Ytra mat í Valsárskóla

Dagana 1. – 2. mars verður unnið að ytra mati á okkar skóla. Matið felst meðal annars í að matsaðilar frá Menntamálastofnun munu verða í skólanum áðurnefnda daga og fara í vettvangsskoðanir í kennslustundir hjá öllum nemendum. Einnig taka  þeir rýniviðtöl við ýmsa hópa skólasamfélagsins svo sem starfsmenn, foreldra, nemendur og fulltrúa úr skólaráði. Foreldrar/forráðamenn mega því gera ráð fyrir að óskað verði eftir þátttöku þeirra  í umræðuhópa en matsmenn velja hópana með slembiúrtaki. Skólinn hefur samband við foreldra/forráðamenn ef  barn/börn þeirra eru í úrtaki sem og aðra þátttakendur.

Auk rýnihópaviðtala munu matsaðilar skoða gögn sem fyrir liggja um skólann og varpað geta ljósi á skólastarfið. Matinu er ætlað að vera leiðbeinandi og framfaramiðað. Sérstaklega er hugað að því sem er framúrskarandi gott og öðrum til eftirbreytni en matið er líka umbótamiðað og hugsað til að styrkja okkar ágæta skólastarf þegar til lengri tíma er litið.

Á hverju ári er á þriðja tug grunnskóla metnir með ytra mati og gert er ráð fyrir að árið 2021 hafi allir grunnskólar landsins farið í gegnum sambærilegt mat. Ytra mat á grunnskólum er samstarfsverkefni mennta-og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga en framkvæmd matsins er á vegum Menntamálastofnunnar.

Matsaðili sem kemur til okkar heitir Svanhildur M. Ólafsdóttirog væntum við góðs samstarfs. Ef foreldrar óska eftir geta þeir haft beint samband við leiðandi matsmann: Gunnhildur Harðardóttir og er netfangið: gunnhildur.hardardottir@mms.is