Fréttakorn Álfaborgar/Valsárskóla
Janúar 2020
Kæru foreldrar, við óskum ykkur gleði og friðar á nýju ári og þökkum kærlega fyrir gott samstarf.
Þá erum við að renna inn í árið 2020, alltaf jafn spennandi að byrja nýtt ár með nýjum fyrirheitum.
Desember var skemmtilegur að venju og nóg að gera. Við viljum þakka foreldrafélögum Álfaborgar og Valsárskóla fyrir þeirra framlag í jólahaldinu og einnig færum við þakkir þeim foreldrum sem komu á jólaballið í Álfaborg. Ég ætlaði að vera með á þeirri skemmtun í forföllum deildarstjóra en þurfti að fara á slysadeildina og var þar á meðan starfsmenn Álfaborgar héldu jólaballið einir og óstuddir.
Við viljum minna á að allir krakkar í Álfaborg/Valsárskóla fara út að leika sér á hverjum degi. Þau þurfa því alltaf að hafa með sér föt sem hentar veðri. Foreldra barna í Álfaborg þurfa líka að passa að það séu alltaf aukaföt í körfunum á leikskólanum og mjög gott ef yngri krakkarnir í Valsárskóla eru líka með aukaföt. Eldri krakkarnir (8.-10. Bekk) gleyma líka allt of oft íþróttafötum og viljum við biðja foreldra að passa það.
Í Valsárskóla er árshátíð 23. Janúar klukkan 17:00. Elstu nemendur skólans eru með kaffisölu ásamt foreldrum sínum. Daginn áður koma nemendur Álfaborgar á forsýningu og sjá öll skemmtiatriðin og æfa sig í að vera góðir áhorfendur.
Bóndadagurinn er 24. janúar og bjóðum við í Álfaborg/Valsárskóla feðrum, öfum, frændum og öðrum skemmtilegum körlum að koma í morgunmat til okkar þennan dag. Í Álfaborg byrjum við 8:15 en í Valsárskóla 8:45. Við höfum morgunmatinn í kröftugra lagi þennan morguninn með hafragraut og þorramat. Krummar og 9.-10. Bekkur sjá svo um smá skemmtiatriði þennan dag.
Anna Breiðfjörð kemur til okkar í janúar að kenna gömlu dansana. Allir nemendur grunnskólans fara á dansnámskeið og í lokin er danssýning.
Tónlistardeildin okkar hefst 6. Janúar og ennþá er laust pláss fyrir þá sem vilja byrja að læra á nýtt hljóðfæri, þjálfa söng eða halda áfram þar sem frá var horfið.
Annars bara bestu nýárskveðjur til ykkar allra og vonandi hafið þið átt yndisleg jól með þeim sem ykkur þykir vænt um.
Inga Sigrún Atladóttir skólastjóri Álfaborgar/Valsárskóla
Þeir sem flytja sólskinið til annarra, geta ekki komist hjá því að það skíni á þá sjálfa
Álfaborg Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5505 Netfang: alfaborg@svalbardsstrond.is |
Valsárskóli Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5510 Netfang: valsarskoli@svalbardsstrond.is |
Tónlistarskóli Eyjafjarðar
Sími 464 8110 |
Vinaborg - frístund Sími 832 4530 Skólabíll Sími: 858 0777
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda skráist hjá skólanum eða á mentor.is.