Bréf til foreldra í Valsárskóla 14. desember 2020

14. - 17. desember

Við munum klára árið 2020 í Valsárskóla í sóttvarnarhólfum. Nemendur verða, líkt og áður, í þremur hólfum og starfsfólk sömuleiðis. Skólastarfið verður frá 8.05 - 13:00 mánudag til fimmtudags og verður jólaþema næstum allsráðandi. Venja hefur verið að hafa pakkarugl á litlu jólum og er síðasti skiladagur á pökkum fimmtudaginn 17. desember. Það er um að gera að nota hugmyndaflugið og má gjöfin sem nemendur leggja í púkkið ekki kosta meira en 1000 kr.   

Föstudagurinn 18. desember

Föstudagurinn verður frábrugðinn þar sem skóla lýkur kl: 12:00 og nemendur fara heim. Nemendur mæta svo aftur á litlu jól sem hefjast kl: 17:00 og standa til 19:30. Eftir það fara nemendur í jólafrí.

Litlu jól - 17:00-19:30

Litlu jólin verða með öðru sniði eins og svo margt á þessu ári og verður hátíðamatur, dans og stofujól í þremur hólfum. Þannig byrja nemendur og starfsfólk í gula hólfinu að borða, dansa svo og enda á stofujólum á meðan rauða hólfið byrjar í stofu o.s.frv. Við leggjum okkur fram við að hafa allt hátíðlegt og skemmtilegt þó að við getum ekki verið öll saman. Skólabíll mun keyra nemendur heim kl. 12:00, sækja þá fyrir 17:00 og skila þeim eftir 19:30. Gott væri að frétta af því ef þið viljið ekki nota skólabílinn þennan seinnipart og kvöld, annars reiknum við með nemendum sem vanalega nota bílinn. 

Vinaborg

Nemendur sem eru skráðir í Vinaborg geta verið frá 12:00 á föstudaginn og svo eru nokkrir nemendur skráðir í Vinaborg 21. og 22. desember. Vinaborg verður lokuð milli jóla og nýjárs þar sem engin börn voru skráð. Nokkrir verða í Vinaborg á starfsdegi Valsárskóla mánudaginn 4. janúar.

Nýtt ár

Starfsfólk Valsárskóla mætir til vinnu á nýju ári mánudaginn 4. janúar. Nám og kennsla hefst þriðjudaginn 5. janúar og má reikna með að við hefjum nýtt ár í hólfum. Það gæti þó komið ný reglugerð fyrir áramót þar sem yfirvöld gáfu út almenna reglugerð til 12. janúar en reglugerð um skólastarf gildir til 31. desember. Ef eitthvað breytist látum við ykkur vita með tölvupósti mándaginn 4. janúar.

Helgileikur

Nemendur og starfsfólk í gula hólfinu hafa æft hefiðbundinn helgileik og verður hann tekinn upp í kirkjunni í vikunni. Upptakan verður sett á heimasíðu skólans og Facebook síðu skólans þannig að allir geti séð.

Tónlistarskóli

Því miður var ekki hægt að hafa árlega jólatónleika fyrir foreldra. Tónlistarkennarar eru að taka upp flutning nemenda og munu senda foreldrum þeirra upptökur. Vonandi styttist í að hægt sé að halda samspil og tónleika auk þess sem nemendur í tónlistarskólanum taka þátt í árshátíð.

Við viljum vekja athygli á að nú er hægt að sækja um að hefja tónlistarnám eftir áramót. Við hvetjum ykkur til að hafa samband við Tiiu fyrir áramót á netfangið tiiu.laur@svalbardsstrond.is og/eða á heimasíðu skólans. Umsókn um nám í tónlistardeild | Skólar Svalbarðsstrandahrepp (svalbardsstrond.is)
Hægt er að læra söng, á píanó, á trommur, gítar, bassa, þverflautu og fleiri blásturshljóðfæri. 

Árshátíð frestað

Við höfum ákveðið að fresta árshátíð Valsárskóla um óákveðinn tíma þar sem okkur finnst ekki ráðlegt að æfa atriði sem við vitum ekki hvenær við getum sýnt. Við viljum frekar geta haft hefðbundna árshátíð t.d. fyrir páska eða fljótlega eftir páska þegar líklega verður óhætt að safna fólki saman. Þið fáið fréttir af því þegar hægt verður að skipuleggja slík hátíðarhöld. 

Við í Valsárskóla viljum þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf á árinu um leið og við óskum ykkur gleðilegra jóla og gleðilegs árs.

Starfsfólk Valsárskóla