Lokun Hreiðurs – ungbarnadeildar Álfaborgar

Ákveðið hefur verið að loka Hreiðri, ungbarnadeild leikskólans Álfaborgar, miðvikudag, fimmtudag og föstudag.  Ástæða lokunar er COVID-19 smit innan fjölskyldu starfsmanns. Lokunin á aðeins við um Hreiður og aðrar deildir leikskólans opnar. Við viljum hafa varann á og lokum því þeirri deild þar sem óvissa er, þessa þrjá daga eða þar til niðurstaða fæst úr frekari sýnatökum. Þessi ákvörðun er tekin í samræmi við viðbragðsáæltun sveitarfélagsins sem finna má á heimasíðunni svalbardsstrond.is.

Aðrar deildir, nemendur og starfsmenn hafa virt hólfaskiptingu og enginn samgangur verið síðustu tvær vikur og því er hægt að miða lokunina við þá deild sem um ræðir.

Í faraldri eins og þeim sem gengur nú yfir fellur það í hlut stjórnenda að meta hættuna, hvort skólum sé lokað og til hvaða ráðstafana er tekið í viðbrögðum vinnustaða. Vonandi eru þessi viðbrögð of hörð og of mikil en um leið erum við minnt á að slagnum er ekki lokið og veiran berst enn manna á milli.

Hlutfallslega fá smit af COVID-19 hafa greinst hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri, flest börn fá væg einkenni og einnig benda upplýsingar til þess að börn smiti sjaldan aðra. Með lokun ungbarnadeildar þessa daga viljum við koma í veg fyrir veikindi starfsmanna og foreldra. Mikilvægt er að þeir sem finna fyrir einkennum haldi sig heima og leiti sér hjálpar. Starfsmenn Hreiðurs halda sig í heimavið þessa daga og við vonum að hægt verði að snúa aftur til starfa á ungbarnadeildina á mánudag. Við bendum á heimasíðu almannavarna.

Með kveðju
Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps
Margrét Jensína Þorvaldsdóttir, skólastjóri Álfaborgar