Skólapúlsi, í 6.–10. bekk

Við höfum nú fengið úr vinnslu niðurstöður úr Skólapúlsi, sem nemendur í 6.–10. bekk svara árlega. Nemendur Valsárskóla tóku þátt í könnuninni í október 2025. Niðurstöður okkar eru bornar saman við svör nemenda í grunnskólum um allt land sem taka þátt í Skólapúlsi. Þannig fáum við gagnlegt yfirlit sem nýtist í innra mati skólans, umbótastarfi og áframhaldandi þróun.

Í stuttu máli eru svör nemenda að mörgu leyti sambærileg við það sem sést í öðrum skólum landsins. Hins vegar koma einnig fram nokkrir þættir þar sem svör Valsárskólanemenda eru tölfræðilega marktækt frábrugðin landsmeðaltali.

Virkni nemenda

Þrautseigja í námi mælist lægri í Valsárskóla en annars staðar í landinu, líkt og undanfarin ár. Þó má sjá örlitla jákvæða þróun milli ára. Þau atriði sem nemendur svöruðu marktækt neikvæðara en jafnaldar, tengd þrautseigju, eru eftirfarandi:

  • „Þegar ég læri legg ég mig allan fram.“

  • „Þegar ég læri reyni ég að gera mitt besta til að ná tökum á þeirri þekkingu og hæfni sem verið er að kenna.“

  • „Þegar ég læri þá held ég áfram jafnvel þó efnið sé erfitt.“

  • „Þegar ég læri legg ég eins hart að mér og mögulegt er.“

 



Áhugi á stærðfræði er áfram yfir landsmeðaltali og áhugi á náttúrufræði örlítið undir því, þó ekki marktækt. Þegar spurt er hversu vel nemendur telja sig geta lært helstu námsgreinar (íslensku, stærðfræði, ensku, íþróttir, sund, náttúrufræði, umhverfismennt, hönnun og smíði) kemur fram að sjálfstraust þeirra er almennt lægra en meðal jafnaldra á landsvísu. Einkum sést þessi vantrú meðal nemenda í 6.–7. bekk.

Líðan og heilsa

Sjálfsálit nemenda mælist marktækt lægra en í samanburðarskólum, og á þetta sérstaklega við um nemendur í 8. bekk. Matsþátturinn byggir m.a. á eftirfarandi spurningum:

  • „Mér finnst ég vera að minnsta kosti jafn mikils virði og aðrir.“

  • „Ég hef marga góða eiginleika.“

  • „Ég er misheppnaður.“

  • „Ég get gert margt jafn vel og aðrir.“

  • „Ég er ánægður með sjálfan mig.“

  • „Stundum finnst mér ég ekki skipta máli fyrir aðra.“

Auk þess telja nemendur í Valsárskóla sig almennt hafa minni stjórn á eigin lífi en nemendur á landsvísu. Þetta á einkum við um nemendur í 6.–8. bekk. Sérstaklega virðist þeim finnast erfitt að takast á við vandamál, sem endurspeglast í svörum við spurningum á borð við:

  • „Það er í raun útilokað fyrir mig að leysa úr sumum vandamálum mínum.“

  • „Stundum finnst mér að aðrir stjórni lífi mínu of mikið.“

  • „Ég hef litla stjórn á því sem kemur fyrir mig í lífinu.“

  • „Ég get gert næstum allt sem ég einbeiti mér að.“

  • „Oft veit ég ekki hvað ég á að gera þegar ég stend frammi fyrir vandamálum í lífinu.“

Aðrir þættir sem tengjast líðan og heilsu eru ekki marktækt frábrugðnir landsmeðaltali, þó að bæði upplifun af vellíðan hafi dvínað og einelti aukist, sérstaklega í 8. bekk.

Mötuneytið heldur áfram að fá afar jákvæða umsögn og sker skólinn sig þar jákvætt frá samanburðarskólum.

 

 

Skóla- og bekkjarandi

Nemendur samsama sig hópnum síður en nemendur í öðrum skólum, en samband þeirra við kennara er í takt við landsmeðaltal.

 

Agi í kennslustundum kemur sérstaklega vel út og er marktækt betri en í öðrum skólum, með áframhaldandi jákvæðri þróun. Virk þátttaka nemenda í kennslustundum er einnig góð og í landsmeðaltali. Tíðni leiðsagnarmats er yfir meðaltali.

Umræða

Það vekur áhyggjur hversu margir nemendur hafa litla trú á eigin getu, bæði í námi og þegar kemur að því að takast á við áskoranir í daglegu lífi. Sú upplifun að hafa litla stjórn á eigin lífi er einnig algengari en æskilegt er. Niðurstöðurnar eru samhljóða því sem sést hefur í Íslenskri æskulýðsrannsókn síðustu ár. 

Hægt er að skoða allar niðurstöðurnar hér.