Skólastarfið í sóttvarnahólfum v. COVID-19
Við viljum láta ykkur vita að skólastarfið í sóttvarnarhólfunum gengur vel. Nemendur eru jákvæðir og duglegir að nota grímur og fara eftir öllum sóttvarnarreglum. Þetta er auðvitað nokkuð sérstakt skólastarf en hefst allt með dugnaði og þrautseigju foreldra, nemenda og starfsfólks. Við erum stolt af því hvað við getum haldið uppi miklu skólastarfi samanborið við mörg önnur sveitarfélög.
Það hjálpar okkur mikið hvað við eru fámenn, hvað við höfum marga innganga og hvað allir eru viljugir að leggja á sig mikla og öðruvísi vinnu. Nú hjálpast allir að í skólanum og ganga í flest störf.
Morgunmatur
Það er ágætt að þið vitið að við getum ekki gefið öllum hafragraut á morgnana. Nemendur fá ávexti og grænmeti upp í stofur um kl: 9:00. Þannig að þau eru að fá töluvert minni morgunmat núna en áður. Þau geta komið með nesti að heiman ef þau borða ekkert heima á morgnana.
Umferð
Við þurfum að óska eftir því að foreldrar eða aðrir keyri ekki inn á skólalóðina t.d. til að fara nær gula hólfinu. Við óskum eftir því að foreldrar sem koma á bílum með nemendur keyri bara og/eða leggi á snúningsplaninu eða við Álfaborg.
Samræmd könnunarpróf
Við höfum fleiri jákvæðar fréttir að færa en við fengum niðurstöður úr samræmdu könnunarprófi frá Menntamálastofnun í vikunni. Nemendur í 4. bekk stóðu sig sérstaklega vel og er árangur þeirra langt yfir landsmeðaltali bæði í íslensku og stærðfræði. Nemendur í 7. bekk stóðu sig líka vel en þeir verða ekki bornir saman við aðra þar sem þeir eru bara tveir.
Skólapúlsinn
Allir nemendur í 6. - 10. bekk svöruðu könnun sem heitir Skólapúls í október. Kosturinn við þá könnun er að svör nemenda eru borin saman við svör nemenda í sambærilegum skólum á Íslandi til dæmis með tilliti til fjölda nemenda.
Í stuttu máli er samanburðurinn jákvæður og kom eingöngu einn þáttur tölfræðilega neikvætt út.
Jákvæðar niðurstöður
Gott er að nemendur svara jákvætt spurningum um lestur og stærðfræði og eru í því samhengi jákvæðari en nemendur í sambærilegum skólum.
Hvað varðar skólastarfið þá töldu nemendur að agi í kennslustundum væri góður og komu spurningar sem reyna á aga í kennslustundum betur út en í sambærilegum skólum.
Nemendur geta skráð inn bæði jákvæðar og neikvæðar athugasemdir. Lang flestar athugasemdanna voru jákvæðar og kom fram að nemendur kunna vel að meta fámennið, rólegheit, góð samskipti við kennara og annað starfsfólk og margt fleira. Neikvæðar athugasemdir voru flestar um að krakkarnir höfðu ekki áhuga á dönsku og vildu fá námsmat í tölustöfum.
Neikvæðar niðurstöður
Það kom fram að nemendur í Valsárskóla hafa ekki nægilega mikla trú á sjálfum sér í námi. Það vekur okkur öll til umhugsunar hvernig við getum eflt sjálfstraust nemenda.
Hvað varðar líðan og heilsu þá kom fram að nemendur í Valsárskóla sögðust hreyfa sig minna utan skóla en nemendur í sambærilegum skólum, þeir sögðust ekki borða nægilega hollan mat og þeim líður ekki alveg nógu vel. Þetta er þó ekki tölfræðilega neikvæður munur en eitthvað sem skólasamfélagið þarf að horfa til.
Góða helgi og baráttukveðjur frá okkur öllum í Valsárskóla