Njálgur

Njálgur (Enterobius vermicularis)

Njálgur er hringormur sem er algengur um allan heim, einkum í tempraða beltinu og er algeng sýking hjá fólki á öllum aldri, einkum meðal barna. Njálgur er ekki talinn valda hýslinum beinu líkamlegu tjóni. Njálgur er skráningarskyldur sjúkdómur.

Smitleiðir

Sýking verður þegar njálgsegg komast í meltingarveg eftir að hafa borist í munn með höndum. Börn eru líklegri en fullorðnir til að fá sýkinguna því þau eru líklegri til að handleika jarðveg og aur og setja fingurna í munninn án þess að hafa þvegið hendur sínar fyrst. Sjálfssýking verður þegar egg berast í munn með höndum sem hafa klórað á endaþarmssvæði. Smit berst auðveldlega milli fjölskyldumeðlima og leikfélaga eftir snertingu við mengaðan fatnað eða sængurföt. Í einhverjum tilfellum geta einstaka egg orðið loftborin og komist þannig í munn og í meltingarveg með kyngingu.

Lífsferill

Eftir að eggin komast í meltingarveginn klekjast þau út í smágirninu og þroskast þar yfir í fullorðin dýr og færa sig síðan í ristilinn. Allur lífsferillinn er talinn vera 4-6 vikur, að meðaltali 30 dagar. Í útliti er njálgur hvítur, lítill og viðkvæmur þráðormur. Fullorðið kvendýr er 8-13 mm langt og 0,5 mm þykkt. Fullorðið karldýr er 2-5 mm langt og 0,2 mm þykkt. Eftir kynmök drepst karldýrið en kvendýrið flytur sig niður í endaþarminn. Þar fer hún út á yfirborðið, vanalega að nóttu til, og verpir miklu magni af eggjum á svæðið umhverfis endaþarminn. Eggin eru hálfgegnsæ með þykka skel með flatri hlið og ekki greinanleg með berum augum. Eftir varpið gefur hún frá sér efni sem veldur miklum kláða og hvetur til að hýsillinn klóri sér á svæðinu og flytji þannig eitthvað af eggjunum á fingurna. Eggin geta einnig borist yfir í fatnað, rúmföt, leikföng og í umhverfið. Eggin geta lifað í 2-3 vikur utan líkamans. Í sumum tilfellum klekjast egg út á svæðinu umhverfis endaþarminn og skríða lirfurnar inn um endaþarminn, upp ristilinn og upp í smágirnið þar sem þær þroskast áður en þær fara aftur niður í ristilinn.

Einkenni smits

Njálgsmit er oft einkennalaust en kláði við endaþarm er helsta einkennið. Kláðinn ágerist á nóttunni og getur valdið svefntruflunum. Kláðinn getur leitt til að húðin verður rauð og aum og getur sýkst af bakteríum. Ef sýkingin er mikil getur hún lýst sér með lystarleysi, kviðverkjum og pirringi.

Greining

Þegar grunur er um njálgsýkingu hjá barni er best að skoða endaþarmsopið snemma að morgni áður en barnið vaknar. Oft er þá hægt að sjá orma við endaþarmsopið og oft sjást þeir utan á saur, eggin eru hins vegar ekki hægt að  sjá berum augum. Einnig er hægt að greina sýkinguna með því að þrýsta límbandi að húðinni við endaþarmsopið og skoða það í smásjá í leit að eggjum.

Meðferð

Til að ráða niðurlögum njálgs þarf lyfjameðferð og eru tvö lyf skráð hér á landi Vanquin og Vermox og er hvort tveggja til sem töflur og mixtúra. Vanquin er selt í lausasölu í apótekum en til að fá Vermox þarf lyfseðil frá lækni.

Vanquin hefur sérhæfða verkun gegn njálgi. Lyfið drepur bæði njálginn og lirfur hans og kemur þannig í veg fyrir að egg verði til.  Lyfið hefur ekki áhrif á þau egg sem þegar hafa orðið til og er því mikilvægt að hafa það í huga þegar meðhöndlað er, því að endursýking er algeng vegna þess að lifandi egg halda áfram að berast út úr líkamanum með saur allt uppí 2 vikur eftir lyfjagjöf. Vegna lífsferils njálgs er ráðlagt að allir fjölskyldumeðlimir og nánir leikfélagar séu meðhöndlaðir á sama tíma og að allir endurtaki meðferðina 2-3 vikum síðar til að koma í veg fyrir áframhaldandi smitun. Skömmtun lyfsins er miðuð við 1 töflu eða 5 ml af mixtúru á hver 10 kg líkamsþyngdar. Fullorðin manneskja tekur mest 8 töflur og skulu þær allar teknar inn í einum skammti. Virka efnið í Vanquin er sterkt litarefni og litar hægðir rauðar. Liturinn festist auðveldlega í fötum og húsgögnum ef mixtúran hellist niður eða er kastað upp. Gleypa skal töflurnar en ekki tyggja þar sem þær geta litað tennur og munn. Aukaverkanir af lyfinu eru helstar ógleði og einstaka sinnum uppköst og þá frekar eftir inntöku mixtúrunnar. Magaverkir og niðurgangur þekkjast sem aukaverkun. Ofnæmi er sjaldgæft.

Vermox er breiðvirkara lyf og virkar gegn fleiri ormategundum með því að trufla meltingarstarfsemi þeirra og hindra þroskun eggja. Meðferðina má endurtaka með 2-3ja vikna millibili. Meðhöndla ber alla í fjölskyldunni samtímis. Lítil reynsla er af notkun lyfsins hjá börnum yngri en 2 ára, og er því ráðlagt að gefa þeim það ekki, en skammtar eru annars hinir sömu og hjá fullorðnum. Þungaðar konur skulu ekki nota lyfið. Lyfið getur valdið tímabundnum kviðverkjum og ofnæmisviðbrögðum hefur verið lýst.

Aðgerðir til að draga úr dreifingu njálgsmits og endursýkingu

  • Bað að morgni dags minnkar líkur á dreifingu eggja frá endaþarmi
  • Hrein nærföt daglega og tíð náttfataskipti
  • Vandaður handþvottur eftir salernisferðir, eftir bleiuskipti og áður en matast er
  • Hafa neglur stuttklipptar og hreinar
  • Gott almennt hreinlæti í umhverfi
  • Eftir hverja lyfjameðferð þarf að skipta um nærfatnað, náttföt og sængurfatnað
  • Þvo nær- og sængurfatnað við a.m.k. 60°C hita og þurrka þau í hita
  • Njálgsegg eru viðkvæm fyrir sólarljósi

Ása St. Atladóttir sýkingavarnahjúkrunarfræðingur