Í vetur verða börnin okkar 38+ á þremur aldursskiptum deildum; í aldursröð eru það ungbarnadeildin Hreiður, miðdeildin Kvistur og elstu barna deildin Rjóður. Við erum aldeilis ánægð með að við erum búin að festa okkur í sessi sem ört stækkandi leikskóli og er það ánægjulegt merki um vaxandi byggð (og frjósemi) í Svalbarðsstrandarhreppi!
Ýmsar breytingar hafa orðið hjá okkur í Álfaborg síðan í vor. Fleiri börn kalla á fleiri starfsmenn því við leggjum mikið uppúr einstsklingbundinni félagsfærni barnanna og að þau nái að finna sig í hópi jafninga, ásamt snemmtækri íhlutun, líkt og lögð er rík áhersla á í skólastefnu sveitarfélagsins. Það er því rétt að rifja upp og fara yfir barnahópinn og mannauðinn sem við búum yfir.
Í Rjóðri, elstu deildinni, eru 13 börn á aldrinum 4ra (Spóar) og 5 ára (Krummar) og er Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir (Sigga) iðjuþjálfi deildarstjóri. Með henni er Auður Hafþórsdóttir skólaliði sem sér um Krummastarfið (elstu börnin) og er hún ásamt þeim í Valsárskóla, með Guðfinnu Steingrímsdóttur kennara í 1. bekk, alla þriðjudaga kl 8:30-14 við fjölbreytta leiki og nám; ma er forskóli tónlistarskóla og íþróttatímar á dagskrá innan þessa sama tímaramma. Auk þessa borða Krummarnir morgun- og hádegisverð í Valsárskóla þennan dag og finnst þeim þetta auðvitað heilmikið ævintýri. Sigga (Sigríður Ingibjörg) og Sigga (Sigríður Guðmundsdóttir) sjá um útiskólann með Kummum og Spóum á miðvikudögum ásamt Guðfinnu. Kamila Sylwia Ciolko-Borkowska er kennari í Rjóðri, auk þess að annast stuðning við pólsku börnin okkar en það er afar mikilvægt að tvítyngd börn fái sérstaka aðstoð snemma.
Á miðdeildinni Kvisti eru 15 börn, 2ja ára (Þrestir) og 3ja ára börnin (Lóur) börnin. Ásdís Bergvinsdóttir kennari er deildarstjóri á Kvisti. Með henni eru Sigurbjörg Ósk Jónsdóttir (Sibba) kennari og Þórdís Eva Þórólfsdóttir (Dísa) sérkennslustjóri en Dísa hefur yfirumsjón með sékennslu fyrir allt húsið, auk þess sem hún er tengiliður við foreldra og skólaþjónustu á Akureyri. Sigríður Guðmundsdóttir (Sigga) er einnig á Kvisti, ásamt Öllu (Aðalheiður Stefánsdóttir) en þær skipta með sér einni stöðu. Elísabet Sif Haraldsdóttir (Essý) danskennari verður hjá okkur á Kvisti amk fram á haustið þar til ljóst er hver verður ráðinn í nýju stöðuna okkar, sem við erum að auglýsa núna, vonandi sem allra fyrst.
Á ungbarnadeildinni Hreiðri verða 9-10 börn 1-2ja ára (Maríuerlur). Þar ráða ríkjum þær Hjördís Valtýsdóttir, Hanna Dóra Ingadóttir og Anna Nidia G Tulinius, og er Hjördís starfandi deildarstjóri í Hreiðri. Nú er aðlögun nýrra barna að mestu lokið hjá þeim og því stðugleiki og ró að færast yfir mannskapinn, ekki það að á Hreiðri ríkir alltaf mikill stöðugleiki og þær stöllur leggja grunn að farsælli skólagöngu barnanna ykkar. Aldrei er hægt að árétta nægilega vel hve þetta tímabil í lífi barnanna er mikilvægt fyrir örugg tengs og félagslega aðlögun - ómetanlegt að hafa þær stöllur sem kjölfestu á ungbarnadeildinni í leikskólanum.
Og svo að lokum:
Kynningarfundur á haust- og vetrarstarfinu fyrir foreldra í Álfaborg verður mánudag 19. september kl. 19:30-21:00 í Álfaborg.
Fundarboð með dagskrá verður sent út í næstu viku.
Við væntum þess að sjá ykkur öll þar til að kynna ykkur starfið framundan og rabba saman og við kennara barnanna ykkar.
Fyrir hönd okkar allra í Álfaborg, Margrét Jensína skólastjóri Álfaborgar.
Álfaborg Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5505 Netfang: alfaborg@svalbardsstrond.is |
Valsárskóli Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5510 Netfang: valsarskoli@svalbardsstrond.is |
Tónlistarskóli Eyjafjarðar
Sími 464 8110 |
Vinaborg - frístund Sími 832 4530 Skólabíll Sími: 858 0777
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda skráist hjá skólanum eða á mentor.is.