Valsárskóli - skólabyrjun

Nú styttist í að nýtt skólaár hefjist og erum við spennt að fá nemendur í hús. Þessa dagana erum við að undirbúa skólastarfið. 

Skólasetning
Skólasetning verður miðvikudaginn 21. ágúst kl. 16:15 á sal Valsárskóla. Við hlökkum til að hitta ykkur og vonumst til að sjá sem flesta. Veitingasala verður á vegum ferðasjóðs.     

Skólabyrjun
Skólinn hefst með haust- og útivistardögum fimmtudaginn 22. ágúst og föstudaginn 23. ágúst og munum við verða sem mest úti með nemendum þá daga. Gott er að nemendur hugi að því vera klæddir eftir veðri. Þessa daga lýkur skólanum kl: 13:00. Hefðbundið skólastarf hefst svo mánudaginn 26. ágúst samkvæmt stundaskrá. 

Skólabíllinn
Áætlun fyrir skólabílinn er klár og verður send á þau heimili sem nýta bílinn í vikunni. Sú áætlun fer líka á heimasíðu skólans en gæti verið uppfærð eftir 1-2 vikur ef tímasetningar passa ekki. Við hvetjum ykkur til að hafa samband ef þið sjáið að áætlunin gengur ekki upp. 

Vinaborg
Vinaborg hefur starfsemi miðvikudaginn 21. ágúst og er opin allan þann dag. Eftir það verður hún opin daglega eftir kennslu til 16:15. Allir þeir sem ætla að nýta Vinaborg eru hvattir til að skrá sín börn í gegnum rafrænt form sem verður sent á heimilin í dag. 

https://skolar.svalbardsstrond.is/is/thjonusta/vinaborg-fristund

Símalaus skóli
Valsárskóli verður símalaus skóli frá og með þessu skólaári. Skólasamfélagið var upplýst um það í vor í kjölfar umræðu, á foreldraþingum, kennarafundum og víðar. Foreldrar svöruðu könnun þar sem um 92% þeirra sem svöruðu studdu það að skólinn tæki upp þá stefnu að vera símalaus.  

Tónlistarskóli Eyjafjarðar
Kennarar í Tónlistarskóla Eyjafjarðar koma hingað til að kenna nemendum. Kennslan fer þannig fram að sumir nemendur fara úr kennslustundum í tónlistartíma, aðrir úr Vinaborg og enn aðrir fara eftir kennslu í Valsárskóla. Tekið er tillit til nemenda sem nota skólabíl. Skipulagið er þannig að þeir sem fara úr hefðbundnum kennslustundum fara ekki alltaf úr sömu kennslustund en eru alltaf í tónlistarnámi á sömu vikudögum. 

Mentor
Mentor er það kerfi sem við notum til að halda utan um skólastarfið s.s. mætingar, stundatöflur, námsmat o.fl. Til að upplýsingar frá skólanum skili sér örugglega til ykkar er mikilvægt að yfirfara símanúmer, netföng og fleira. Einfaldast er að aðstandendur fari inn á fjölskylduflísina, smelli þar á flipann Aðstandendur og lesi yfir og uppfæri eins og þarf. Þar er einnig hægt að bæta við aðstandendum. Þeir foreldrar sem eru að byrja með barn í skóla er bent á að skoða bækling um Mentor sem er aðgengilegur á heimasíðu skólans. 
https://www.infomentor.is/wp-content/uploads/2022/08/handbok-fyrir-adstandendur_mars2022.pdf    

Skóladagatal
Skóladagatal Valsárskóla er aðgengilegt á heimasíðu skólans og þar eru einnig upplýsingar um skólann. Flest heimili fengu skóladagatal í vor, ásamt skýringum, og hvetjum við ykkur til að hafa það við hendina. Ef það hefur glatast, hafið samband og við sendum ykkur nýtt sem fyrst.

https://skolar.svalbardsstrond.is/static/files/skoladagatal-2024-2025-valsarskoli.xlsx-skoladagatal.pdf 

Mætingar í skólann og leyfi
Við viljum minna foreldra á að skipuleggja ferðalög og frí eins og hægt er m.t.t. skóladagatalsins. Ef nemandi þarf stutt leyfi þarf að hafa beint samband við umsjónarkennara. Ef leyfið er 3 dagar þarf að senda tölvupóst á skólastjóra eða nota heimasíðuna: 

https://skolar.svalbardsstrond.is/is/valsarskoli/foreldrar/beidni-um-leyfi-nemanda   

Veikindi nemenda
Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi nemenda og er hægt að gera það með því að hringja í skólann eða skrá það í Mentor. Veikindi þarf að skrá daglega. Við minnum foreldra líka á að senda nemendur ekki í skólann nema þeir geti tekið þátt í öllu skólastarfinu. 

Alltaf er hægt að hafa samband við Valsárskóla
Við hvetjum ykkur til að vera í sambandi við umsjónarkennara, skólastjóra og annað starfsfólk ef eitthvað er óljóst í skólastarfinu. Við sem störfum í skólanum sjáum kannski ekki alltaf hvaða upplýsingar vantar. Þægilegt er að senda tölvupóst eða hringja í skólann.