Foreldrar í Valsárskóla svara könnun Skólapúls annað hvert ár og nú höfum við fengið niðurstöður fyrir árið í ár. Í Skólapúlsi eru svör foreldra í Valsárskóla borin saman við svör annara foreldra í grunnskólum á Íslandi og því fáum við samanburð sem er okkur mikilvægur í öllu mati á skólastarfi.
Niðurstöðurnar í mars 2025 sýna að flest er metið líkt í Valsárskóla og á landinu. Hægt er að skoða allar niðurstöðurnar á heimasíðu skólans en hér eru dregin fram nokkur atriði sem vekja athygli. Hægt er að skoða allar niðurstöðurnar hér.
Svör foreldra í Valsárskóla eru sýnd með dökkum tígli, meðaltalið á Íslandi er rauð lína og aðrir grunnskólar eru merktir með ljósgráum tíglum.
Nám og kennsla
Foreldrar í Valsárskóla eru ánægðir með nám og kennslu í skólanum og eru svör þeirra tölfræðilega marktækt hærri en almennt, eins og sést á myndinni. Foreldrar á Íslandi eru almennt ánægðir með stjórnun grunnskóla og er Valsárskóli fyrir ofan meðaltal samkvæmt svörum foreldra.


Velferð nemenda
Foreldrar sem segja barnið sitt hafa orðið fyrir einelti eru spurðir hvernig þeim fannst tekið á eineltinu af hálfu skólans. Hér að neðan má sjá mynd sem sýnir hlutfall foreldra sem telja að tekið hafi verið frekar vel eða mjög vel á því og þar kemur vinna skólans mjög vel út samanborið við aðra.

Aðstaða og þjónusta
Foreldrar svöruðu spurningum um frístund (Vinaborg) og eru svör þeirra tölfræðilega marktækt yfir meðaltali er varðar ánægju.

Foreldrasamstarf
Foreldrar svöruðu spurningum um foreldrasamstarf og telja sig hafa mikil áhrif á ákvarðanir varðandi börn sín í skólanum. Foreldrar telja ekki mikilvægt að gera námsáætlanir með nemendum. Niðurstöður þessara spurninga eru báðar tölfræðilega marktækt frábrugðnar svörum foreldra í öðrum skólum.


Heimastuðningur
Foreldrar í Valsárskóla nota minni tíma en aðrir við að aðstoða við heimanám og nemendur leita síður eftir þátttöku þeirra í náminu samkvæmt svörunum. Munurinn er tölfræðilega marktækur í báðum matsþáttum.
Væntingar foreldra í Valsárskóla eru meiri til iðnnáms og minni til háskólanáms en almennt gerist á landinu.



Við hvetjum alla til að skoða niðurstöðurnar í heild sinni og hafa þær verið kynntar á fundi skólanefndar og verða dregnar saman í vorskýrslu fyrir skólaárið 2025-2026.