Nú styttist í skólaárinu 2023-2024 í Valsárskóla. Miðvikudagurinn verður síðasti skóladagurinn samkvæmt stundaskrá og svo taka við vordagar, vorhátíð, skólaslit og sumarfrí hjá nemendum. Hér er stutt yfirlit yfir dagana svo allir séu undirbúnir í útivist og klæddir fyrir það sem við tökum okkur fyrir hendur.
Fimmtudag, föstudag og mánudag er skólinn til kl. 13:00 og nemendur fara heim eða í Vinaborg. Skólabíll fer 13:10 frá skólanum.
Fimmtudaginn 30. maí verða umsjónahópar saman og taka sér ýmis verkefni fyrir hendur. Nemendur í 5. - 8. bekk fara í ferð í Hrísey, nemendur í 1. - 4. bekk fara í heimsókn á Flugsafnið á Akureyri og í útivist þar í kring. Nemendur í 9. - 10. bekk fara í starfskynningu á fjölbreytta vinnustaði. Umsjónarkennarar gefa nánari upplýsingar um fyrirkomulag.
Föstudaginn 31. júní verðum við öll í Fnjóskadal og gerum margt skemmtilegt. Nemendur hafa nú þegar valið sér viðfangsefni. Einn hópur mun ganga á Hálshnúk, annar mun hjóla frá Illugastöðum að austan í gegnum skóginn í Vaglaskóg. Þriðji hópurinn mun ganga frá Skógum yfir í Vaglaskóg. Allir hóparnir hittast svo í skóginum þar sem farið verður í ,,gamla” leiki og borðað nesti sem við tökum með okkur úr skólanum.
Mánudagur 3. júní er vorhátíð á skólalóð með margskonar leikjastöðvum, hefðbundnum kappleikjum s.s. reiptogi, eggjakast og fleiru. Fastur liður í þeirri dagskrá er fótbolti milli námshópa og starfsfólks sem alltaf er æsispennandi. Við endum svo vorhátíðina á árlegum vatnsslag sem enginn kemst þurr frá. Í vatnsslagnum er hentugast að vera með litla dalla eða fötur. Tekið skal fram að ekki er í boði að vera með einhvers konar vopn í slagnum s.s. vatnsbyssur eða einhverskonar dælur. Vatnsblöðrur eru líka á bannlista. Það skal samt tekið fram að ef einhver vill ekki taka þátt í vatnsslag er ákveðið ,,þurrsvæði” þar sem hægt er að vera á. Gott er að hafa með sér handklæði og auka föt þennan dag.
Mánudagur 3. júní kl. 16:15 eru skólaslit á sal. Þangað eru allir foreldrar og aðstandendur nemenda velkomnir. Þar verður öllum nemendum afhent námsmat, nemendur í 10. bekk útskrifaðir og skólanum slitið. Að dagskrá lokinni er ferðasjóður með veitingasölu í matsalnum. Ekki er skólaakstur á skólaslit.