Bréf til foreldra í Álfaborg 3. janúar 2022


Ágætu foreldrar, 
gleðilegt ár og takk fyrir gjöfult samstarf á liðnu ári. 

Fyrst góðar fréttir - þar sem engin Covid-smit tengd starfsmönnum né börnum í Álfaborg hafa greinst undanfarið, verður skólastarfið í Álfaborg með eðlilegum hætti þessa vikuna, amk það sem séð verður af smittölum á svæðinu núna en við virðumst vera nokkuð á eftir höfuðborgarsvæðinu í þróun mála. 

Fullvissa er samt fyrir því að við munum fá okkar skerf af sóttkví og einangrun enda getur staðan breyst með mjög skömmum fyrirvara og munum við leitast við að halda ykkur eins vel upplýstum og kostur er. Til að það megi verða vil ég biðja ykkur um að láta skólastjóra vita ef einhver á heimilinu lendir í einangrun svo hægt sé að hafa yfirsýn um ástandið hverju sinni.  

Staðan á faraldrinum hér og í nærliggjandi sveitarfélögum er metin á hverjum morgni á stöðufundum viðbragðsteymis skólanna og hreppsins. Við munum gera allt til að halda skólunum gangandi en vissulega getum við staðið frammi fyrir því að þurfa að skerða skólastarfið að einhverju leyti. 

Við störfum nú sem áður eftir sóttvarnareglugerð sem gildir til 12. janúar. Foreldrum er nú aðeins heimilt að koma inní forstofur (ekki inn á deildir) og minnum við á grímuskylduna og sprittið sem aldrei fyrr. Starfsmenn munu bera grímur nú næstu daga svo gott er að undirbúa börnin fyrir það – á tímabili bárum við grímur við störf og voru þau ótrúlega fljót að venjast því. 

Hvorki starfsmenn né börn mega koma í skólann ef kvefeinkenni eru til staðar. Smá hor í nös er þó í lagi svo fremi að ekki séu fleiri einkenni til staðar.

Þeir foreldrar sem kjósa að halda börnum sínum heima í þessu ástandi og tilkynna skólastjóra um það fyrirfram, býðst niðurfelling á gjöldum samsvarandi tímabil. Ef við þurfum að senda börn heim eða ef loka þarf deild (eða jafnvel skólanum) eru gjöld ávallt felld niður, líkt og gert var í 1. bylgju faraldursins. Við bindum vonir við að komið sé að lokakaflanum (kollhríðinni) í þessu fári og nú snýst þetta um að hafa úthald og að hjálpast að. 

Við sendum ykkur baráttukveðjur og sjáumst í fyrramálið hress og kát. 

Starfsfólk Álfaborgar