Bréf til foreldra í Valsárskóla 9. apríl 2021

Skólastarfið gengur vel og gildir núverandi reglugerð um sóttvarnir í skólum til 15. apríl.

Árshátíð
Vegna samkomutakmarkanir sjáum við ekki fyrir okkur að halda hefðbundna árshátið eins og til stóð. Við munum þó hefja æfingar í næstu viku og vinna að atriðum næstu þrjár vikurnar hluta úr degi. Við höfum hefðbundna kennslu frá 8:05 - 10:15, svo taka við æfingar til 13:00. Eldri nemendur enda svo daginn í hefðbundinni kennslu. Líklegast er að við tökum upp atriðin og senda ykkur myndbönd. Nemendur munu að að öllum líkindum selja aðgang að myndböndunum og mun hagnaður fara í ferðasjóð nemenda, líkt og aðgangseyrir að árshátíðum undanfarin ár.

Íþróttir og sund
Það stóð til að hefja sundkennslu í næstu viku en íþróttakennarinn er í veikindaleyfi. Vegna þess þurfum við að fresta því að hefja sundkennslu eitthvað fram á vorið. Við höfum fengið Kristján Árnason til að vera með íþróttir næstu tvær vikurnar. Kristján er með sveinspróf í húsasmíði og er að klára stúdentspróf í vor. Íþróttakennslan verður því áfram næstu tvær vikurnar. Við látum ykkur vita  með fyrirvara hvenær sundkennslan hefst .

Ytra mat
Menntamálastofnun var að skila til okkar skýrslu um ytra mat. Skýrslan er opinber og fer á heimasíðu skólans í næstu viku. Hún verður kynnt í skólanefnd á mánudaginn og í sveitarstjórn í framhaldinu. Í viðhengi er samantekt frá matsaðilum með helstu niðurstöðum. Í framhaldinu vinnum við umbótaáætlun sem verður borin undir skólaráð og skólanefnd. Við hvetjum ykkur til að lesa bréfið. Eitt af því sem við höfum hugsað okkur að gera og kemur einnig fram í skýrslunni er að vera duglegri að óska eftir ykkar áliti og þátttöku í umræðu um skólamál, stefnur og áætlanir í framhaldinu.