Kynningarfundur fyrir foreldra verður fimmtudag 23. september kl. 20:00. .
Í vetur verða börnin okkar 35. Við erum að festa okkur í sessi sem leikskóli tvö en síðastliðin áramót fór fjöldi barna yfir 34 en það hefur ekki gerst fyrr og er ánægjulegt merki um vaxandi byggð (og frjósemi) í Svlbarðsstrandarhreppi!
Ýmsar breytingar hafa orðið hjá okkur í Álfaborg síðan í vor og rétt að rifja upp og fara yfir mannskapinn í stuttu máli.
Á Lundi, eldri deildinni, eru 27 börn á aldrinum 2ja-5 ára – þar af eru 15 börn 3ja-5 ára í Rjóðri og 12 börn 2ja-3ja ára á Kvisti. Auk þess að vera staðgengill skólastjóri er Hanna deildarstjóri á Lundi og Hjördís fer með sama hlutverk á Hreiðri. Íris er heimastofustjóri á Kvisti. Starfsmenn skiptast þannig á heimastofur í vetur: Auður, Hanna og Sigga eru í Rjóðri. Íris, Dísa, Kamila og Svetlana eru á Kvisti. Þessir sjö starfsmenn á Lundi fylla samtals 5 stöðugildi. Auk þess að starfa á Kvisti er Dísa sérkennslustjóri og skipuleggur sérkennslu fyrir allt húsið. Kamila annast stuðning við pólsku börnin okkar, en þau verða sjö í vetur, og Svetlana sinnir tónlistinni áfram af sinni alkunnu snilld. Auður sér um Krummastarfið (elstu börnin) og er hún ásamt þeim í Valsárskóla með Guðfinnu í 1.-2. bekk alla mánudaga kl 8-13 við fjölbreytt nám og leiki; forskóli tónlistarskóla og íþróttir eru ma þar á dagskrá og krossum við fingur að Covid muni ekki skemma þetta fyrir okkur! Auk þessa borða Krummarnir morgun- og hádegisverð í Valsárskóla þennan dag og finnst þeim þetta auðvitað heilmikið ævintýri. Hanna sér um útiskólann með Kummum og Spóum á miðvikudögum ásamt Guðfinnu.
Á Hreiðri verða 8 börn 1-2ja ára. Þar ráða ríkjum þær Hanna Dóra og Hjördís, báðar í fullu starfi. Nú er aðlögun nýrra barna langt komin hjá þeim og því stðugleiki og ró að færast yfir mannskapinn, ekki það að á Hreiðri ríkir alltaf mikill stöðugleiki og þær stöllur leggja grunn að farsælli skólagöngu barnanna ykkar. Aldrei er hægt að árétta nægilega vel hve þetta tímabil í lífi barnanna er mikilvægt fyrir félagslega aðlögun og ómetanlegt að hafa þær stöllur sem kjölfestu í leikskólanum.
Alla og Anna Nidia okkar sinna fastri afleysingu á báðum deildum vegna undirbúnings starfsmanna sem er nú tæpar 50 klst. á viku. Við munum því njóta starfskrafta þeirra í öllum heimastofum í vetur. Nanna okkar, sem vann á Kvisti frá því í janúar síðastliðinn, hefur hafið fullt nám í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri og njótum við starfskrafta hennar af og til v. veikindaafleysinga. Þess ber einnig að geta að Auður hefur hafið leikskólaliðanám hjá Símey, Sigga er á 3ja ári í leikskólafræðum við HA, Íris stefnir á að ljúka meistaraprófi í leikskólafræðum og Ásdís (er í fæðingarorlofi) lýkur meistaraprófi í sömu fræðum á næsta ári svo fróðleiksþörf starfsmannanna okkar blómstrar sem aldrei fyrr og er afar ánægjuleg fyrir allt skólasamfélagið!
Kynningarfundur fyrir foreldra verður fimmtudag 23. september kl. 20:00 og vænti ég þess að sjá ykkur öll þar til að kynna ykkur vetrarstarfið framundan og rabba saman og við kennarana.
Bestu kveðjur
Margrét Jensína
skólastjóri Álfaborgar
Álfaborg Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5505 Netfang: alfaborg@svalbardsstrond.is |
Valsárskóli Svalbarðseyri | 606 Akureyri Sími: 464 5510 Netfang: valsarskoli@svalbardsstrond.is |
Tónlistarskóli Eyjafjarðar
Sími 464 8110 |
Vinaborg - frístund Sími 832 4530 Skólabíll Sími: 858 0777
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda skráist hjá skólanum eða á mentor.is.