Hagnýtar upplýsingar

Afmæli

Þegar barn á afmæli, má það koma með veitingar í skólann fyrir sinn samkennsluhóp. Við sleppum gosdrykkjum og sælgæti. 

Ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum

Nemendur bera sjálfir ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum sínum í skólanum. Nemendur eiga ekki að koma með peninga í skólann að óþörfu og eiga ekki að skilja verðmæti eftir í fötum sínum á göngum eða í búningsklefum.

Það er á ábyrgð foreldra/forráðamanna að merkja vel allan fatnað. Merktur fatnaður skilar sér best. Óskilamunir eru geymdir í körfum í anddyri skólans. Nokkrum sinnum á ári eru óskilamunir lagðir fram til sýnis í skólanum s.s. á samtalsdögum og við skólaslit að vori og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að huga þar að munum barna sinna.

Ábyrgð nemenda á eigin námi

Nemendur bera ábyrgð á námi sínu (skv. IV. kafla 14. gr. lögum um grunnskóla)  með stuðningi kennara og foreldra og allt samstarf er því mikilvægt og stuðlar að metnaði nemenda til að stunda nám sitt af alúð.

Leyfi nemenda

Ef nemandi þarf leyfi getur umsjónarkennari gefið leyfi í einn eða tvo daga. Leyfi í 3 daga eða lengur skal sækja um til skólastjóra á eyðublaði. Eyðublað má finna á vefsíðu skólans.

Forföll í tónlistardeild þarf ekki að tilkynna ef búið er að tilkynna forföll í skólanum en forföll í skólaakstri þarf að tilkynna í síma 8580777.

 Heimsóknir eftir skóla

Þegar nemendur fara í heimsóknir hver til annars eftir skóla, þurfa þeir að vera búnir að fá leyfi hjá foreldrum áður en þeir koma í skólann. Einnig þarf að kanna hvort pláss sé í skólabíl. Slíkt er alfarið á ábyrgð foreldra.

Lyfjagjafir í skólanum


Í tilmælum frá landlækni um lyfjagjafir í grunnskólum frá maí 1999 kemur meðal annars fram að foreldrum/forráðamönnum ber að afhenda hjúkrunarfræðingum þau lyf sem börn og unglingar eiga að fá í skólanum. Börn og unglingar eiga aldrei vera sendiboðar með lyf.  Sjá nánari upplýsingar á síðu landlæknis.

Foreldrar/forráðamenn þeirra barna og unglinga sem þurfa að taka lyf á skólatíma eru vinsamlega beðnir að hafa samband við hjúkrunarfræðinga skólans, umsjónarkennara eða skólastjóra til skrafs og ráðagerða um hvernig best verði komið til móts við þessi tilmæli.

Starfsfólk gefur nemendum aldrei lyf nema í samráði við foreldra.

Matmálstímar

Boðið er upp á graut og ávexti frá kl. 9:05-9:15 og hádegismat kl. 11.35. Nemendur í frístund fá síðdegishressingu kl. 14.30. Morgunmatur og hádegismatur er gjaldfrjáls.

 

Meðferð námsgagna og eigur skólans

Skólinn lætur í té öll námsgögn sem nemendur þurfa að nota við nám sitt. Þeir taka ábyrgð á því og eiga að fara vel með þau. Nemendur og forráðamenn þeirra eru ábyrgir fyrir því tjóni sem nemendur kunna að valda á eigum skólans.

Opnun skóla


Valsárskóli er opinn frá kl. 7.45. Starfsmaður og/eða skólastjóri tekur á móti börnunum og annast gæslu þar til skólastarf hefst kl. 8:05.

Óveður eða ófærð

Þar sem skólinn ber ábyrgð á nemendum á leið úr og í skóla getur þurft að fella niður skólastarf vegna veðurs. Ef veður er svo slæmt að það þurfi að fella niður kennslu í grunnskólanum er foreldrum/forráðamönnum sent sms í skráða farsíma fyrir klukkan 7:15. Eins verður sett inn tilkynning á heimasíðu og facebooksíðu skólans.

Ef veður er tvísýnt metur skólastjóri í samráði við skólabílstjóra, mokstursaðila og fleiri hvort skólabíll sækir börn. Ef talið er að það sé áhætta er skóla aflýst. 

Skólastjóri notar litakerfi verðustofunar til viðmiðunar:

Gul viðvörun - reikna má með skólastarfi nema aðstæður verði verri en gert var ráð fyrir
Appelsínugul viðvörun - veður og færð metin að morgni
Rauð viðvörun - skóla aflýst þegar viðvörun er gefin út

Símtöl

Nemendur geta fengið að hringja á kaffistofu skólans og foreldrar geta jafnframt komið boðum til barna sinna með því að hringja í aðalnúmer skólans.

Skólahúsnæði 

Hver bekkur hefur sína heimastofu, allar á efri hæð hússins. Þar er einnig skrifstofa, vinnurými kennara, kaffistofa starfsfólks, textíl- og myndmenntastofa, fundarherbergi og rými fyrir unglingastigið. Á neðri hæð hússins er bókasafn, matsalur, eldhús, íþróttasalur, tónlistarstofur og aðstaða frístundar. Að auki er kennt í sundlauginni. Heimilisfræði er kennd í eldhúsi skólans og smíðar eru kenndar í rými á milli sveitarskrifstofu og leikskólans. 

Skólalóð 

Leiksvæði nemenda er kringum skólahúsið. Þar eru leiktæki, ærslabelgur og boltavellir. Nemendum er óheimilt að fara út fyrir skólalóðina á skólatíma nema með leyfi eða í umsjón kennara. 

Veikindi

Í skólanum er ekki aðstaða til að sinna veikum börnum. Veik börn eru viðkvæm og vansæl og þess vegna eiga þau ekki að koma í skólann þegar þau eru lasin. Nemandi á að vera hitalaus heima í a.m.k. 1 - 2 sólarhringa. Þegar nemandi kemur í skólann er ætlast til að hann geti tekið þátt í öllu daglegu starfi. Ef þörf er á undantekningin vegna einhverra sérstakra tilfella eru foreldrar beðnir að hafa samband við skólastjóra. 

Útivist / klæðnaður

Nemendur skulu fara út í frímínútur daglega. Kennsla fer stundum fram utandyra, ýmist á skólalóð eða í næsta nágrenni. Brýnt er að nemendur klæði sig eftir veðri hverju sinni þannig að þeir geti notið útivistarinnar í leik og námi. Æskilegt er að nemendur í 1.-4. bekk séu með aukasett af fötum í skólanum. Nemendur í 7 - 10. bekk geta valið hvort þeir fara út í frítíma en þurfa að vera í ró þar sem ekki er gæsla inni. Unglingar sem ekki geta verið í ró í frítíma verður vísað út.