Skólapúls - niðurstöður úr könnun foreldra

Annað hvert ár svara foreldrar úr Valsárskóla spurningum Skólapúlsins um skólastarfið. Skólapúls er könnun sem er framkvæmd í flestum grunnskólum á Íslandi og eru svör frá Valsárskóla borin saman við svör foreldra um skólastarf úr öðrum skólum eftir fjölda nemenda. Þannig fæst samanburður sem gefur okkur færi á að máta okkur við aðra skóla og þróa skólastarfið. 

Úrtak foreldra í skólasamfélaginu svaraði spurningum í febrúar 2023 og nú höfum við fengið niðurstöður. Niðurstöðurnar eru í heildina mjög jákvæðar og gefa okkur hvatningu til áframhaldandi vinnu og þróunar. Könnuninni er skipt í sex þætti. 

  1. Nám og kennsla

Ánægja foreldra með nám og kennslu í Valsárskóla er meiri en annars staðar og er munurinn tölfræðilega marktækur skólanum í hag og hefur aukist frá því síðasta könnun var lögð fyrir. Ánægja er með stjórnun skólans og er sú ánægja meiri en gengur og gerist. Foreldrar meta það sem svo að agi sé hæfilegur og námsefni hæfilega þungt. Það mat er langt yfir því sem foreldrar meta í öðrum skólum.  

  1. Velferð nemenda

Kaflinn um velferð nemenda kom í heildina vel út. Það hvernig skólinn kemur til móts við þarfir nemenda í skólanum kom sérstaklega vel út og foreldrar leggja gott mat á eineltisáætlun skólans. Báðir þættir koma það vel út að niðurstaðan er tölfræðilega marktæk, skólanum í hag. Aðrir þættir varðandi velferð nemenda eru allir yfir meðaltali nema líðan nemenda í kennslustundum. Svör foreldra í þeim þætti eru þess háttar að við í Valsárskóla erum lítilsháttar undir meðaltali á landsvísu. 

  1. Aðstaða og þjónusta

Í kaflanum um aðstöðu fær aðstaðan í Valsárskóla hátt mat og eru máltíðir í skólanum metnar framúrskarandi. Eins og sést á myndinni trjónum við nánast á toppnum varðandi máltíðir og ánægju foreldra með þær.  

  1. Foreldrasamstarf

Kaflinn um foreldrasamstarf kom vel út og er sérstaklega ánægjulegt að sjá að foreldrar telja sig hafa áhrif á ákvarðanir varðandi nemendur. Sú spurning kom vel út og telja foreldrar sig hafa meira um það að segja en þegar síðasta könnun var lögð fyrir. 

  1. Heimastuðningur

Samkvæmt svörum verja foreldrar í Valsárskóla mun minni tíma í heimanám en gengur og gerist t.d. í lestur. Foreldrar eru spurðir hvaða námsgráðu þeir eiga von á að barn þeirra ljúki og sýna svörin miklar væntingar til iðnnáms og litlar til háskólanáms. 

  1. Opin svör

Opin svör eru þannig að foreldrar geta skrifað athugasemdir um skólastarfið bæði jákvæðar og neikvæðar. Jákvæðar athugasemdir voru 13 og snúast flestar um jákvætt viðhorf starfsfólks, jákvæðan anda og gott viðmót. Neikvæðar athugasemdir voru 9, það er ekki samhljómur í þeim en þær verða að sjálfsögðu teknar til greina eins og hægt er.

Í heildina koma þeir þættir mjög vel út sem skipta okkur í skólanum miklu máli, það er ánægja með nám og kennslu, að komið sé til móts við þarfir nemenda, agi, samstarf við foreldra og stjórnun skólans. Við eru þakklát og glöð fyrir að fá þessi jákvæðu svör og þau eru sannarlega hvetjandi fyrir skólastarfið og skólasamfélagið. 

Hægt er að skoða allar niðurstöður hér.