Eins og flestir eru meðvitaðir um þá getur notkun samfélagsmiðla valdið ýmsum vandræðum. Nú hefur það komið fyrir að nemendur í Valsárskóla hafa farið inn á miðla og lent þar í samskiptum við aðila sem þeir þekkja ekki. Í slíkum samskiptum hefur því miður komið fyrir að nemendur hafa fengið óviðeigandi myndir sendar t.d. af kynfærum.
Við vitum ekki til þess að einhverjir hafi reynt að fá myndir af börnum í skólanum. Því miður er það þekkt að óprúttnir aðilar fái börnin til að senda myndir af sér í gegnum t.d. forritið Omegle. Það forrit er mjög varasamt en þar er hægt að fara inn á “talk to strangers” og þar hafa menn verið að óska eftir myndum af börnum, hóta þeim svo og borga þeim fyrir fleiri myndir.
Í síðustu viku var ég á námskeiði með skólastjórum víðsvegar af á landinu. Þar kom fram að flestir, ef ekki allir, skólastjórnendur könnuðust við neikvæð samskipti sem nemendur á öllum aldri hafa lent í. Opnir spjallþræðir og nafnlausir hafa reynst sérstaklega varasamir og var miðilinn TikTok nefndur sem uppspretta ýmissa leiðinda og ógeðfelldra mynda eða myndbanda. TikTok virðist í fljótu bragði krúttlegt forrit en síðan er hægt að stilla það á ýmsa vegu. Þróunin er stöðug og voru Facebook, Instagram og Snapchat á ákveðnum tímapunkti einnig vettvangur alls konar leiðinda og geta reyndar verið það enn.
Umsjónarkennarar munu ræða við nemendur í dag og á næstu dögum hvað ber að varast en mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með notkun samskiptamiðla og virði ávallt aldurstakmörk sem þar eru sett.
Góð ráð frá SAFT:
-
Mikilvægt er að gefa ekki hverjum sem er símanúmerið sitt, síst af öllu ókunnugum.
-
Aldrei svara texta- eða myndskilaboðum sem ekki hefur verið óskað eftir og innihalda óviðeigandi efni.
-
Sömu reglur gilda um samskipti í snjallsímum og í daglegu lífi. Einelti er aldrei ásættanlegt.
-
Börn eiga ekki að vera skráð fyrir símanúmerum sínum. Númer sem skráð er á kennitölu barns kemur fram í símaskrá, sem auðveldar aðgengi að barninu.
-
Börn yngri en 13 ára mega ekki vera á Facebook.
-
Samfélagsmiðlar sem bjóða upp á nafnlaus samskipti eru sérstaklega hættulegir.
Meiri upplýsingar og ráð er á; https://saft.is/