Bréf til foreldra í Valsárskóla 12. febrúar 2021

Nú styttist í vetrarfrí í Valsárskóla en það er 17. - 19. febrúar sem er miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur í næstu viku. Miðvikudagurinn er öskudagur og þá stendur foreldrafélagið fyrir skemmtun fyrir 1. - 6. bekk í skólanum. Starfsfólk Vinaborgar og þeir sem eru skráðir þar munu taka þátt. Vinaborg er opin alla dagana en það er fámennt.

Á næstunni er margt um að vera í skólanum. Í byrjun mars koma til okkar kennaranemar úr HA og verða hér í viku. Matsfólk frá Menntamálastofnun mun taka út skólastarfið 1. - 2. mars vegna reglulegs ytra mats. Í sambandi við ytra matið verður haft samband við nokkra foreldra og óskað eftir þátttöku í rýnihópum. Matsfókið mun einnig tala við nemendur, starfsfólk, kennara og einhverja úr skólaráði. Allir þessir aðilar verða valdir með slembiúrtaki af Menntamálstofnun og munum við óska eftir þátttöku einhverra ykkar á næstu dögum. 

Vegna innra mats í skólanum er í gangi rafræn foreldrakönnun sem fyrirtækið Skólapúls sér um fyrir okkur. Í gær var 66% þátttaka og þurfum við að komast uppí 80% svörun þannig að svörin séu marktæk. Það væri mjög gott að fleiri svöruðu þannig að við getum nýtt niðurstöðurnar til að bæta skólastarfið. Nemendur svöruðu könnun í október og voru niðurstöðurnar í lang flestum tilfellum jákvæðar samanborið við sambærilega skóla. Hægt er að skoða niðurstöður við svörum nemenda á heimasíðu skólans undir ,,mat á skólastarfi”. 

Nemendur í 1. - 4. bekk fóru á skauta á þriðjudaginn og skemmtu allir sér vel. Við eigum svo bókaðan skíðadag miðvikudaginn 3. mars fyrir allan skólann en sú dagsetning getur breyst ef við fáum ekki gott veður þann dag. 

Við erum byrjuð að halda skólaþing og leiðtogaþjálfun eftir að við komumst úr hólfaskiptingu vegna covid og hefur það gengið vel. Nemendaráð og skemmtinefnd munu funda í næstu viku, þau hafa hug á því að standa fyrir peysusölu á næstunni sem þið fáið frekari upplýsingar um síðar. Árlegur þemadagur vegna sýningar á Safnasafninu verður 25. febrúar og margt fleira er verið að undirbúa.

Með kveðju úr Valsárskóla