Áríðandi tilkynning varðandi útiveru barna

Björg var að koma af fundi hjá Almey sem eru Almannavarnir hér fyrir norðan og vill koma eftirfarandi á framfæri eftir þann fund:

 

Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn barna stígi inn og stoppi hópamyndun nú þegar samkomubann er og strangar reglur eru um fjölda einstaklinga í hópum og fjarlægð milli einstaklinga. Almannavarnir leggja áherslu á að bein smithætta er  á mannamótum og við þurfum öll að sameinast í því að stöðva hópamyndun og/eða leiki krakka í hópum. Sparkvellir eru gott dæmi um vettvang þar sem hópamyndun getur orðið. Krakkar innan bekkjar geta verið á sparkvelli á sama tíma en forðast skal blöndun milli hópa. Sama gildir þegar skóla lýkur og við verðum öll að átta okkur á að hér er augljós smithætta á ferð. Það er ábyrgðarhluti að ætla börnum sjálfum að skipuleggja leiki og stöðva hópamyndun og hér verða foreldrar að stíga inn. Foreldrar eru beðnir um að taka þessi skilaboð alvarlega og átta sig á því að við getum ekki leyft börnum að vera úti án þess að við höfum eftirlit með.

 

Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps