Góðir gestir í Valsárskóla

Föstudaginn 26. nóvember fengum við góða gesti í Valsárskóla. Þá kom til okkar íþrótta- og tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson. Már var ekki einn í för því með honum var leiðsöguhundurinn Max, faðir Más og bróðir. Már ræddi fyrst við nemendur í 1. - 4. bekk og sýndi þeim myndbrot af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur undanfarið. Nemendur fengu að spyrja spurninga sem Már svaraði skilmerkilega. Næst ræddi Már við nemendur í 5. - 10. bekk og sýndi þeim m.a. myndbrot frá heimsmeistaramóti í sundi, Ólympíuleikunum í Tókýó, tónlist sem hann hefur samið og flutt og viðburði með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. Í lokin svaraði hann mörgum spurningum og fengu nemendur og starfsfólk að taka myndir.

Við erum sannarlega glöð að hafa fengið Má í heimsókn til okkar í Valsárskóla þar sem viðhorf hans, þrautseigja og metnaður er sannarlega góð skilaboð til okkar allra.

Að lokum snæddu þeir feðgar með okkur og var gaman að heyra hvað þeir voru hrifnir af fámennum skólum og því andrúmslofti sem þeir fundu hér og við viljum halda á lofti.