Skólastarf í Valsárskóla í desember

Skólastarfið í Valsárskóla gengur vel þrátt fyrir ýmsar takmarkanir. Við störfum í þremur hólfum og standa nemendur og starfsfólk sig vel. Reglugerð sem hefur gilt frá 2. nóvember var framlengd til 9. desember. Við erum að vona að við getum klárað árið á hefðbundinn hátt en það kemur í ljós í dag eða á morgun. 

 

Nemendur í 7. - 8. bekk ásamt nokkrum úr 9. - 10. bekk fóru út í hríðinni á fimmtudag og mokuðu snjó frá útidyrum fyrir nokkra íbúa í þorpinu. Við erum stolt af þeim og glöð að þau leggi sitt af mörkum fyrir samfélagið. 

 

Það er gaman að segja frá því að fyrir nokkru var gróðursett tré fyrir austan skólann. Í dag er tréð lítið og fíngert en með tímanum verður það stórt og glæsilegt. Þannig teljum við okkur vinna samkvæmt umhverfisstefnu Svalbarðsstrandarhrepps og erum ánægð að eiga lifandi tré þar sem það er umhverfisvænna en að fá tré á hverju ári. 

Á föstudaginn síðasta var haldið upp á fullveldisdaginn með því að kveikja jólaljósin á nýja grenitrénu sem nú nýverið var gróðursett austan við Valsárskóla. Þetta árið var kveikt fjórum sinnum á trénu. Krakkar úr þremur hólfum grunnskólans tendruðu jólaljósin og dönsuðu og sungu kringum jólatréð og að lokum komu allir krakkarnir úr leikskólanum. Eftir útiveruna fengu allir nemendur kakó og lummur inn á sínum svæðum og formaður nemendafélagsins, Arnrún Ólöf Brynjólfsdóttir, flutti ávarp í tilefni dagsins í gegnum fjarfund.

 

Tveir nemendur úr Valsárskóla fóru sem jólasveinar í Álfaborg þennan sama dag og dönsuðu og sungu með leikskólabörnunum. Það vakti mikla lukku. Við skreyttum svo skólann og gerðum okkur glaðan dag. Heiða og Kamila voru svo með hangikjöt í matinn í hádeginu þannig að dagurinn var hátíðlegur og þjóðlegur.   

Í dag skárum við svo út í laufabrauðið sem ætlunin er að borða á litlu jólunum. Við áttum notarlega jólastund uppi í stofunum, hlustuðum á jólatónlist og dunduðum okkur við að skreyta kökurnar.