Óásættanleg hegðun

Í Álfaborg/Valsárskóla eiga starfsmenn og nemendur ekki að beita þvingunum eða hótunum til að ná fram ásættanlegum skólabrag. Öll samskipti eiga að vera uppbyggileg - líka þegar leiðrétta þarf óæskilega hegðun.

Þegar starfsmaður þarf að nota ytri stýringu er það ekki með gylliboðum heldur með því að benda á hinn ytri veruleika um ófrávíkjanlegar reglur og óásættanlega hegðun. Þá er notuð svonefnd reglufesta sem byggist á að spyrja um reglur sem skólinn hefur sett; (Ert þú að fara eftir fyrirmælum? Hvernig ferðumst við um skólann?) og hlutverk barnsins í skólanum (ert þú að sinna þínu hlutverki?).

Skólinn setur upp skýr þolmörk um óásættanlega hegðun og þróar samstilltar leiðir til að fylgja þeim eftir.


 

Til að nemendur átti sig betur á því hvar mörkin á milli æskilegrar hegðunar og óásættanlegrar hegðunar liggja verða nemendur að gera sér grein fyrir hvað telst óásættanleg hegðun. Með því móti spornum við enn frekar gegn óásættanlegri hegðun þeirra fáu sem getur skaðað hina mörgu.

Við sættum okkur ekki við að nemandi:

  • Eyðileggi, hindri eða trufli skólastarf, vinnu nemenda og/eða starfsfólks
  • Hunsi fyrirmæli kennara og/eða annarra starfsmanna og láti sér ekki segjast við vinsamlegar ábendingar
  • Valdi öðrum kvíða og öryggisleysi með ofbeldisfullri hegðun sinni.
  • Gangi í eigur annarra, skemmi eða steli

Við óásættanlegri hegðun eru sett skýr mörk. Alltaf er um að ræða samtal við nemandann. Við óásættanlegri hegðun getur nemandanum verið vísað úr skóla í einn dag til að íhuga stöðu sína ef hann lætur ekki af hegðun sinni eftir samtal. 

Skýru mörkin skapa það öryggi og traust sem er nauðsynlegt skólasamfélaginu. Skýr mörk styðja við þá skólamenningu sem skólinn fer eftir og endurspeglast í skólasáttmála. Að framfylgja skýrum mörkum er ekki refsing til að hræða menn til hlýðni við reglur, heldur er það yfirlýsing um að leiðin sem barnið valdi er lokuð og nauðsynlegt að taka af því ráðin.

Starfsmenn og nemendur minna alltaf fyrst á með vinsamlegum ábendingum. Næst með ákveðnum tóni og ef það dugar ekki þarf að fjarlægja nemanda úr aðstæðum (nemendur sækja einhvern fullorðinn sem tekur við nemandanum). 

Í beinu framhaldi er barninu opnuð önnur leið, tækifæri til að læra betri samskipti og byggja þannig upp sinn innri styrk. Þetta er uppbygging sjálfsaga.


 

Markmiðið með þessum reglum er að tryggja öryggi og góð samskipti í skólanum og að vernda þann sáttmála sem hópurinn stendur saman um.

Markmiðið er að viðkomandi styrkist og læri að takast á við mistök á ábyrgan og uppbyggilegan hátt. Áhersla er lögð á að nemendum sé alltaf sýnd virðing og að komið sé fram við þá af yfirvegun. Þegar farið er yfir þau skýru mörk sem skólinn setur þá er oftast brugðist við með því að viðkomandi nemandi er fjarlægður úr hópnum, yfirleitt er hann færður til stjórnanda sem tekur ákvörðun um næstu skref. Á þessari stundu er viðkomandi gerð grein fyrir því að það sem hann gerði sé algjörlega óásættanlegt en að öðru leyti ekki mikið rætt við nemandann fyrr en viðkomandi einstaklingur er kominn í jafnvægi. Í kjölfarið er rætt við barnið og það aðstoðað við að gera áætlun um hvernig það getur mætt þörfum sínum án þess að ógna öryggi sínu eða annarra, lært af mistökum sínum og byggt þannig upp sinn innri styrk. Oftast er ekki rætt við barnið fyrr en eftir talsverðan tíma stundum ekki fyrr en næsta dag þar sem nauðsynlegt er að bæði starfsmenn skólans og barnið hafi tækifæri til að undirbúa sig og ná áttum eftir það sem gerðist.