skóla eru 10 mínútum eftir lok síðustu kennslustundar.

  • Athugið að ekki er hægt að reikna með að skólabíllinn geti tekið fleiri farþega en gert er ráð fyrir í áætlun.

  • Hafa skal samband við bílstjóra ef fjölga á farþegum af einhverjum ástæðum, (t.d. afmælisboð) til að athuga hvort laust er með bílnum.

Afmæli

Þegar barn á afmæli, má það koma með veitingar í skólann fyrir sinn samkennsluhóp. Við sleppum gosdrykkjum og sælgæti. Auk þess þarf að passa að koma ekki með neitt sem inniheldur hnetur því skólinn er hnetulaus vegna bráðaofnæmis. 

Ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum

Nemendur bera sjálfir ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum sínum í skólanum. Nemendur eiga ekki að koma með peninga í skólann að óþörfu og eiga ekki að skilja verðmæti eftir í fötum sínum á göngum eða í búningsklefum.

Það er á ábyrgð foreldra/forráðamanna að merkja vel allan fatnað. Merktur fatnaður skilar sér best. Óskilamunir eru geymdir í körfum í anddyri skólans. Nokkrum sinnum á ári eru óskilamunir lagðir fram til sýnis í skólanum s.s. á samtalsdögum og við skólaslit að vori og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að huga að munum barna sinna.

Ábyrgð nemenda á eigin námi

Nemendur bera ábyrgð á námi sínu (skv. IV. kafla 14. gr. lögum um grunnskóla)  með stuðningi kennara og foreldra og allt samstarf er því mikilvægt og stuðlar að metnaði nemenda til að stunda nám sitt af alúð.

Leyfi
Það er skólaskylda í grunnskólum á Íslandi en foreldrar geta óskað eftir leyfi fyrir börn sín. Þegar það á við um stakar kennslustundir er hægt að hringja á skrifstofu skólans eða vera í sambandi við umsjónarkennara. Ef þarf að óska eftir leyfi í einn til tvo daga nægir að fá leyfi hjá umsjónarkennara. Ef um lengra leyfi er að ræða þarf að sækja um það til skólastjóra. Þá þarf einnig að huga að því hvaða áhrif fríið hefur á nám barnsins og æskilegt að heyra í umsjónarkennara um hvernig námi verði sinnt í leyfinu. Gott er að skoða skóladagatal skólans og reyna eftir fremsta megni að nýta haust- og vetrarfrí og önnur frí til ferðalaga.   

Veikindi
Mikilvægt er að foreldrar tilkynni veikindi eins fljótt og hægt er og eru foreldrar beðnir um að láta vita fyrir hvern dag sem nemandinn er veikur. Hægt er að hringja í skólann 464-5510 á morgnana eða skrá veikindi á mentor.is. Hringt er heim ef nemendur eru ekki mættir kl. 8.15 - 8:30. 
Í skólanum er ekki aðstaða til að sinna veikum börnum. Veik börn eru viðkvæm og vansæl og þess vegna eiga þau ekki að koma í skólann þegar þau eru lasin. Nemandi á að vera hitalaus heima í a.m.k. 1 sólarhringa. Þegar nemandi kemur í skólann er ætlast til að hann geti tekið þátt í öllu daglegu starfi. Ef þörf er á undantekningin vegna einhverra sérstakra tilfella eru foreldrar beðnir að hafa samband við skólastjóra. 

Forföll í tónlistardeild þarf ekki að tilkynna ef búið er að tilkynna forföll í skólanum en forföll í skólaakstri þarf að tilkynna í síma 8580777.

Heimsóknir eftir skóla

Þegar nemendur fara í heimsóknir hver til annars eftir skóla, þurfa þeir að vera búnir að fá leyfi hjá foreldrum áður en þeir koma í skólann. Einnig þarf að kanna hvort pláss sé í skólabíl. Slíkt er alfarið á ábyrgð foreldra.

Lyfjagjafir í skólanum

Í tilmælum frá landlækni um lyfjagjafir í grunnskólum frá maí 1999 kemur meðal annars fram að foreldrum/forráðamönnum ber að afhenda hjúkrunarfræðingum, umsjónarkennara eða skólastjóra þau lyf sem börn og unglingar eiga að fá í skólanum. Börn og unglingar eiga aldrei vera sendiboðar með lyf.  

Foreldrar/forráðamenn þeirra barna og unglinga sem þurfa að taka lyf á skólatíma eru vinsamlega beðnir að hafa samband við hjúkrunarfræðinga skólans til skrafs og ráðagerða um hvernig best verði komið til móts við þessi tilmæli.

Starfsfólk gefur nemendum aldrei lyf nema í samráði við foreldra.

Matmálstímar

Boðið er upp á graut, slátur og ávexti frá kl. 9:05-9:15 og hádegismat kl. 11.35. Nemendur í frístund fá síðdegishressingu kl. 14.30. Morgunmatur og hádegismatur er gjaldfrjáls.

Meðferð námsgagna og eigur skólans
Skólinn lætur í té öll námsgögn sem nemendur þurfa að nota við nám sitt. Þeir taka ábyrgð á því og eiga að fara vel með þau. Nemendur og forráðamenn þeirra eru ábyrgir fyrir því tjóni sem nemendur kunna að valda á eigum skólans.

Notkun snjalltækja 

Í Valsárskóla er litið svo á að ákjósanlegasti kosturinn er að nemendur læri að nota tækin sín á ábyrgan og uppbyggilegan hátt, sér og öðrum til gagns og gamans. Ef nemendur vilja koma með síma, snjalltæki eða tónhlöður í skólann verður að vera tryggt að tækin séu notuð í samráði við kennara og trufli aldrei nám og kennslu. Taka þarf tillit til friðhelgi einkalífs nemenda og starfsmanna og eignaréttar og réttar skóla til að skapa nemendum góð skilyrði til náms. Með þessu móti er nemendum gefið ákveðið frelsi og þurfa þess vegna að virða fyrirmæli kennara og þá reglu að nota snjalltæki ekki í matsal. Mikilvægt er að bæði foreldrar og kennarar taki umræðu um notkun snjalltækja og þær reglur sem um þau gilda reglulega. Ef nemendur fara ekki eftir þessum reglum eru þeir minntir á reglur og ef ábendingum er ekki sinnt eru þeir beðnir um að afhenda símann. Síminn er geymdur hjá skólastjóra og nemandi fær hann í lok dags. Ef nemandi vill ekki afhenda síma og geyma hjá skólastjóra er haft samband við foreldra.  

Opnun skóla

Valsárskóli er opinn frá kl. 7.45. Starfsmaður eða skólastjóri tekur á móti börnunum og annast gæslu þar til skólastarf hefst kl. 8:05.

Óveður eða ófærð

Þar sem skólinn ber ábyrgð á nemendum á leið í og úr skóla getur þurft að fella niður skólastarf vegna veðurs. Ef veður er svo slæmt að það þurfi að fella niður kennslu í grunnskólanum er foreldrum/forráðamönnum sent sms í skráða farsíma fyrir klukkan 7:30 eða eins snemma og hægt er. Eins verður sett inn tilkynning á heimasíðu og facebooksíðu skólans.

Ef veður er tvísýnt metur skólastjóri í samráði við skólabílstjóra, mokstursaðila og fleiri hvort skólabíll sækir börn. Ef talið er að það sé áhætta er skóla aflýst. 

Skólastjóri notar litakerfi veðurstofunnar til viðmiðunar:

Gul viðvörun - reikna má með skólastarfi nema aðstæður og færð verði verri en gert var ráð fyrir
Appelsínugul viðvörun - veður og færð metin að morgni
Rauð viðvörun - skóla aflýst þegar viðvörun er gefin út 

Símtöl

Nemendur geta fengið að hringja á kaffistofu skólans og foreldrar geta jafnframt komið boðum til barna sinna með því að hringja í aðalnúmer skólans.

Skólahúsnæði 

Hver bekkur hefur sína heimastofu, allar á efri hæð hússins. Þar er einnig skrifstofa, vinnurými kennara, kaffistofa starfsfólks, textíl- og myndmenntastofa, fundarherbergi og rými fyrir unglingastigið. Á neðri hæð hússins er tómstundaherbergi, matsalur, eldhús, íþróttasalur, tónlistarstofur og aðstaða frístundar. Að auki er kennt í sundlauginni haust og vor. Heimilisfræði val er kennd í eldhúsi skólans og smíðar eru kenndar í rými á milli skrifstofu sveitarfélagsins og leikskólans. 

Skólalóð 

Leiksvæði nemenda er kringum skólahúsið. Þar eru leiktæki, ærslabelgur og boltavellir. Nemendum er óheimilt að fara út fyrir skólalóðina á skólatíma nema með leyfi eða í umsjón kennara.

Slys / óhapp

Í stórum barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir höfum við strax samband við foreldra / forráðamenn eða hringjum á sjúkrabíl. 

Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Útivist / klæðnaður 

Nemendur í 1. - 6. bekk fara út í frímínútur daglega. Kennsla fer stundum fram utandyra, ýmist á skólalóð eða í næsta nágrenni. Brýnt er að nemendur klæði sig eftir veðri hverju sinni þannig að þeir geti notið útivistarinnar í leik og námi. Æskilegt er að nemendur í 1.-4. bekk séu með aukasett af fötum í skólanum. Nemendur í 7. - 10. bekk geta valið hvort þeir fara út í frítíma og hefur verið aukið mjög afþreytingarmöguleikar þar sem ungli garnir hafa aðgang að íþróttasal, Bakka sem er setustofa og síðast en ekki síst Pittinum þar sem er búið að setja upp Púlborð, Bobbborð, Borðtennisborð, boxlpúða og fleira. Símar eru ekki leyfði í matsal eða í frímmínútum kl. 10:15-10:35. 

Heilsugæsla 

Heilsugæsla Valsárskóla heyrir undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri. Brynhildur Smáradóttir hjúkrunarfræðingur sinnir skólaheilsugæslu og er hennar viðverutími í skólanum að jafnaði 2. og 4. föstudag eða fimmtudag í mánuði klukkan 08:00 – 14:00. Hægt að ná í hana á þeim tíma í síma 6917788 og þess á milli með tölvupósti brynhildur@akmennt.is

Sjá nánar á:

https://skolar.svalbardsstrond.is/is/thjonusta/skolahjukrun 

Móttaka nýrra nemenda

Við móttöku nýrra nemenda er lögð áhersla á hlýjar móttökur og skýrar upplýsingar. Nemandinn og foreldrar eru boðuð í heimsókn í skólann áður en kennsla hefst að hausti. Við komu nýs nemanda í bekk er sérstaklega stuðlað að því að hann tengist þeim sem fyrir eru og er þá m.a. einum eða fleiri nemendum falið það hlutverk að fylgja honum um skólann fyrstu dagana og bjóða honum að vera með í frímínútum. Á heimasíðu skólans er hægt að finna áætlun um móttöku nýrra nemenda:

https://skolar.svalbardsstrond.is/is/valsarskoli/aaetlanir/mottaka-nyrra-nemenda 

Rýmingaráætlun 

Búið er að tímasetja tvær rýmingaræfingar á skólaárinu og uppfæra rýmingaráætlun.  Skólinn verður rýmdur tvisvar á skólaárinu 2023-2024 samkvæmt áætlun.