Nú liggja niðurstöður Skólapúls fyrir sem nemendur svöruðu í október. Skólapúls er könnun sem nemendur í 6. - 10. bekk svara árlega um virkni í skólanum, líðan og heilsu og skóla- og bekkjaranda. Það sem er gott við könnunina er að svör nemenda í Valsárskóla eru borin saman við svör nemenda í sambærilegum skólum á Íslandi. Auk þess eru svör nemenda borin saman milli ára. Með þessu móti koma fram niðurstöður sem eru okkur mikils virði til að meta skólastarfið á trúverðugan hátt.
Niðurstöðurnar eru notaðar í innra mati og eru allar niðurstöður sýnilega á heimasíðu skólans.
Í stuttu máli kemur könnuninn vel út og eru svör nemenda í Valsárskóla áþekk svörum nemenda í grunnskólum á Íslandi.
Virkni í skólanum
Allir þættir um virkni í skólanum eru í samræmi við svör annarra nemenda á Íslandi. Nemendur í Valsárskóla sýna þó meiri áhuga á stærðfræði og náttúrufræði en aðrir nemendur. Ánægja af lestri er lítillega minni. Einn þáttur kemur neikvætt út og er það trú nemenda á eigin námsgetu. Þannig hafa nemendur í Valsárskóla síður trú á sér í námi. Trú á eigin námsgetu vísa til trúar nemandans á því að hann geti klárað tiltekið námstengt viðfangsefni s.s. náð prófum, sýnt tiltekna hæfni eða uppfyllt önnur námsmarkmið.
Líðan og heilsa
Allir þættir um líðan og heilsu eru í samræmi við svör annarra nemenda á Íslandi. Sjálfsálit nemenda er lítillega minna en í öðrum skólum en vellíðan er meiri og stjórn á eigin lífi er meiri. Birtingarmyndir eineltis hafa minnkað í skólanum en eru þó örlítið meiri en annars staðar. Tíðni eineltis er minni í Valsárskóla en annars staðar og hefur minnkað frá því síðasta könnun var lögð fyrir. Samkvæmt svörum nemenda hefur hreyfing aukist og er mataræði þeirra hollara en á síðasta ári.
Skóla- og bekkjarandi
Skóla- og bekkjarandi kemur vel út og er samband nemenda við kennara betra en annars staðar og agi í tímum meiri. Einn þáttur kemur sérstaklega vel út en það er virkni nemenda í kennslustundum. Sá munur eru tölfræðilega marktækir Valsárskóla í vil. Þannig svara nemendur okkar því að þeir fái tækifæri til að útskýra eigin hugmyndir, að þeir fái tækifæri til að koma eigin skoðunum á framfæri um ákveðin málefni og að þeir ræða saman um námsefnið. Samsömun við aðra nemendur er sá sami og annars staðar á Íslandi. Tíðni leiðsagnarmats er örlítið minni en annars staðar.
Opnar spurningar
Við opnum spurningum kom fram að nemendum finnst jákvætt hvað skólinn er fámennur og hvað þeir fá mikla og góða kennslu og leiðbeiningar við nám. Það sem nemendum fannst neikvætt var að sumir nemendur takast á við mótlæti með ofbeldi.
Við hvetjum ykkur til að skoða niðurstöðurnar í heild en þær eru aðgengilegar hér:
https://skolar.svalbardsstrond.is/static/files/skolapuls-svor-nemenda-desember-2021.pdf
Álfaborg Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5505 Netfang: alfaborg@svalbardsstrond.is |
Valsárskóli Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5510 Netfang: valsarskoli@svalbardsstrond.is |
Tónlistarskóli Eyjafjarðar
Sími 464 8110 |
Vinaborg - frístund Sími 832 4530 Skólabíll Sími: 858 0777
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda skráist hjá skólanum eða á mentor.is.