Læsistefna

Byrjendalæsi

Byrjendalæsi er kennsluaðferð sem hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Gengið er út frá því börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingarbærar tengingar við eigið líf. Því er margs konar gæðatexti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann nýttur sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning og ritun af ýmsu tagi.   

Í Valsárskóla er unnið út frá áherslum Byrjendalæsis í íslensku og þemanámi á yngsta stigi og ýmsar áherslur eru einnig nýttar í kennslu á miðstigi þar sem það á við. 

Á vorönn 2015 hefja kennarar í Valsárskóla nám í Byrjendastærðfræði þar sem kennsluaðferðir byrjendalæsis eru færðar inn í stærðfræðikennslu á yngsta og miðstigi. 

Frekari upplýsingar um byrjendalæsið

PALS - paralestur

PALS lestrarþjálfun er námsaðferð sem flestir kennarar í Valsárskóla hafa lært. PALS stendur fyrir Peer Assisted Learning Strategies og hefur fengið íslenska heitið Pör Að Læra Saman. PALS er lestrarþjálfunaraðferð þar sem nemendur vinna tveir og tveir saman og fara í gegnum ákveðið ferli. Annar nemandinn les en hinn þjálfar og svo er skipst á hlutverkum. Sá sem byrjar að lesa kallast 1. lesari og sá sem les svo kallast 2. lesari. Kennslustundin skiptist í paralestur, endursögn, að draga saman efnisgreinar og forspá.

Endursögn:
Fyrsti lesari les í 5 mínútur. Annar lesari leiðréttir lesturinn eftir ákveðnu ferli og gefur stig. Eftir 5 mínútur er skipt um hlutverk. Annar lesari les sama texta og fyrsti lesari.

Annar lesari endursegir það sem hann var að lesa. Fyrsti lesari spyr:

1. Hvað gerðist fyrst?
2. Hvað gerðist næst?

Þessi hluti tekur um 2 mínútur

Að draga saman efnisgreinar:
Fyrsti lesari les eina efnisgrein í einu. Annar lesari spyr:

1. Hver eða hvað er mikilvægast?
2. Lýstu því mikilvægasta.
3. Um hvað er efnisgreinin? Segðu frá í 10 orðum (eða færri).

Þetta endurtekur sig í 5 mínútur og þá er skipt um hlutverk.

Forspá: 
Annar lesari spyr fyrsta lesara:

1. Hvað heldurðu að gerist næst ?
2. Lestu hálfa blaðsíðu.
3. Rættist spáin?

Þetta endurtekur sig í 5 mínútur og þá er skipt um hlutverk.

Alls tekur ferlið um 35 mínútur. Gott er að nemendur fara í PALS tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Fyrstu vikurnar fara í innleiðingu og grunnþjálfun í aðferðafræðinni. Skipt er um félaga á fjögurra vikna fresti. Markmiðið með þessu verkefni er að bæta lestrarfærni nemendanna en bandarískar rannsóknir sýna miklar framfarir hjá nemendum sem fá PALS lestrarþjálfun.