Bréf til foreldra í Valsárskóla 8. mars 2021

Í næstu viku er starfsdagur mánudaginn 15. mars og samtalsdagur þriðjudaginn 16. mars. Á þriðjudag geta foreldrar valið um símtal, myndsamtal eða að koma í skólann með ákveðinni varúð. Við reiknum með að nemendur séu hluti af þessu samtali en það er auðvitað í höndum foreldra hvernig þeir haga því. Einfaldast er að bóka samtal á Mentor og skrá í athugasemd hvernig samtal óskað er eftir. Ef tímar, sem eru í  boði, hentar ekki er um að gera að hafa samband og við finnum hentugri tíma. 

Það hefur verið margt um að vera í skólanum undanfarið. Safnasafnsdagurinn var vel heppnaður og eru verk nemenda komin upp í Safnasafnið. Verkin verða hluta af vor- og sumar sýningu safnsins. 

Skíðadagur í síðustu viku var frábær og vorum við einstaklega heppin með veður. 

Í síðustu viku var skólastarfið tekið út í ytra mati á vegum Menntamálastofnunar. Ytra mat er framkvæmt reglulega í öllum grunnskólum á landinu og var það síðast gert árið 2012 í Valsárskóla. Allir starfsmenn fóru í samtöl, margir nemendur og einnig nokkrir foreldrar. Allar áætlanir, námskrá og fleira er tekið út og fylgst með allmörgum kennslustundum þessa tvo daga. Eftir um fjórar vikur fáum við skýrslu um skólastarfið sem verður sett á heimasíðu skólans. Í kjölfarið vinnum við umbótaáætlun þar sem markmiðið er að bæta það sem betur má fara og leggja áherslu á það sem vel er gert. Umbótaáætlun verður borin undir foreldrasamfélagið t.d. með foreldraþingi eða með rýnihópum foreldra. Við þökkum þeim foreldrum sem tóku þátt í rýnihópum í síðustu viku og hlökkum til að geta boðið foreldra til  virkar þátttöku í skólastarfinu þegar aðgengi að skólanum verður eðlilegt aftur.

Innra mat er hluti að skólastarfinu og í því samhengi tóku flestir foreldra þátt í könnun sem heitir Skólapúls. Niðurstöður úr þeirri könnun komu á fimmtudaginn þar sem svör foreldra í Valsárskóla eru borin saman við svör foreldra í öðrum skólum á landinu. Niðurstöðurnar koma í lang flestum þáttum mjög vel út og erum við stolt og ánægð með það. Við munum vinna úr gögnunum og setja allar niðurstöður á heimasíðu skólans á næstu vikum. 

Með kveðju úr Valsárskóla