Valsárskóli og fullveldið

Við í Valsárskóla höldum upp á fullveldisdaginn með hefðbundinni dagskrá. Við hófum daginn á því að yngsti nemandinn í skólanum tendrað ljósin á jólatrénu okkar. Máni Baldur Elísabetarson kveikti ljósin þetta árið. Við sungum jólalög og gengum í kringum tréð. Að því loknu fórum við inn og gæddum okkur á lummur, kakó, piparkökur og mandarínur. 

Þrír fulltrúar úr nemendaráði fluttu ávarp og fræddu okkur um fullveldi Íslands og um sögu stjórnarfars á Íslandi. Ræðan var góð og tókst nemendum að fræða okkur um muninn á fullveldi og lýðræði. Hún var eining tengd við forsetakosningar síðastliðið vor og alþingiskosningar á morgun. Ræðumenn dagsins voru þau Eyrún Dröfn Gísladóttir, Lilja Jakobsdóttir og Logi Hrafn Brynjólfsson. Dagurinn var einnig notaður til að skreyta skólann og koma jólaundirbúningnum af stað.

Hér eru nokkrar myndir frá deginum sem var bæði hátíðlegur og skemmtilegur.