Iðjuþjálfi og tengiliður farsældar í Álfaborg og Valsárskóla

Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir var ráðin sem iðjuþjálfi og tengiliður farsældar í bæði leik- og grunnskóla, Álfaborg og Valsárskóla. Sigríður tók til starfa 1. september og hefur komið sér vel fyrir bæði í Álfaborg og Valsárskóla. Hún er nú þegar byrjuð að vinna með börnunum sem iðjuþjálfi og erum við í báðum skólum mjög ánægð með að fá fleira fagfólk í skólastarfið.  

Hlutverk iðjuþjálfa í leik- og grunnskóla:
Iðjuþjálfi notar heildræna nálgun í starfi með börnum og er sérfræðingur í iðju. Iðjuþjálfi kemur m.a. að hreyfigetu, sjálfstjórn, fín- og grófhreyfingum og skynúrvinnslu barna. Iðjuþjálfi sinnir mati og íhlutun nemenda og veitir ráðgjöf til foreldra, kennara og stjórnenda. Iðjuþjálfi vinnur alltaf í samvinnu við barn, foreldra og aðra fagaðila sem koma að málefnum barnsins.

Hlutverk tengiliðar farsældar í leik- og grunnskóla:
Öll börn og foreldrar eiga rétt á aðgengi að tengilið í nærumhverfi sínu en ekki öll börn þurfa samþættingu á þjónustu.
Til að átta sig á hlutverkum tengiliðs þarf að skilgreina og skilja hvað farsæld er.

Farsæld er skilgreind með lögum sem:
Aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.

1. stig farsældar í leik- og grunnskóla:
Stuðningur við farsæld barns
Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum
Snemmtækur stuðningur er veittur og fylgt á markvissan hátt.

Hlutverk tengiliðar:

  • að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.
  • að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
  • að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
  • að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.
  • að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
  • að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra.
  • að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.


Tengiliður farsældar fylgir eftir stuðningsáætlun sem tengiliður, foreldrar og skólaumhverfið vinna saman til að styðja við og tryggja farsæld barns.

Nú þegar samtalsdagur nálgast, viljum við biðja ykkur um að láta umsjónarkennara vita ef óskað er eftir viðtali við Sigríði Ingibjörgu eða senda henni póst á sigriduringibjorg@svalbardsstrond.is ef þið hafið áhuga á stuðningi við farsæld og hugsanlega tengilið fyrir ykkar barn.