Bókmenntahátíð barnanna verður haldin í félagsheimilinu Laugarborg í Hrafnagilshverfi fimmtudaginn 4. desember 2025. Um er að ræða samvinnuverkefni fjögurra skóla á Norðurlandi; Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, Valsárskóla á Svalbarðseyri, Reykjahlíðarskóla og Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit.
Nemendur í 5. – 8. bekk hafa skrifað bækur, hannað bókakápur og myndskreytt bækurnar. Þegar bók er gefin út þarf að sjálfsögðu að stofna bókaforlag fyrir útgáfuna og útbúa merki forlagsins og það hefur hver skóli gert.
Viðburðurinn fer fram milli kl. 16:00 og 18:00. Dagskrá hefst á upplestrum, umræðum og skemmtiatriði. Að dagskrá lokinni verður hægt að glugga í og kaupa bækur, spjalla við höfunda, fá áritanir og kynna sér verkefnið betur. Einnig verður kaffihús á staðnum þar sem hægt verður að kaupa sér vöfflur og drykki. Tekið verður við reiðufé eða millifærslum á staðnum.
Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði Rannís en rithöfundarnir Berglind Erna Tryggvadóttir og Þórunn Rakel Gylfadóttir höfðu yfirumsjón með verkefninu. Þær stöllur hafa bæði verið nemendum og kennurum til halds og trausts við vinnslu bókanna.