Bréf til foreldra í Valsárskóla 25. október 2021

Við í Valsárskóla höfum stofnað teymi um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Teymið er stofnað samkvæmt nýlegum lögum og er liður í áætlun stjórnvalda til ársins 2025 til að koma á skipulögðum forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Markmiðið er að forvarnirnar verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og eigi sér einnig stað á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi. 

Teymi Valsárskóla
Í teymi Valsárskóla eru Gísli Arnarson umsjónarmaður Vinaborgar, Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir náms- og starfsráðgjafi, María Aðalsteinsdóttir skólastjóri, Svala Einarsdóttir staðgengill skólastjóra og Tinna Dagbjartsdóttir umsjónarmaður félagsmiðstöðvar. Teymið hefur nú þegar fundað tvisvar og mun að jafnaði eiga samráð a.m.k. sex sinnum á hverju skólaári.

Heimilin
Við erum með margt á döfinni en eitt af fyrstu verkefnunum er að vekja athygli ykkar foreldra á Kveik þætti sem var sýndur á RÚV 19. október 2021. Þar er umfjöllun um hvernig börn og unglingar, oftast stúlkur, eru fengnar til að senda myndir af sér til óprúttinna aðila. Við hvetjum alla foreldra til að taka umræðu með sínum börnum og fylgjast vel með hvað börnin gera á samfélagsmiðlum. Við sem höfum starfað í grunnskólum þekkjum því miður til slíkra mála.

Skólinn
Umsjónarkennar nemenda í 5. - 10. bekk munu sýna nemendum Kveik þáttinn á næstu vikum og taka umræðu með nemendum. Umsjónarkennarar nemenda í 1. - 4. bekk munu vinna með efni og bæklinginn ,,Spurðu áður en þú sendir”  og taka umræðu með nemendum. 
Við höfum fengið sent yfirlit yfir efni sem hentar í vinnu með nemendum og mun teymið skipuleggja hvernig efnið verður notað markvisst í skólanum í öllum árgöngum. 

Starfsfólk
Á starfsdegi í janúar 2021 fékk allt starfsfólk fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Við fengum einnig fræðslu frá barnavernd á Akureyri á haustdögum 2020 verklag í barnaverndarmálum. Á næstunni munu allir starfsmenn taka rafrænt námskeið sem er verið að búa til fyrir alla sem starfa með börnum.