Skólalok og útskrift

Nú fer að líða að skólalokum eftir þónokkuð sérstakan vetur. Skólaslitin verða næstkomandi fimmtudag, 4. júní klukkan 16.

Vegna aðstæðna verða þau frábrugðin því sem tíðkast hefur og við vonum að allir sýni því skilning. Nemendur mæta til umsjónarkennara í sínar stofur kl.16 og þar verður smá lokahátíð, afhending vitnisburðar og jafnvel farið yfir veturinn sem er að líða eða það sem framundan er. Við gerum ráð fyrir að stundin verði í um klukkustund. Seinna sama dag kl. 18, verður “síðasta kvöldmáltíðin” sem er kveðjuathöfn útskriftarnemenda, foreldra þeirra og starfsmanna Valsárskóla. Þau munu eiga saman notalega stund og snæða hátíðarmat að hætti Heiðu. Að þessu sinni verður þessi stund líka notuð til að útskrifa hópinn.

Ég vil nota tækifærið og láta ykkur vita að ég kem til starfa þriðjudaginn 2. júní. Það er mjög ánægjulegt að ná að hitta nemendur áður en þeir fara út í sumarið og geta hafið vinnu við undirbúning næsta skólaárs. Undanfarnar vikur hef ég verið í sambandi við starfsfólk og kennara í Valsárskóla og hefur það vakið ánægju og aðdáun hvað allt starfsfólk hefur tekist á við samkomubann af fagmennsku og dugnaði. Ég vil sérstaklega hrósa Svölu fyrir vel unnin störf þar sem hún hefur verið staðgengill skólastjóra ásamt fullri kennslu á þessum krefjandi tímum.

Ég mun verða í vinnu í skólanum meira og minna allan júní og svo aftur frá 10. ágúst og fyrr eftir þörfum. Ég hvet ykkur foreldra til að heyra í mér, senda mér póst eða koma við ef þið viljið ræða eitthvað.

Með sumarkveðju,
María Aðalsteinsdóttir
maria@svalbardsstrond.is