Stefna skólans

Leiðtogasamfélagið Álfaborg/Valsárskóli er uppeldisstefna skólans sem byggir á skólastefnu Svalbarðsstrandarhrepps.

Í Álfaborg/Valsárskóla þróum við styrkleika nemenda þannig að þeir verði hæfari til að takst á við verkefni framtíðarinnar. Hugmyndin um leiðtogaþjálfun nemenda felst í að þjálfa nemendur í að finna eigin styrkleika og efla sjálfstraust þeirra og þrautsegju þannig að þeir geti talað fyrir hugmyndum sínum og gert þær að veruleika. 
 

Inntak stefnunnar er:

 • Álfaborg/Valsárskóli er samfélag þar sem hver og einn einstaklingur (nemandi og starfsmaður) er mikilvægur. Í skólanum viljum við að öllum líða vel. Við viljum að allir séu öruggir, sinni sínu hlutverki og nýti hæfileika sína til góðs. Markmið Leiðtogasamfélagsins er að skapa samhljóm meðal ólíkra einstaklinga - mikla jákvæðni sem leysir úr læðingi bestu eiginleika fólks. 

 • Leiðtogi er sá sem vill vera hann sjálfur og horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Við finnum út hverjar þarfir okkar eru á hverjum tíma, hvaða tilfinningar við berum og hvernig við viljum móta líf okkar og nám út frá þeim hæfileikum sem við höfum. Við reynum að greina milli þess sem við viljum sjálf og þess sem aðrir vilja með líf okkar. Í vinnunni notum við hugtökin: ég-Sjálf (það sem ég raunverulega vil) og skyldu-sjálf (það sem við viljum vegna þess að aðrir vilja það). Það er ekki alltaf auðvelt að greina þar á mill en það er verkefni sem við glímum við alla ævi.  

 • Leiðtogi er sá sem þroskar hæfileika sína, finnur þeim farveg og greiðir leið annarra til að gera það sama. Leiðtogar fá tækifæri í skólanum til að finna út hverjir hæfileikar þeirra eru og eiga möguleika á því að þroska þá.  

 • Leiðtogi er sá sem hefur kjark til að vera virkur í aðstæðum og breyta þeim til góðs. Virkni er eitt af gildum Álfaborgar/Valsárskóla. Nemendum er kennt hver er munurinn á því að vera virkur í samskiptum og óvirkur, nemendur læra hvernig þeir geta haft áhrif á aðra og fengið þá til að vinna með sér að góðum verkum. Leiðtogar eru margir og forysta er ekki í höndum eins einstaklings. Hver og einn nemandi þarf að fá tækifæri til að reyna sig sem leiðtogi, eins oft og hann hefur möguleika til. 

 

Markmið stefnunnar er:

 • Valdefling og virkni nemenda. 
  Valdefling og virkni eru þjálfuð og rædd á bekkjarfundum/samverufundum, þemaverkefninu Leiðtogasamfélaginu, á skólaþingum og í einstaklingsviðtölum. Leiðtogar fá að taka að sér verkefni í skólanum og nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði í að bæta skólann, samskipti við aðra og sjálfan sig. 

 • Leiðtogahæfni sem byggst á sjálfsþekkingu og sjálfstjórn.
  Uppeldisstefnan öll svo og meðferð agamála og einstaklingssamtöl miða að því að nemendur þekki þarfir sínar og tilfinningar og geti gert öðrum þær ljósar.   

 • Gæða kennsla/Gæða nám
  Námsefni er skipt í lotur sem allar enda með námsmati sem er leiðsagnarmat um næstu lotu. Unnið er með áhugasvið nemenda þar sem þeir ráða útfærslu verkefna sinna í þemanámi. Fjölbreytni í viðfangsefnum er tryggð m.a. með fjórum heildstæðum þemaverkefnum á ári. Gæða kennsla er tryggð með góðum undirbúningi kennara, fyrsta flokks aðbúnaði og sífelldri endurskoðun. Gæða nám er tryggt með áherslu á ástundun nemenda, markvissu mati og öflugri eftirfylgni. 

 

Veturinn 2008-2009 var ákveðið að innleiða Uppbyggingarstefnuna í Valsárskóla. Fræðsla og kynning fyrir starfsfólk hófst veturinn 2010-2011. Valsárskóli byrjaði innleiðingarferlið  haustið 2010. Árið 2014 var ákveðið að útfæra uppbyggingarstefnuna þannig að hún leggði áherslu á jafnræði starfsmanna og nemenda og leiðtogaþjálfun nemenda. Þá var dregin fram einn þáttur uppbyggingarstefnunnar, áherslan á sjálfsbirtingu nemenda. Með sameinginu leik- og grunnskóla árið 2015 var uppbyggingarstefnan og leiðtogaþjálfunin þróuð áfram í leikskólanum. 

Grunnþættir endurspegla áherslur stefnunnar í skólanum. 

Uppbyggingarstefnan

 • Uppbyggingarstefnan (Restitution) er hugmyndakerfi sem lögð er áhersla á sjálfsaga, sjálfsstjórn og uppbyggileg samskipti. Uppbygging miðar að því að finna leiðir til lausna á ágreiningsmálum, skoða hlutverk okkar og hvaða þarfir liggja að baki hegðunar okkar. Ef vel tekst til skapast aðstæður fyrir einstaklinginn til að leiðrétta og bæta fyrir mistök sín, gera betur og snúa síðan aftur til hópsins með aukið sjálfstraust.

 • Uppbyggingarstefnan leggur áherslu á jákvæð samskipti fremur en reglur, á ábyrgð fremur en blinda hlýðni og á virðingu fremur en stjörnugjöf. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn geti hugsað áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum.

 • Uppbyggingarstefnan hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín. Þetta er aðferð í samskiptum og aðferð við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðamenn sína rangindum eða lent upp á kant við þá. Leitast er við að ná samstöðu um skólasáttmála til að hafa að leiðarljósi og fylgja honum eftir með fáum skýrum reglum. Spurt er bæði hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn.
    

Í Álfaborg/Valsárskóla er mikið lagt upp úr umræðum um rétta hegðun og ásættanleg mörk. Á bekkjarfundum eru tekin fyrir stór og smá ágreiningsmál með það að markmiði að þroska með nemendum gagnrýna hugsun og vilja til málamiðlanna.