Reglur um snjalltæki

Snjalltæki bjóða upp á margar nýjungar í skólastarfi og geta verið gagnleg verkfæri fyrir bæði nemendur og kennara. Á sama tíma geta þessi tæki haft truflandi áhrif í skólum. Sumir skólar bregðast við slíkri hegðun með því að taka tækin af nemendum. Aðrir skólar hafa safnað saman öllum símum í upphafi kennslustundar, til að fyrirbyggja truflun.

Öll börn eiga rétt á menntun við hæfi. Er það því mikilvægt að kennarar geti haldið uppi aga í kennslustundum og tryggt nemendum þann vinnufrið sem þeir þurfa.  Í samræmi við það er tekið fram í lögum að nemendur eigi að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks. Þá eiga allir skólar að setja sér skólareglur og hafa þeir nokkuð svigrúm um inntak slíkra reglna. Þó er ljóst að reglurnar þurfa að vera skýrar og afdráttarlausar og í samræmi við lög og réttindi barna. 

Í Álfaborg/Valsárskóla er litið svo á að ákjósanlegasti kosturinn er að nemendur læri að nota tækin sín á ábyrgan og uppbyggilegan hátt, sér og öðrum til gagns og gamans. Því hefur verið ákveðið að ræða ítarlega við nemendur um notkun snjalltækja í upphafi skólaárs. Ef nemendur vilja koma með síma, snjalltæki eða tónhlöður í skólann þurfa þau að skrifa undir samning um síma, snjalltæki og tónhlöður. Í samningnum er tekið tillit til friðhelgi einkalífs nemenda, eignaréttar og réttar skóla til að skapa nemendum góð skilyrði til náms. 

Samningur um síma, snjalltæki og tónhlöður.